Árni Guðmundsson (Brekkuhúsi)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Árni Guðmundsson bóndi í Brekkuhúsi fæddist 18. desember 1817 að Ártúnum á Rangárvöllum og lést 20. júlí 1889.
Faðir Árna var Guðmundur bóndi í Ártúnum, síðar á Búlandi í A-Landeyjum, f. 1779 í Ólafshúsum u. Eyjafjöllum, d. 23. febrúar 1848 í Syðri-Vatnahjáleigu í A-Landeyjum, Benediktsson bónda í Ólafshúsum, f. 1740, Árnasonar bónda í Álfhólum í V-Landeyjum, f. 1712, á lífi 1801, Jónssonar, og konu Árna, Þorgerðar húsfreyju, f. 1711, á lífi 1801, Guðmundsdóttur.
Móðir Guðmundar í Ártúnum og kona Benedikts í Ólafshúsum var Sigríður húsfreyja, skírð 16. júlí 1751, d. 22. apríl 1819, Guðmundsdóttir bónda á Steinkrossi á Rangárvöllum, f. 1712, Hallvarðssonar, og konu Guðmundar, Katrínar húsfreyju, f. 1721, d. 17. júlí 1799, Helgadóttur.

Móðir Árna í Brekkuhúsi og kona Guðmundar í Ártúnum var Guðrún húsfreyja, f. 18. júní 1879, d. 14. janúar 1842, Vigfúsdóttir bónda í Búðarhóls-Austurhjáleigu (Hólavatni) í A-Landeyjum, síðar í Eystra-Fíflholti í V-Landeyjum, f. 1749, d. 27. febrúar 1813, Magnússonar bónda á Kirkjulandi í A-Landeyjum, f. 1702, á lífi 1763, Ólafssonar, og konu Magnúsar, Kristínar húsfreyju, f. 1712, d. 18. desember 1809, Jónsdóttur.
Móðir Guðrúnar í Ártúnum og kona Vigfúsar í Búðarhóls-Austurhjáleigu var Guðlaug húsfreyja, f. 1754, d. 5. júní 1820, Jónsdóttir bónda á Vindási á Landi, f. 1727, d. 12. febrúar 1787, Bjarnasonar, og konu hans, Ástríðar húsfreyju, f. 1729, d. 28. nóvember 1785, Jónsdóttur.

Systkini Árna í Eyjum voru:
1. Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja í Hólmahjáleigu í A-Landeyjum, síðar í Draumbæ, f. 26. desember 1813, drukknaði 29. september 1855.
2. Þorgerður Guðmundsdóttir vinnukona í Brekkuhúsi, f. 15. febrúar 1824, d. 1. júní 1866, ógift.
3. Guðmundur Guðmundsson gullsmiður, mormónatrúboði og forseti safnaðarins í Eyjum, síðar í Lehi í Utah, f. 10. mars 1825, d. 20. september 1883, kvæntur Maríu Guðmundsson (dönsk kona).
4. Guðrún Guðmundsdóttir húsfreyja í Vanangri, f. 19. september 1828, d. 9. september 1860, gift Magnúsi Eyjólfssyni silfursmið.
5. Benedikt Guðmundsson vinnumaður í Háagarði, f. 19. apríl 1821, drukknaði 26. mars 1842. Hann var faðir Péturs í Þorlaugargerði ættföður eldri Oddsstaðasystkina.

Árni var 22 ára með fjölskyldu sinni í Austur-Voðmúlastaðahjáleigu í A-Landeyjum 1840.
Hann var kvæntur sjómaður í Brekkuhúsi 1845 með Þóru, Oddrúnu tengdamóður sinni og Guðrúnu Stígsdóttur mágkonu sinni.
1850 var hann í Brekkuhúsi með Þóru og barni þeirra Auðuni Árnasyni þriggja ára. Vinnukona var Sigríður Guðmundsdóttir systir hans, og hún var með dóttur sína Valgerði Níelsdóttur hjá sér.
1855 var Árni sjávarbóndi í Brekkuhúsi með Þóru og börnunum Auðuni 7 ára og Guðlaugi 3 ára. Guðrún mágkona hans var þar í heimili.
Auðun hrapaði til bana úr Hamrinim 1859.
1860 voru þau Þóra í Brekkuhúsi með Guðlaug son sinn og Guðrúnu vinnukonu, systur Þóru. Þar var einnig María Magnúsdóttir 7 ára tökubarn um stund. Hún var systurdóttir Árna, dóttir Guðrúnar og Magnúsar Eyjólfssonar silfursmiðs. f. 18. maí 1854, d. 20. júlí 1861.
1870 voru þau enn búandi í Brekkuhúsi með Guðlaug 17 ára. Vinnufólk var Guðlaug Magnúsdóttir 17 ára, en hún var líka systurdóttir Árna. Vinnumaður var Þóroddur Sighvatsson 40 ára kvæntur fyrrum bóndi á Núpi u. Eyjafjöllum.
Niðursetningur var Ingimundur Árnason 11 ára.
Guðlaug son þeirra Árna og Þóru tók út í Brimurð 1877.
1880 voru hjónin próventufólk í Brekkuhúsi hjá Sigurði Ögmundssyni bónda og konu hans Sigríði Magnúsdóttur húsfreyju.
Árni lést 1889. Hann hafði veikst á geði, hvarf að heiman um nótt og fannst látinn á floti við Hamarinn.

Kona Árna, (28. október 1841), var Þóra Stígsdóttir húsfreyja í Brekkuhúsi, f. 29. janúar 1824, d. 8. október 1892.
Börn þeirra hér:
1. Þorkell Árnason, f. 4. nóvember 1842, d. 6. desember 1842 úr ginklofa.
2. Stígur Árnason, f. 11. júní 1844, d. 18. júní 1844 úr ginklofa.
3. Valgerður Árnadóttir, f. 1. júní 1846, d. 8. júní 1846 úr ginklofa.
4. Auðun Árnason, f. 3. október 1848, d. 7. september 1859, hrapaði úr Hamrinum.
5. Guðlaugur Árnason, f. 24. nóvember 1852, drukknaði 27. janúar 1877, tók út í brimi, er hann gekk á reka í Brimurð.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.