Solveig Guðmundsdóttir (Heimagötu 1)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Solveig Guðmundsdóttir húsfreyja á Þrándarstöðum og Bakkagerði í Borgarfirði eystra fæddist 8. apríl 1865 og lést 17. júlí 1951.
Foreldrar hennar voru Guðmundur bóndi í Nesi í Borgarfirði eystra, f. 30. september 1828, d. 17. júní 1890, Ásgrímsson bónda á Hrærekslæk í Hróarstungu, f. um 1788, Guðmundssonar, og síðari konu Ásgríms, Helgu húsfreyju, f. 1796, Þorsteinsdóttur.

Móðir Solveigar og kona Guðmundar í Nesi var Ingibjörg húsfreyja, f. 14. janúar 1830, d. 30. september 1910, Sveinsdóttir bónda í Brúnavík, á Snotrunesi og víðar í Desjamýrarsókn, f. 1787, Snjólfssonar, og konu Sveins, Gunnhildar húsfreyju, f. 1801, Jónsdóttur sterka (annar Hafnarbræðra) í Höfn við Borgarfjörð eystra, Árnasonar prests á Desjamýri Gíslasonar.

Solveig var tökustúlka á Þrándarstöðum í Borgarfirði 1880, húsfreyja þar 1890, í Bakkagerði þar 1901 og 1910 með Vilhjálmi og börnunum Hildi og Björgvin, en Rannveig var í fóstri á Gílsárvelli þar. Solveig og Vilhjálmur fluttust frá Norðfirði að Túni 1912.
Hjónin og Björgvin sonur þeirra fluttust til Borgarfjarðar eystra 1913 og Vilhjálmur lést á árinu. Sólveig sneri aftur til Eyja frá Reykjavík 1917, var hjá Hildi á Sólheimum 1917, hjá Rannveigu á Heimagötu 1 1930 og enn 1945, en að síðustu hjá Gísla dóttursyni sínum á Heimagötu 15.
Sólveig lést 1951. Maður Solveigar var Vilhjálmur Stefánsson bóndi á Þrándarstöðum og í Bakkagerði á Borgarfirði eystra, f. 29. desember 1866, d. 15. október 1913.
Börn þeirra:
1. Hildur Margrét Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 31. janúar 1892, d. 16. júlí 1936, fyrri kona Eyþórs Þórarinssonar frá Oddsstöðum.
2. Rannveig Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 20. apríl 1895, d. 19. október 1970. Hún var fyrr gift Gísla Þórðarsyni frá Dal, síðar Haraldi Viggó Björnssyni bankastjóra.
3. Björgvin Vilhjálmsson sjómaður, skipstjóri, síðar útgerðarmaður á Borgarfirði eystra, f. 30. júlí 1897, d. 9. nóvember 1961.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.