Blik 1956/Gömul skjöl

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1956Gömul skjöl


Ef Blik á þess kost, mun það birta gömul skjöl og skilríki, sem varða sögu Eyjanna eða Eyjabúa, líf þeirra og störf.
Að þessu sinni birtir ritið 100 ára gömul frumdrög að umsókn Vestmannaeyinga um stofnun herfylkingar. Það skjal á Byggðarsafnið hér bæði í uppkasti (á dönsku) og í þýðingu.
Um herfylkinguna er skrifað í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen fyrrv. bæjarfógeta.
Einnig birtir ritið að þessu sinni nokkur skjöl varðandi hafnsögumannsstörfin hér í Eyjum, svo sem reglur þær og skilmála, sem þar um fjölluðu að mestu leyti óbreytt næstu 100 árin frá árinu 1826.

Hannes Jónsson hafnsögumaður.

Árið 1882 mun Hannesi Jónssyni bónda að Miðhúsum hér og formanni hafa fyrst verið falin hafnsögumannsstörf hér í Eyjum. Hann var þá 30 ára að aldri.
Þeim ábyrgðarmiklu störfum gegndi hann til dauðadags svo að segja. Hann lét af þeirri stöðu vorið 1937 og dó um sumarið. Hafnsögumaður hér var hann því í 55 ár. Hann var mikilsmetinn í starfi sínu og naut mikils trausts.
Hér birtir Blik umsókn hans, er hann sóttist eftir að gerast einn hafnsögumaður og hafa allan veg og vanda af starfinu. Þeirri umsókn lét hann fylgja vottorð það frá skipherranum á danska eftirlitsskipinu Heimdalli, sem birtist hér í íslenzkri þýðingu. Öll þessi skjöl eru eign Byggðarsafns Vestmannaeyja.
Þá birtir ritið sýnishorn af tilkynningu sýslumanna Vestmannaeyja um manntalsþing, eins og þær gerðust, áður en blöð áttu sér hér stað til þess að flytja almenningi boð og bönn yfirvaldanna. Þetta þingboð er aðeins sýnishorn af fjölda samhljóða skjala, sem geymd eru í Þjóðskjalasafninu. Þau skjöl geyma einnig nöfn á tómthúsunum. Mörg þeirra eru nefnd hér.
Einnig birtist hér til gamans sýnishorn af tilkynningu um hundahreinsun og bann gegn rjúpnaveiðum.

Þ.Þ.V.


Frumdrög að umsókn Vestmannaeyinga
um stofnun herfylkingar Vestmannaeyja, í ísl. þýðingu.

Vestm.eyjum, 18. okt. 1855.
Íbúar Vestmannasýslu við Ísland sækja undirgefnast um leyfi til að stofna til varnarliðs sjálfboðaliða, og að þeim verði lánaðar 70 byssur með stingjum, 70 skotfæratöskur og 70 axlaólar með stingjaslíðrum og kvellhettutaska, og ennfremur herdeildarfáni, trumbur, tvær hljóðpípur og merkislúður.

Þegnsamlegast samið af Magnúsi Austmann stúdent af hálfu íbúanna.

Meðmæli Kohls sýslumanns:
Ég voga að mæla ákveðið með hjá lagðri þegnsamlegri umsókn, þar sem ég, vegna þekkingar minnar á staðháttum, er fullviss um, að varnarlið, sem muni vera til gagns til að afstýra aðvífandi ofbeldi og að styrkja íbúana og tryggja yfirleitt góða reglu í umdæminu.

Til konungs.

Það er staðreynd, að íbúar hér, vegna þess hve sýslan er afskekkt, geta ekki sett traust sitt á annað en eiginn styrk, ef að höndum bæri erlenda árás, og vér minnumst þess enn þá með sárum harmi, er sjóræningjar á 17. öld drápu Eyjaskeggja eða fluttu þá burtu í þrældóm.
Þó að ekki sé líklegt, að framið yrði slíkt ódæði á vorum dögum, er samt ljóst, að erlendir sjóræningjar geta heimsótt oss á styrjaldartímum, og að vér erum jafnvel á friðartímum varnarlausir fyrir ofríki, þar sem höfn vor er opin öllum þjóðum, og því má vænta þess, að til hennar leiti erlend verzlunarskip, og geta skipshafnir þeirra óhindraðar gert oss miska, er þær vita, að vér erum varnarlausir.
Þess vegna erum vér ekki óhultir um líf vort og eignir, og höfum þess vegna glaðir þegið tilboð núverandi sýslumanns vors, kapteins Kohls, að æfa oss í hermennsku og notkun vopna. Mestur hluti vopnfærra manna hefur um alllangt skeið tekið þátt í æfingunum. En ljóst má vera, að þær, hversu nytsamar og þægileg dægrastytting, sem þær annars eru, ná þó ekki tilgangi sínum, nema því aðeins að vér fáum önnur vopn heldur en þær fáu veiðibyssur, sem eru í eigu vorri.
Vér dirfumst því þegnsamlegast að fara þess á leit, að oss séu látnar í té 70 (sjötíu) nothæfar byssur með stingjum og öðru fylgifé, 70 skotfæratöskur og jafnmargar axlaólar með stingjaslíðrum og hvellhettutaska, og ennfremur herdeildarfáni, trumba, tvær hljóðpípur og einn merkis-lúður.
Vér dirfumst að vænta þess, að Yðar Hátign leyfi oss þegnsamlegast að koma á fót varnarliði til þess að veita viðnám aðkomandi ofríki og halda uppi reglu innan héraðs, og vér erum fullvissir um, er vér höfum fengið í hendur ofangreind vopn, að geta öðlast slíka leikni í að nota þau, að vér getum varið líf vort og eignir, og að enginn geti móðgað oss án þess að hljóta refsingu fyrir.

Þegnsamlegast
Af hálfu Eyjaskeggja

P. Bjarnasen, G. Bjarnasen,
J.Th. Christensen, A. Einarson.
M.J. Austmann.
(Ekki er mér kunnugt, hver þýtt hefur skjal þetta. Þ.Þ.V.).


Reglur handa hafnsögumönnum í Vestmannaeyjum.
1956, bls. 62.jpg
Merki yfirhafnsögumannsins í Vestmannaeyjum. Það mun hafa verið fest í vinstri jakka- eða kápuhorn. Á seinni árum voru hnýttir við það þrœðir með íslenzku fánalitunum. Merkið er úr látúni: Það er eign Byggðarsafns Vestmannaeyja.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum í suðuramti Íslands.
Gjörir kunnugt; að þar eð það vegna kringumstæðanna og einkum þar höfnin er með lögum 15.apríl 1854 löggilt sem ein af aðalhöfnum Íslands, er nauðsynlegt, að stjórn allra hafnsögustarfa sé falin á hendur áreiðanlegum og duglegum manni, sem sé fær um að mæla á danska tungu, þá skikkast hér með, samkvæmt úrskurði Stiptamtsins frá 28. marz 1826, herra Jón Salomonsen til að vera yfirhafnsögumaður hér í sýslu með skilmálum þeim, sem hér segir.
1. Hann ræður fyrir hafnsögustörfum á þann hátt, sem sómir ærukærum og duglegum hafnsögumanni, sem sé sér meðvitandi ábyrgðar þeirrar, sem á honum hvílir. —
2. Undir eins og skip er á uppsiglingu, skal hann svo fljótt sem unnt er grennslast eftir, hvort það hafi uppi merki eftir hafnsögumanni, og skal hann þá, ef svo er, tafarlaust fara út til skipsins og sjálfur leiðbeina því inn, nema því aðeins að það sé ómögulegt sökum óveðurs eða ósjós, sem verður að álítast eftir því, hvort nokkur af hinum stærstu og beztu bátum kunni að geta farið út.
3. Þegar sjúkdómur bægir yfirhafnsögumanninum frá að vera sjálfur við hafnsögustörf, skal hann sjá um, að einhver af undirhafnsögumönnum, eða, ef þeir ekki eru viðstaddir, einhver annar maður, er hann álítur til þess hæfan, taki að sér hafnsögustörf með sömu skilmálum sem yfirhafnsögumaður. — Þetta gildir einnig, þegar svo á stendur, að fleiri skip en eitt samtímis leita hafnar. —
4. Jafnsnart og hafnsögumaður er kominn á skipið, tekur hann þegar við stjórn skipsins og segir fyrir hátt og skilmerkilega. — Hann kynnir sér hve djúpt skipið ristir, svo að hann eftir því geti vitað, hvort nóg er dýpi fyrir skipið til að fljóta inn eða út.
Hann sér um, að segl séu saman tekin, eða sett til á réttum tíma, að akkerum, sé varpað, þegar nauðsyn krefur, einnig að skipunum sé leiðbeint inn og út yfir höfuð að tala, sem bezt má verða án skaða fyrir skipið eða önnur skip, er kynnu að vera á höfninni. Að öðru leyti er ætlandi, að hafnsögumaðurinn sýni kurteisi öllum á skipinu eins og hann á líka rétt á að krefjast kurteisi af öllum skipverjum. —
En til þess að enginn þeirra skuli, vegna ókunnugleika á löggjöfinni og einkum þeim reglutilskipunum, sem eiga hér við, olla sér neinnar ábyrgðar, skal hafnsögumaðurinn vera útbúinn með útdrátt af þeim helztu lögum um siglingar og verzlun, sem einkum eiga hér við og skal hann auglýsa þær fyrir skipverjum og fá uppá skrift skipstjórans um, að svo sé gjört.
5. Undir eins og hafnsögumaður kemur að skipinu, skal hann spyrjast fyrir, hvort það hafi meðferðis heilbrigðisskírteini, hvernig sé eða hafi verið heilbrigðisástand skipverja á leiðinni, sömuleiðis yfir höfuð að tala hegða sér eftir sóttvarnarlögum frá 8.febr. 1805 og „Lóðsinstruxi“ frá 1. marz sama ár, og afhendist honum eitt „Exemplar“ af þessum lagaákvörðunum.
6. Til þess hafnsögumaðurinn geti fært sönnur á, að hann sé réttur hafnsögumaður, ber hann á sér merki, er yfirvaldið fær honum. Það er látungsskjöldur með krónu konungsins og þeirri áskrift fyrir yfirhafnsögumanninn: „Yfirlóðs í Vestmannaeyjasýslu“, og fyrir undirhafnsögumennina: „Lóðs í Vestmannaeyjasýslu“. Merki þetta hangir á rauðu bandi, sem fest er í hnappagat vinstra megin.
Þess utan útvegar yfirhafnsögumaðurinn sóttvarnarmerki, sem haft er með til að brúka og lána, ef með þarf, eftir tilskipunum, sömuleiðis danskt „Flagg“, sem ætíð skal vera uppi á hafnsögumannsbátnum, þegar hann er brúkaður.
7. Hafnsögutaxti hér í sýslu er fyrst um sinn:
A). Fyrir skip, sem hér eiga heima, eða tilheyra eða eru útgjörð af þeim hér í sýslu verðandi kaupmönnum:
1. Skip allt að 30 dönskum lestarúmum, til samans fyrir leiðbeiningu skipa inn og út 5 Rdl.
2. do yfir 30—40 do do fyrir do do 10 Rdl.
B). Fyrir skip, sem ekki verða heimfærð til ofannefndrar tegundar, staflið A er borgunin 2 Rdölum hærri fyrir hvern af þeim flokkum, sem nefndir eru undir 1—3. —
Í ofannefndri borgun, sem yfirhafnsögumaðurinn meðtekur, dragast frá 48 skildingar fyrir hvert sinn, sem skipum er leiðbeint inn, og jafnmikið út, til hafnsögubátsins.
Hitt annað tilfellur að helmingnum til yfirhafnsögumannsins, sem hefir ábyrgðina, og sjálfur á að viðhalda og útvega hafnsögubátinn uppá eigin kostnað; aftur á móti skiptist hinn helmingurinn meðal þeirra annarra hafnsögumanna, sem eru til aðstoðar, að því leyti, sem þeir eru hinir 2 núverandi hafnsögumenn. M. Oddsson og Sv. Hjaltason, sem hafa rétt til fremur öðrum að vera með, ef þeir í tíma koma til yfirhafnsögumannsins; að öðrum kosti á hann rétt á að taka hvern með, sem hann kynni að álíta hentugan, og getur við hann eða þá samið um borgun, þó þannig, að það af borguninni, sem þannig ekki gengur til af þeim helmingi, sem ætlaður var til útskiptingar meðal undirhafnsögumannanna, falli í hlut þess af þeim, sem var með við hafnsögustarfið.
Sé hvorugur undirhafnsögumaður með, tekur yfirhafnsögumaðurinn við allri borguninni, nema þegar svo stendur á, að fleiri skip koma í einu, svo að annarhvor hafnsögumaðurinn leiðbeinir einu af þeim, því að þá hefir hann sama rétt hvað borgunina snertir og dreifingu hennar sem yfirhafnsögumaðurinn.
Framannefndur hafnsögutaxti gildir einungis, þegar ekki útheimtist nema hafnsögubáturinn með þremur mönnum að meðtöldum hafnsögumanninum. Skyldi svo á standa, að þyrfti fleiri manna eða stærra báts, verður hinn aukni kostnaður að reiknast eftir sannsýni og borgast af skipstjóranum móti endurgjaldi frá útgerðarmanni skipsins.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu 28. janúar 1858
A. Kohl.

Þessi instrux gildir nú fyrir Lárus hreppstjóra Jónsson, sem er núverandi yfirlóðs hér í sýslu.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu 1. marz 1873
M. Aagaard.

Þessar framanrituðu reglur gilda nú fyrir Hannes bónda Jónsson á Miðhúsum sem fyrsta hafnsögumann og fyrir Guðjón sýslunefndarmann Jónsson í Sjólyst sem annan hafnsögumann.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu 19. apríl 1896
Jón Magnússon.


Skipun.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum gjörir kunnugt, að ég hefi skipað, eins og ég hér með skipa Guðjón sýslunefndarmann Jónsson í Sjólyst til þess að vera 2. hafnsögumaður í Vestmannaeyjasýslu og ber honum í þessari sýslu sinni að fylgja reglum þeim, er hingað til hafa gilt um hafnsögu í Vestmannaeyjum, og að öðru leyti hegða sér, eins og samvizkusömum hafnsögumanni ber og hlýðir.
Til staðfestu er nafn mitt og embættisinnsigli.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu 20. apríl 1896
Jón Magnússon.

Skipunarbréf fyrir Guðjón sýslunefndarmann Jónsson til þess að vera 2. hafnsögumaður í Vestmannaeyjasýslu.

Framanritaðar reglur gilda nú eftirleiðis fyrir Hannes bónda Jónsson á Miðhúsum sem einasta hafnsögumanninn hér í sýslu.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu 12. des. 1896
Magnús Jónsson.

Á spássíu frumritsins af þessum reglum er þetta skrifað, þar sem skráður er taxtinn um greiðslu hafnsögugjaldsins:
,,Fyrir hvern fót, sem skipið ristir eða er merkt fyrir, ber að greiða hafnsögumanni 2 kr. inn og út.
B. 2,20 fótinn inn og út“.
Hið fyrra ákvæði, kr. 2,00, á því við skip í A-flokki (sjá hér að framan).
Annars staðar á spássíu frumritsins af reglugerðinni stendur:
„Og gildir það sama fyrir dampskip“.

Umsókn Hannesar Jónssonar.

Jeg undirritaður, sem í næstl. 14 ár hef verið hafnsögumaður í Vestmannaeyjum ásamt öðrum manni, nú síðasta ár Guðjóni Jónssyni, sem drukknaði hér í fyrra mánuði, leyfi mér hér með virðingarfyllst að fara fram á það við yður, háttvirti herra sýslumaður, að sú sýslan hans verði ekki veitt öðrum manni, en sækja um að fá að vera einn hafnsögumaður hér eftirleiðis, með þeim réttindum og skyldum, sem þeir hafa báðir haft að undanförnu, og skuldbind jeg mig hérmeð til að sjá um, að vel hæfur maður gegni þessari sýslan í minn stað á mína ábyrgð, þegar ég á einhvern hátt er hindraður frá að geta gjört það sjálfur, eða ef svo ber undir, að tveggja hafnsögumanna þarf við undir eins, meðan jeg er einn hafnsögumaður.
Auk þess að mér er innan handar að sýna vitnisburð málsmetandi manna um, að jeg hafi sæmilega hæfileika til að vera hafnsögumaður, byggi jeg þessa umsókn mína og von um bænheyrzlu á því, að vegna þesa hve verzlun er nú orðin lítil hér, má búast við, að það verði framvegis sjaldgæfur atburður, að tvö skip þurfi hér undir eins hafnsögumanns við, því að á nálægum tíma verður það að líkindum aðeins ein verzlun, sem getur átt von á skipum, sem höfn taka, en að skip taki hér neyðarhöfn, kemur sjaldan fyrir.
Að vísu hafa um nokkra áratugi verið hér tveir hafnsögumenn, en þá var öðru máli að gegna um skipakomur hingað, því þá voru hér þrjár verzlanir, sem hver um sig hafði því nær eins mikla verzlun eins og sú eina hefur nú, enda var hér áður um langan tíma aðeins einn hafnsögumaður, þrátt fyrir það þó verzlun væri hér þá miklu meiri en nú er.

Virðingarfyllst
Miðhúsum í Vestmannaeyjum
30. nóv. 1896
Hannes Jónsson.
Til
Sýslumannsins í Vestmannaeyjum.
Vottorð.

Chefen for
Krydseren Heimdal
den 1. Júní 1895.

Það vottast, að Hannes Jónsson hafnsögumaður hefur innt af hendi störf á eftirlitsskipinu Heimdalli árið 1895 sökum þekkingar sinnar á hafinu við suðurströnd Íslands. Jeg hefi verið sérlega ánægður með það, hvernig hann hefur leyst þessi störf af hendi. Jeg get því mælt með honum vegna sérstaks dugnaðar, áreiðanleiks og skyldurækni. Hann er viðkynningargóður, skynsamur og reglusamur. Um borð í Heimdalli hefir hann átt þess kost að afla sér þekkingar á sumum Austfjörðunum. Hann mun því án efa geta fullnægt ágætlega störfum í þágu þeirra staða, sem hann hefur þannig siglt til.

P. Schultz.
Þingboð.

Mánudaginn 25. þ.m. verður manntalsþing Vestmannaeyjasýslu haldið í þinghúsi sýslunnar og byrjar kl. 12 á hádegi.
Verður þar og þá
1. birtar yfirvaldsskipanir og úrskurðir.
2. þinglesin skuldabréf og önnur skjöl, svo og aflýst.
3. friðlýst eggver o.fl.
4. heimt manntalsgjöld, og að síðustu fyrir tekin eiginleg réttarverk, ef fyrir kunna að koma.
Þingboð þetta berist rétta boðleið bæ frá bæ og býli frá býli, og skal því eigi haldið meira en eina klukkustund á nokkru býli á daginn frá dagmálum (kl. 9 að morgni) til náttmála (kl. 9 að kvöldi), og sannist það, að þingboðið verði fellt niður af einhverjum, verður hann látinn sæta sektum. Þingboðið gangi rétta boðleið frá Kornhól milli allra jarða, sem á er búið, síðan frá Stakkagerði að tómthúsunum Hlíð, Brekku og Uppsölum, þaðan að Landakoti og Juliushaab og svo milli hinna tómthúsanna allra, en er það hefur komið í öll tómthúsin, skal hinn síðasti móttakandi afhenda það sýslumanni.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu
9. maí 1903
Magnús Jónsson.


Þingboðið berist frá Juliushaab um tómthúsin þannig: Landlyst, Sjólyst, Fögruvöllum, vestri og eystri Litlabæ, Nýborg, Mandal, Klöpp, Garðstöðum, Frydendal, Hólshúsi, Litlakoti, Hlíðarhúsi, London, Garðhúsi, Stíghúsi, Sveinsstöðum, Vegamótum, Jómsborg, Péturshúsi, Steinum, Fagurlyst, Löndum, eystri og vestri, Batavíu, Dalbæ, Ásgarði, Grund, Dal, Hvammi og Holti.


Um hundahreinsun.

Samkvæmt lögum 22. maí 1890 um hundaskatt o.fl. og reglugjörð sýslunefndarinnar hér að lútandi, er hér með lagt fyrir alla þá, sem hunda eiga hér á eyjunum, 4 mánaða eða eldri, að koma með þá að þró á Tanganum til lækninga næsta þriðjudag 1. nóv. kl. 8 fyrir hádegi, og hjálpar eigandi hver til að koma sínum hundi í hálsband.
Morguninn eftir kl. 8—9 má aftur vitja hundanna. Óhlýðnist nokkur boði þessu, verður hann látinn sæta sektum.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu
26. okt. 1892
Jón Magnússon.


Bann gegn rjúpnaveiðum.

Um messutíma á sunnudögum eða öðrum helgum dögum má enginn maður fara á rjúpnaveiðar né aðrar veiðar, né vera á veiðum um þann tíma. Brjóti nokkur út af þessu, verður hann vægðarlaust látinn sæta sektum.

Skrifstofa Vestmannaeyjasýslu
11. des. 1891
Jón Magnússon.