Stefán Austmann

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Stefán Austmann fæddist árið 1829 í Vestmannaeyjum og drukknaði í fiskiróðri 13. mars 1874. Hann var sonur séra Jóns Austmanns og Þórdísar konu hans.

Kona Stefáns var Anna Benediktsdóttir ljósmóðir. Þau giftust 1. nóvember 1852. Þau voru bæði uppeldissystkin og systkinabörn. Bróðir Þórdísar móður Stefáns var faðir Önnu.

Í upphafi bjuggu þau að Ofanleiti, en fengu byggingu fyrir Draumbæ 1853. Þar var heimili þeirra til ársins 1868, þegar Anna var orðin eina skipaða ljósmóðirin í Eyjum. Settust þau þá að í tómthúsinu Pétursborg, sem stóð á Heimatorgssvæðinu norður af Vegamótum og vestur af Jómsborg. Skömmu seinna fluttust þau að Vanangri, sem stóð austan Jómsborgar milli Sæbergs og Urðavegar. Byggingu fyrir Vanangri fengu hjónin 1869 svo og fyrir hálfum Háagarði og hálfri Vilborgarstaðajörð í skiptum fyrir Draumbæ. Stefán drukknaði, þegar Gaukur fórst sunnan við Klettsnef 13. marz 1874.
Anna bjó áfram í Vanangri.

Þjóðsaga úr Eyjum fjallar um Önnu, er hún bjó í Draumbæ og fjallar um huldukonu, sem krafði hana um nafn á dóttur þeirra Stefáns.

Börn þeirra Önnu: Jóhann, f. 1853, dó af slysförum 1866, hrapaði af Hamrinum; Þorbjörg Jena Benedikta, f. 1856, dó á fyrsta ári; Þorbjörg Jena Benedikta, f. 1857, dó sama dag; Þorbjörg Jena Benedikta, f. 1863, dó 1873; Jóhann Lárus, f. 1870, d. 1919.Heimildir