Kristján Torfason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Kristján
Kristján og Ólafur Hafberg.

Kristján Torfason var settur bæjarfógeti í Vestmannaeyjum árið 1973. Kristján fæddist þann 4. nóvember árið 1939. Foreldrar hans eru Torfi Jóhannsson bæjarfógeti og Ólöf Jónsdóttir.

Kristján varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og lauk cand. juris frá Háskóla Íslands 1967. Hann stundaði nám í þýsku og heimspeki við Háskóla Íslands á árunum 1959 til 1960. Kristján var við nám í verkfræði í Glasgow 1960 til 1961 og við framhaldsnám í sjórétti við Nordisk Institut for sjörett í Osló 1968 til 1969. Kristján tók virkan þátt í félagslífinu á háskólaárunum og var ritstjóri Úlfljóts frá 1965 til 1966 og ritstjóri Stúdentablaðsins árið 1963. Kristján átti sæti í stjórn Hótels Garðs frá 1963 til 1965, var formaður hótelstjórnarinnar um skeið og síðar hótelstjóri þar frá 1965 til 1967.

Kristján starfaði sem fulltrúi hjá Benedikt Sveinssyni hrl. 1967 og seinna meir sem fulltrúi hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík 1967 til 1968. Hann var fulltrúi sýslum. í Gullbringu- og Kjósarsýslu, bæjarfógetans í Hafnarfirði 1969 og síðan skrifstofustjóri þar frá 1970 þar til hann var skipaður bæjarfógeti í Vestmannaeyjum árið 1973. Kristján starfaði sem formaður yfirkjörstjórnar í Suðurlandskjördæmi frá 1974. Hann var formaður Félags héraðsdómara frá 1970. Kristján var fulltrúi Lögfræðingafélags Íslands í launamálaráði Bandalags háskólamanna til 1973. Hann var einnig í stjórn undirbúningsnefndar Norræna laganemamótsins í Reykjavík árið 1964.

Kristján var sýslumaður í Barðastrandarsýslu um 3 mánaða skeið á árinu 1971 í veikindaforföllum skipaðs sýslumanns. Hann var skipaður bæjarfógeti í Vestmannaeyjum 15. desember 1973 og gegndi því starfi til 30. júní 1992. Jafnframt því settur dómstjóri við Héraðsdóm Suðurlands 12. maí það ár til þess að undirbúa stofnun dómstólsins og skipaður dómstjóri við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. júlí 1992 er dómstóllinn tók formlega til starfa. Kristján var skipaður formaður óbyggðanefndar forsætisráðherra 2. september 1998.

Kona hans er Sigrún Sigvaldadóttir. Þau eiga þrjú börn.


Heimildir