Blik 1965/Séra Jón Þorsteinsson, prestur að Kirkjubæ, síðari hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1965



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Séra Jón Þorsteinsson
prestur að Kirkjubæ
í Vestmannaeyjum
(síðari hluti)


Rauðhellir


ctr

Rauðhellir (Píslarhellir). Örin stefnir á raufina
á hellisþakinu. Þverskurður af hellinum, eins og hann er nú.
Teikning eftir Þ.Þ.V.


Séra Gissur Pétursson að Ofanleiti (1689—1713) segir um Rauðhelli:
„Með því að sá hellir, er séra Jón sálugi Þorsteinsson flýði í, þá hann var af Tyrkjum martyreraður, er nú af brimi og sjógangi niður brotinn, hver eð var niður við sjóinn austur undan Kirkjubæ, sem tvö steinköst frá túngörðum...“
Séra Jón Austmann að Ofanleiti segir um Rauðhelli í sóknarlýsingu sinni 1843:
„Í landnorður frá Kirkjubæ liggur enn nú undir lágum kletti lítið hellisgjögur, sem að mælt er, að séu eftirstöðvar af helli þeim í hverjum Tyrkir árið 1626 (svo í handritinu) drápu séra Jón Þorsteinsson (píslarvott). Í þessu gjögri, sem áður hafði verið hellir, en nú er brotinn upp af sjávargangi, er grjótið rautt, en hvergi þar nærri, og hefur því til forna verið meining sumra, að þetta rauða grjót í hellinum mundi tákna kvalafullan dauða prestsins og þeirra, sem í hellinum voru drepnir með honum, jafnvel þó orsökin sé auðsjáanleg, þar sem er eldurinn og sjórinn.“
Í sóknarlýsingu sinni 1873 nefnir séra Brynjólfur Jónsson ekki Rauðhelli.
Þorsteinn læknir Jónsson (í Vm 1865—1905) skrifar:
„Eigi veit ég, hvort sá hellir þekkist nú, er séra Jón var veginn í enda er þar alltaf að hrapa af, og hellirinn því ekki lengur til eða sjáanlegur, enda fylgsnið mjög vel valið, og hefði hann eflaust aldrei fundizt, ef þessi Snorri hefði ekki verið á flakki úti og sést ofan af brúninni.“
Það var á árunum 1950—1957 að fulltrúi bæjarfógeta hér, Freymóður Þorsteinsson, núverandi bæjarfógeti, lagði leið sína austur með ströndinni norðan og austan kirkjubæjanna. Öðrum þræði hafði hann í huga að leita að hellisgjögri eða skúta, sem kynni að gefa til kynna leifar af Rauðhelli. Við nákvæma leit ofar og neðar í berghamrinum austur af Kirkjubæjum fann fulltrúinn hellisgjögur, sem við nánari athugun minnti vissulega á Rauðhelli eða leifar hans. Í veggjum þessa hellisgjögurs eru á víð og dreif rauðir vikurmolar, sem minna mjög á rauðmalardyngjurnar utan í Helgafelli. Það eru þeir „blóðdropar“, sem trúað fólk á 17. og 18. öldinni var sannfært um að hefðu hlotið rauða litinn sökum hins skelfilega atburðar, er átti sér stað í helli þessum, þegar eitt kunnasta sálmaskáld þjóðarinnar á ofanverðri 17. öldinni, presturinn og trúarskáldið séra Jón Þorsteinsson, var myrtur þar af trúarlegum ástæðum að fólkið taldi víst og satt.
Sá, sem þetta ritar, hefur margsinnis skoðað þetta hellisgjögur, sem er í bergbrúninni austur af Kirkjubæjunum. Tvennt er það sérstaklega, sem er sannfærandi um þessa ályktun. Í fyrsta lagi rauðu bergmolarnir, sem eru sérkennilegir fyrir þetta hellisgjögur hér á Heimaey, og svo raufin í þaki hellisins. Líklegt er að satt sé, að mikið hafi hrunið framan af hellinum á undanförnum öldum og árum, og hann því stytzt að mun. Hafi hann verið mikið lengri, sem líklegt er, hefur verið myrkt innst í honum uppi í þrengslunum, þar sem konurnar leyndust, og myrkrið þar bjargað lífi þeirra eins og sagt er í Tyrkjaránssögu.

Skáldskapur
séra Jóns Þorsteinssonar


Séra Jón Þorsteinsson mun snemma hafa fundið hjá sér hvöt til að setja saman vísu og vers. Trúað gæti ég því, að hann hefði þó byrjað á því fyrir alvöru, er hann las guðfræðina og hiti trúarinnar við aukinn skilning og fræðslu fór vaxandi og sannfæringin gagntók sálarlífið. Hins vegar verður séra Jón ekki umtalað sálmaskáld með þjóðinni og dáður höfundur andlegs kveðskapar fyrr en hann er setztur að í Vestmannaeyjum. Hann líkur Davíðssálmum sínum 1622. Hann mun hafa afritað þá í fleiri eintökum og sent þá vinum sínum í prestastétt. Davíðssálmar hans eru alls 150, þar af 130 kveðnir af prestinum sjálfum, en 30 sálma höfðu aðrir kveðið áður og tók prestur þá inn í safn sitt. Davíðssálmar voru gefnir út tvívegis á Hólum, árið 1662 og 1746.
Þegar séra Jón hafði lokið Davíðssálmum, tók hann til við svo kallaða Genesis-sálma, sem eru 50 að tölu. Efnið er 1. bók Mósesar þrædd all-nákvæmlega. Sálmar þessir voru fjórum sinnum gefnir út á Hólum, — árið 1652, — 1678, — 1725 og 1753. Einnig þá sendi séra Jón vinum sínum í prestastétt og hlaut mikið lof fyrir. Með sanni má segja, að séra Jón söng sig inn í hug þjóðarinnar á síðari æviárunum með öllum sálmunum sínum, sem voru mjög margir fyrir utan þá, sem ég nú hefi nefnt, t.d. nýárssálmar, jólasálmar, bænasálmar, morgunsálmar o.m.fl., og svo andleg ljóð önnur og kvæði. Kveðskapur séra Jóns Þorsteinssonar finnst í fjölda mörgum kvæða- og sálmahandritum í Landsbókasafninu og sannar okkur, hve víða sálmar hans og kvæði hafa verið kunn með þjóðinni og vissulega þótt þess verð, að þeim væri haldið til haga.
En enginn sálmur eftir séra Jón Þorsteinsson er nú í íslenzkri sálmabók og hefur ekki verið í seinni tíð að ég bezt veit. Hins vegar eru í sálmabókinni 1871, sem gefin var þá út í Reykjavík, a.m.kosti 4 sálmar, sem vafi leikur á og sem að efni og andagift, trúarhita og auðmýkt minna mjög á sálma séra Jóns Þorsteinssonar, enda þótt þeir séu með athugasemd eignaðir Magnúsi Stephensen. Ef til vill hefur hann leikið séra Jón Þorsteinsson grátt um breytingu á sálmum hans eins og nafna hans, séra Jón Þorláksson á Bægisá, svo sem kunnugt er af „Rustasneið“, kvæði séra Jóns á Bægisá.
Eins og ég hefi áður drepið á, hlaut séra Jón Þorsteinsson mikið lof lærðra manna fyrir kvcðskap sinn. Ýmsir þökkuðu presti með vísum eða kvæðum sálmakveðskap hans. Séra Ólafur Einarsson í Eydölum hefur lofsöng sinn til séra Jóns með þessari ljóðlínu: „Svanur einn syngur hér fugla bezt...“
Séra Einar Guðmundsson á Stað á Reykjanesi yrkir til séra Jóns, m.a.:

Séra Jón sæmd og æru
og sannan fær lofstír manna
— þann vér Þorsteinsson kennum —
þetta verk fyrir sig setti
og vandað gat allt til enda.

(Ort, þegar séra Einari bárust Davíðssálmar).
Og enn segir séra Einar:

„Þorsteinssonur hinn hæsta
hefur lofstír án efa ...


Séra Jón segi ég færi
sæmd og blessun auðdæmda
yfir sitt hús um ævi
og ættarlýð sinna niðja.
....
Því bið ég: séra Jón bróðir
blessist af starfi þessu.“


Séra Gísli Oddsson, þá prestur í Holti undir Eyjafjöllum, síðar biskup, kvað til séra Jóns:

„Séra Jón, sem nú þénar
söfnuði, bróðir í guði,
Vestmannaeyja, þar önnur
ærustjarna guðs barna.“


En þótt lofið fyrir kveðskapinn hafi þannig veitzt séra Jóni í ríkum mæli á þeim tíma, er hann orti sálma sína, hefur seinni tíminn breitt hulu yfir þá og gleymt þeim. Því er þannig öfugt farið um kveðskap hans og sálmaskáldsins mikla, sem var 13 ára drengur á Hólum í Hjaltadal, er séra Jón var myrtur, Hallgrímur Pétursson. Hans sálmar virðast vera sígildir með þjóðinni, þótt „tímarnir breytist og mennirnir með“. Hvað veldur? Frá almennu leikmannssjónarmiði virðist mikið skilja skáldskaparlist séra Jóns Þorsteinssonar annars vegar og séra Hallgríms Péturssonar hins vegar, þótt þeir í heitri trú sinni minni að ýmsu leyti hvor á annan og séu andlega skildir, heitir og einlægir trúmenn, bljúgir og auðmjúkir frammi fyrir hásæti hins heilaga, algóða guðs síns, alvitra og miskunnsama. Eins og mestu varðar, að undirstaðan rétt sé fundin, eins og þar segir, eins lifir enginn kveðskapur lengi með þessari þjóð, sé hann ekki búinn listrænum búningi. Hér hygg ég að skilji „feigan og ófeigan“ í þessum efnum, hverju svo sem jafn merkur fræðimaður og Sighvatur Gr. Borgfirðingur heldur fram eða viðurkennir. Um kveðskaparlist séra Jóns Þorsteinssonar hafa fræðimenn sem sé ekki verið á eitt sáttir á seinni tímum. Hins vegar eru það staðreyndir, að þjóðin hættir að sakna sálma hans og annars kveðskapar með vaxandi gengi, auknu víðsýni og þverrandi tárum. Freistandi er að álykta, að kveðskapur séra Jóns hefði lifað lengur með þjóðinni, hefði hann vandað búning hans betur.
Séra Jón Þorsteinsson söng sig inn í hjarta þjóðarinnar, þegar hún var í sárustu nauðunum. Trúarhiti hans, trúarauðmýkt í hógværð og einlægni féll vel í geð auðmýktri og undirokaðri þjóð, vonlítilli um framtíð í landi sínu, sem hún þó unni og vildi halda áfram að eiga. Sú ástsæld og sá orðstír, er séra Jón gat sér með þjóðinni, entist nafni hans fram á 19. öldina eða um tveggja alda skeið. Hinar miklu gáfur hans og snjöllu ræður, sem víða var getið, mannkostir hans og hógværð annars vegar og svo hin hörmulegu örlög hans og kvalafullur dauði fyrir ræningjahendi hins vegar, sveipaði minningu hans dýrðarljóma. Hann hlaut og bar um langt skeið viðurnefnið „píslarvottur“. Hvers vegna hann fremur en Jón biskup Arason? Olli þar mestu um, hverjir morðin frömdu?

Börn prestshjónanna,
séra Jóns og madd. Margrétar,
voru þessi:


1. Séra Jón, prestur og skáld að Melum í Melasveit. Fæddur var hann um 1596 og dáinn 1663. Hann skráðist í stúdentatölu til guðfræðináms við Hafnarháskóla 16. okt. 1616. Séra Jón Jónsson var prófastur í Þverárþingi sunnan Hvítár alla prestsskapartíð sína eða frá 1626 til dauðadags (1663). Hann tók við prófaststigninni af séra Böðvari Jónssyni prófasti í Reykholti, sem lézt 1625.
Fitjaannáll segir svo um séra Jón á Melum: Guðhræddur og vel lærður kennimaður, snjall ræðumaður og skáld, vel látinn og vel talandi.
2. Séra Þorsteinn, prestur að Holti undir Eyjafjöllum. Fékk þann stað 1631 og hélt hann til dauðadags 1667. Fæðingarár ókunnugt.
3. Jón (yngri) f. 1612 að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum. Hann var 15 ára er afríkönsku ræningjarnir hertóku hann ásamt móður hans og systur og fluttu til Algeirsborgar. Hann er sagður hafa komizt til hinnar mestu mannvirðingar með Tyrkjum sökum sérstakra gáfna og hæfileika. Varð hann skipstjóri og flotaforingi og þótti afburða stærðfræðingur og slyngur mannvirkjagerðarmaður, stórgáfaður ævintýramaður, sem margar sagnir fóru af.
4. Margrét, sem Tyrkir hernámu og seldu í þrældóm. Sagt er, að hana keypti spænskur eða franskur kaupmaður, sem kvæntist henni og gat með henni börn.
5. og 6. Tvær aðrar stúlkur eignuðust prestshjónin að Kirkjubæ, en þær dóu báðar mjög ungar.

———

Hér birti ég að lokum tvö andleg ljóð eftir séra Jón Þorsteinsson.
Ekki er mér kunnugt um, að þau hafi verið prentuð fyrr. Þau er að finna í mörgum handritum í Landsbókasafninu, eins og fjölmarga sálma hans. Þegar borin eru saman hin ýmsu handrit þessara ljóða, kemur í ljós, að næsta ótrúlega mikið ber á milli um orðaval o.fl. í handritunum.


Hrakningskvæði
séra Jóns Þorsteinssonar


Haustið 1623, 3. september, fóru 19 menn frá Eyjum suður að Súlnaskeri til súlnaveiða. Þeir hrepptu afspyrnuveður fyrir sunnan Eyjar, svo að þeir héldust eigi við Skerið. Þá rak og þeir hröktust um úfinn sæ fyrir stórsjó, roki og regni. Loks náðu þeir landi við suðurströndina, sögnin segir í Þorlákshöfn: Heim til Eyja náðu þeir aftur 7. s.m. eða eftir 4 daga og höfðu þá verið taldir af með öllu. Einn manninn tók út og drukknaði hann.
Um sjóhrakning þennan orti séra Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ þetta kvæði.
Kvæðið finnst í mörgum handritum og ber þeim illa saman um orðalag eða orðaval í kvæðinu. Þar af sprettur mismunandi rímsnilld, þó að hugsun hafi jafnan lítið brenglast.

Almáttugur, eilífur guð,
allra dýrðar kóngur,
sem hirtir oss með hryggð og nauð,
huggar þó með náð og brauð,
himinn og jörð þér heiðurinn fyrir það syngur.


Fornu dæmin finnast mörg,
faðir, í stjórnan þinni,
að straffast mætti illskan örg,
en angruð hjörtun fengju björg,
meðan þau bót á bölinu öllu vinni.


Adam féll og Eva með,
út voru rekin bæði
döpur og hrygg með grátlegt geð,
guð minn hefur þá neyð ei séð,
en huggaði þau fyrir heilagt kvinnu sæði.


Lot með hryggð og hrædda sál
hlaut úr borg að rýma.
Senn tók rigna biki og bál, —
bjargaðist hann fyrir englamál, —
í litlum** guð minn vildi hann geyma.

** Orðið er óskiljanlegt í þeim handritum, sem ég hef séð. — Þ.Þ.V.

Nói sá, að syndug þjóð
sökk í dauðans pínu.
Illa menn drap ógnaflóð,
en örkin honum skýldi góð.
Þannig hlífir himnafaðirinn sínum.


Pathrearkar þungum þrír
þrautum urðu að mæta.
Ýmislega angrið býr,
en öllu guð í fögnuð snýr.
Með soddan móti sinna mein vill bæta.


Raunamædd yfir Rauðahaf
reika guðsbörn hlutu.
Herrann lét þeim hrökkva af,
en heiðna fólkið sökkva í kaf.
Rétttrúaðir náðar drottins nutu.


Góðir menn í gamal tíð,
guðs vors fólks dómendur,
við ótal margan illskulýð
urðu fáir að halda stríð,
trúin vann meir en hreysti, sverð eða hendur.


Móises með mæðu og sorg
í margan háska sveimar.
Herrann var hans hlífðarborg
og hjálparmúr yfir sjó og torg,
eins vill drottinn alla sína geyma.


Spámenn guðs hafa þunga þján
og þrautir haft að reyna,
foraktan og fjárins rán,
flótta, rekstur, háð og smán,
drottinn sneri því öllu í huggan eina.


Postular Kristi mættu með
mæðu allra handa.
Drottins menn með dapurt geð
dauðans ógn hafa tíðum séð,
þó lét guð þeim háskann öngvan granda.


Davíð var fyrir syndasút
sorgarbundinn línu.
Tíðum vætti hann táraklút,
til þess drottinn leiddi hann út
með sinni náð frá samvizkunnar pínu.


Þvílíkt færðu fyrri menn
til frásagnar í letri.
Mér og öðrum eins ber enn
ástverk guðs að prísa þrenn.
Þakklát hjörtu hrósast hinum betri.


Annála má nýja náð
nú svo margir fregni,
þá ein sérleg dyggð og dáð,
drottins verk og hjálparráð
frelsar yfir manns skilning og megni.


Þannig hefur guð hirt og þjáð
hreintrúaða forðum
og innilega að þeim gáð,
aftur huggað strax með náð,
svo vottar hann sig við oss enn í gjörðum.


Kraftaverkin drottins dýr
eru daglega fyrir sjónum,
hryggðin stærst, þá hjartað býr,
henni guð í fögnuð snýr.
Margan frelsar manninn svo úr raunum.


Jónas þegar skilja skal,
skipsfarar sér beiddi,
senn var grýttur í sjó og hval,
svartan gekk hann harmadal.
Guðs míns höndin lífs hann þaðan leiddi.
———
Í Vestmanneyjum undran sú
á þeim tíma skeði
þúsund söm við sæla trú,
sextán hundruð tuttugu og þrjú,
hryggð var mikil, en hún snérist í gleði.


Septembris þann þriðja dag
þá fór skip til veiða,
vitjandi sér happ í hag,
hvert ár er það venjulag
fugl í Skeri fjarlægu að deyða.


Nítján menn á fiskifar
frjálshugaðir gengu.
Skyggðist loft með skýjafar,
skiptust sjór og bylgjurnar,
strax samdægurs storm og regnið fengu.


Undir skerinu skipið lá,
skjól þó lítið væri.
Þar var hríðin hörð og grá,
hrakti þaðan í burtu þá,
leiða nóttin degi var nokkuð nærri.


Út á hafið blátt og breitt
bar þá veðrið stríða.
Ráð var eigi annað neitt,
eilífan guð þeir báðu heitt,
gjörðu svo allir glaðir dauðans bíða.


Enginn gat það orkað neinn,
því ógnin gekk hin stríða,
þar til réttur róðrarteinn
rikkti á og tók burt einn
upp úr skipinu út í sjóinn víða.


Farviðurinn flaut í burt,
flæktist skip í bárum.
Hver hefur meiri háska spurt
um hauðrið vítt og landið þurrt,
fækkað hafði fjórum róðrarárum.


Ifrið fjarlægt út í haf
ógnin löng þá hrakti,
aldrei gat þó komið í kaf,
kóngur himna lífið gaf.
Yfir þeim góður engill drottins vakti.


Þúsund mörg kom bylgjan blá,
sem boðaði þeim dauða,
en þeir hrópuðu herrann á,
hraustir í trúnni voru þá,
og báðu um náð á blóðið Jesú rauða.


Þar til linnti langri þrá,
lægði storm um síðir,
svo þeir undu upp segl við rá,
sigldu hratt og landið sjá,
komu í veginn brimhryggir óblíðir.


Lengi hröktust þar í þeir,
þó kom ekki að grandi.
Fylgdin guðs þá ferjaði meir
í fagra höfn, þar sjórinn deyr,
svo komust þeir lífs að Suðurlandi.


Svo hafa þeir fyrir utan of
englakónginum sanna
sungið af hjarta heiður og lof,
hver þeim líf og landið gaf,
dýrki hann bæði himnahirð og manna.


Kærleiksfullan, fróman mann
fyrir hittu á landi,
þeim gjörði vel til góða hann,
guð eilífur blessi þann
og launi honum með eilífu ástarbandi.


Ó, hvað hryggðin hér í sveit,
hjartans kvöl og pína
angraði þennan auma reit,
allra helzt á konurnar beit,
allt til þess þær sáu mennina sína.


Septembris þann sjöunda dag
sendi guð þá hingað.
Þeir lentu hér með ljúfalag,
líka gekk þeim allt í hag.
Margt huggaðist hjartað, sem var áður þvingað.


Syrgjandi var sætan ein,
sú, sem mann sinn missti.
Hélt um brjóstið hringarein,
henni var búið dauðans mein.
Svanninn þessi sútir margar gisti.


Svo hefur herrann himnum á
hryggð í gleði snúið.
Skulum vér gleyma þessu þá,
þegja, og ekki minnast á
frelsarans lof, á fyrsta deginum búið?


Ó, mín börn ég yður bið
aldrei slíku týna.
Heiðrum saman himnasmið,
hvar oss veitir svoddan lið.
Lof sé honum fyrir lausnargjöfina sína.


Ég vil kenna öllum ráð,
sem á því skipi vóru,
er reyndu svoddan dyggð og dáð,
drottins verk og hjálparráð,
að guðsbörn forðist glæpaverkin stóru.


Þakkið honum og hlýðið rétt
herrans dýrðarboði,
sérhver forðist svik og prett,
sína vakti æru og stétt,
svo ekki skaði annar stærri voði.


Margt vill þjaka þungt að oss,
því svo tíðum brjótum.
Þjáning lands og lastafoss
leiðir með sér þungan kross,
þá er vor huggun, að náðar drottins njótum.


Syndabylgjum ógnun af
oss nú tekur að standa.
Grenjar tíðum glæpahaf,
guðsbörnum vill hrinda í kaf,
landið stendur allt í eymd og vanda.


Ótrúskapur okkar og tál,
undirhyggja og prettir,
hvikult sinni og hræsnismál,
fagurgala og sora sáð,
þessir siðir þykja góðir og réttir.


Nýung stór og bréfabrot
bögur í staðinn laga.
Fagra plássið felldi í rot,
fáir hafa af djörfung not,
á bak en ekki í æran þora að klaga.


Sumir leggja á leyndarráð,
lands þó heiti bagi,
fagurgala og sora sáð,
svikin spretta úr hyggjuláð,
eins og gjörði Alcheus hinn slagi.


Þeirra börnum kemur í koll,
kannske sjálfum líka.
Ei mun ótrú endaholl,
Absalon varð hún að þoll,
föður sinn vildi fróman á henni svíkja.


Þetta held ég hættusjó
hér í sveit að lenda,
eignir vorar, yndi og ró
út á sínar bylgjur dró,
drottinn minn hér gerir góðan enda.


Bevari oss þín blessuð náð
bæði á sjó og landi,
þín ætíð blessi lýð og láð
líknarhönd og hjálparráð,
að enginn háski, ógn né pína grandi.


Himnafaðirinn hjálp oss nú,
hönd út réttu þína,
haltu oss við björg og bú,
böli og eymd í burtu snú,
þá skal ekki þakkargjörðin dvína.


Lofaður sértu, líknin stærst,
lof sé þér án enda.
Lofið þitt sé lofið hæst,
lofi þig allir firr og næst,
lofið skulu þér sálir vorar senda.


Hver sem þessi heyrir ljóð,
heiðri föðurinn sanna,
sem bevarar sín börnin góð
og birtir slíka dásemd þjóð,
lofaður sértu líknargjafarinn manna.


Ég vil láta sorgarsöng
um síðir taka enda,
eins mun þjáning endast ströng,
eftir það er huggan löng,
þá heima fáum í himnaríki að lenda.

Árið 1616 sigldi Jón Jónsson, elzti sonur prestshjónanna að Kirkjubæ, frá Eyjum til háskólans í Kaupmannahöfn til þess að lesa þar guðfræði, eins og áður getur. Þá mun hann hafa verið um tvítugt. Áður en piltur hleypti heimdraganum, orti faðir hans sálm sem kallaður er í heimildum


„Einn sálmur séra Jóns Þorsteinssonar um siglingu hans sonar“.

Að iðka gott með æru
æðstum kóngi himnum á
burtför skal barni kæru
búin vera sínum frá;
sé þér fritt svo vel megir;
sorgin mitt hjarta beygir;
blessist þitt áform allt og vegir.


Og haf þér, elsku niðji,
aðskiljanleg dýrðleg þing,
sterkan sprotann svo styðji, —
stálspegil og gullhring.
Fæ ég þér það í hendur,
þú frá mér burt ert sendur.
Hvar sem fer, haf, þó sért ókendur.


Við náðarheit hins hæsta
hvern dag styð þú líf og sál.
Velgengnin veitist glæsta,
vegferðin þó sýnist hál.
Frábær dýrð, frægð og verja,
fjandann lýr, sem á herjar,
tryggur ver þú við hættu hverja.


Þér fyrir sjónir settu
sérhvern daginn guðslögmál,
glögglega þar að gættu
guði að þjóna í lífi og sál.
Hlýðnin er offrið mesta,
ást á þér guð mun festa,
ef þú fer braut lögmálsins bezta.


Hafðu og hringinn góða,
hendi tak hann aldrei af,
sem er hjálpræðið þjóða,
þér og mér til eignar gaf.
Ástin sæt herrans hreina,
hún er bót allra meina.
Þeirra njót, þú munt gæðin reyna.


Í Danmörk út ert sendur
orðið guðs að læra vel.
Hæstum guði á hendur
hjartabarnið ég þig fel,
sjálfur á sjó og landi
sé þér hjá, forði grandi,
til og frá í friðnum þig leiðandi.


Burt frá foreldrum sínum
fór Jakob, útburður var,
en drottinn hélt með honum,
hann gerði auðugan þar.
Jakob hét honum að þjóna,
hjartað lét á hann vóna.
Ég þér set svoddan reglu eina.


Hann hreppti lukku langa
landi annarlegu á.
Guð láti þér svo ganga,
geymi hann þín til og frá.
Gáðu hans, hann þín gæti,
himnaranns þenk á mæti,
föðurlands friðar eignast sæti.


Eins og guðsengill leiddi
yngra Tobíam fram og til,
gjörvallan veg hans greiddi,
gekk honum þá allt í vil.
Unni hann þér þess hins sama,
þú sækir þér góðan frama,
hvar sem fer, hann virðist þig geyma.


Með Israels almúga
út í sjóinn gaf hann sig.
Virðist nú hans svo auga
á hafinu að vakta þig
og alla þá, þér með fara,
þeirra á leið, þá bevara,
glaður sjá land og landsins skara.


Ó, drottinn í því landi
iðulega gæti þín,
forði við glæpagrandi,
geymi þín frá allri pín.
Þér sé tjáð sæmdin sanna,
sért í náð guðs og manna,
allt þitt ráð efli guð himnanna.


Minnstu og móður þráða
með þeim tárum heitum, þreytt,
það horfist þér til náða
þrávallt, ef athugaðir slíkt.
Hennar bæn hvern dag skeður
heit og væn tárum meður,
hjartað vænt herrans náðin gleður.


Hún biður herrann góða
að hjálpa þér fyrir líf og sál
og vakta þig frá vóða,
verkin blessa þín og mál.
Farðu af stað í friði sönnum,
flykkist að þér blessan í hrönnum,
finndu náð fyrir guði og mönnum.


Ó, að við augum fengi
aftur þig með gleði að sjá.
Mætti ég lifa svo lengi,
lofa mundi ég drottinn þá.
Farðu úr faðmi mínum,
faðmi þig trúr guð í sínum,
verndarmúr á veginum sé hann þínum.


Ó, hjartans elsku niðji,
ég fel þig í drottins hönd,
heim og heiman þig styðji,
hjálpi þér um sjó og lönd.
Sonarkind á sæ ert laminn,
sjáist þinn þar réttur framinn.
Góður minn guð blessi þig. Amen.


Að lokum er hér eitt vers úr einum af hinum mörgu sálmum séra Jóns Þorsteinssonar. Væri synd að láta sér koma til hugar, að sálmaskáldið hefði í huga hina efnalegu áþján sóknarbarna sinna annars vegar og hins vegar þá, sem áþjáninni og eymdinni ollu með gegndarlausu arðráni og fantatökum?

Hvað viltu gjöra, mæti mann,
með þann rangfengna auð?
Guðs kærleik frá þér kúgar hann,
kallast má sálin dauð.
Hugsaðu mest um himnarann,
haltu þér fast við guð.
Þá strax ég hugboð þetta fann,
þverraði syndin snauð.

Heimildarrit: Menn og menntir P.E.Ó., Saga Íslands, 4. bindi, Saga Tyrkjaránsins, Einokunarverzlun Dana á Íslandi eftir Jón Aðils, Prestaævir í handriti S.Gr.Bf. og ýmis handrit önnur í Landsbókasafni.

Til baka