Björn Bergmundsson (Nýborg)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Björn Bergmundsson.

Björn Bergmundsson frá Nýborg, sjómaður, vélstjóri, matsveinn fæddist 26. september 1914 í Götu og lést 26. mars 1981.
Foreldrar hans voru Bergmundur Arnbjörnsson frá Presthúsum, síðar í Hvíld, sjómaður, bræðslumaður í Nýborg, f. 17. október 1884 í Klöpp, d. 21. nóvember 1952, og kona hans Elín Helga Björnsdóttir frá Miðbæ í Norðfirði, húsfreyja, f. 19. maí 1888 að Tjarnarlandi á Héraði, d. 7. ágúst 1963.

Börn Bergmundar og Elínar:
1. Laufey Bergmundsdóttir húsfreyja í Eyjum, f. 1. apríl 1911 í Brautarholti, d. 21. júní 1996.
2. Guðrún Hildur Bergmundsdóttir, f. 1. júní 1912 í Presthúsum, d. 1. júlí 1913 í Götu.
3. Helga Bergmundsdóttir húsfreyja á Patreksfirði, f. 17. júlí 1913 í Götu, d. 26. apríl 1952.
4. Björn Bergmundsson sjómaður, verkamaður í Eyjum, f. 26. september 1914 í Götu, d. 26. mars 1981.
5. Elísabet Sigþrúður Bergmundsdóttir húsfreyja á Norðfirði, f. 21. mars 1916 á Kirkjubæ, d. 10. júlí 1981.
6. Aðalbjörg Jóhanna Bergmundsdóttir húsfreyja, verkakona í Eyjum, f. 27. desember 1919 á Strönd, d. 8. september 2003.
7. Guðbjörg Bergmundsdóttir húsfreyja á Landagötu 18, síðast í Hafnarfirði, f. 15. nóvember 1922 í Sjávargötu, d. 10. október 2014.
8. Ása Bergmundsdóttir húsfreyja í Eyjum, á Dalvík og í Reykjavík, f. 2. maí 1926 í Sjávargötu, d. 28. nóvember 2004.
Fósturbörn Bergmundar og Elínar:
9. Birna Berg Bernódusdóttir húsfreyja, bankastarfsmaður í Hafnarfirði, dóttir Aðalbjargar, f. 8. september 1938 í Stakkholti.
10. Bergmundur Elli Sigurðsson trésmiður í Hafnarfirði, sonur Ásu, f. 15. apríl 1948.

Björn var með foreldrum sínum í æsku og meðan þau lifðu.
Hann var með þeim í Götu 1914, á Kirkjubæ 1915 og 1916, á Strönd 1917 og enn 1919, í Sjávargötu 1920 og enn 1930, í Stakkholti 1934, á Faxastíg 8A 1940 og 1945, og síðar í Nýborg. Þar bjó hann með þeim meðan þeir lifðu, keypti húsið 1946 og bjó þar eftir þau.
Hann nam vélstjórn, tók þátt í matsveinanámskeiði Gagnfræðaskólans 1938.
Björn hóf störf 15 ára gamall, byrjaði með beitningu, en síðan sjómennsku, var háseti, stýrimaður, vélstjóri, matsveinn, lengst hjá Þorsteini Gíslasyni í Görðum, og var reyndar lengst hjá honum, byrjaði með beitningu, síðan ýmist háseti eða stýrimaður á Lagarfossi og Sjöfn. En á löngum sjómannsferli var hann hjá ýmsum formönnum, Binna í Gröf, Haraldi Hannessyni á Baldri, á v.b. Þór með Einari Guðmundssyni, Stakksárfossi með Jónasi Bjarnasyni í Sjólyst, á v.b. Hellisey með Bernódusi Þorkelssyni mági sínum, svo fátt eitt sé talið. Björn átti um tíma hlut í Gullveigu með Kristni Sigurðssyni á Skjaldbreið o.fl.
Eftir að Björn fór í land vann hann lengst við höfnina, m.a. var hann um tíma vélstjóri á Grafskipinu Vestmannaey, en stundaði einnig verkamannastörf.
Björn var ókvæntur og barnlaus, en átti þátt í uppeldi tveggja systurbarna sinna, Birnu Berg og Bergmundar Ella.
Björn lést 1981.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.