Blik 1969/Hjónin í Merkisteini

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Hjónin í Merkisteini


Síðan eru liðin 20 ár. Ég annaðist þá fréttaþjónustu Útvarpsins hér í bæ og brá mér niður að Merkisteini við Heimagötu til þess að ræða við öldunginn þar, Sigurð Ísleifsson, sem fyllti 85 árin þann daginn, 19. ágúst 1948.
Þrátt fyrir hinn háa aldur var öldurmennið kátt og frísklegt. Það lék satt að segja á als oddi. „Að mér amar ekkert nema þá helzt sjónleysið,“ sagði Sigurður Ísleifsson. Hann hafði þá misst sjónina að fullu fyrir nokkrum árum. Hér var af að læra. Misst algjörlega sjónina, — alveg blindur, og þó amaði ekkert að, nema þá helzt sjónleysið! — Hvílíkur sálarstyrkur. Hvílíkt þrek. —- Hvílík trúarsókn í . . .! Sigurður Ísleifsson var einlægur í trú sinni. Hann hafði gerzt aðventisti fyrir svo sem aldarfjórðungi, þegar þessi afmælisdagur hans rann upp.
Og svo bið ég öldung þennan að segja mér nokkra þætti úr ævisögu sinni handa Útvarpinu. Hann er fús til þess. Hann segir mér frá vertíðarlífi í Þorlákshöfn, þar sem hann réri samtals 9 eða 10 vetrarvertíðir á yngri árum sínum. Hann segir mér frá báta- og húsasmíðum sínum hér í Eyjum. — Sigurður Ísleifsson var smiður af guðs náð, smiður á allt. Allt lék í höndum hans. Hann segir mér hrakningssögu sína og þeirra félaga með Þorkeli formanni Þorkelssyni frá Óseyrarnesi. Það var 29. marz 1883. Og síðast kveður hann við raust gamankvæði, sem hann kann og geymir í huga sér frá þeim árum, er hann var vinnumaður hjá Hermanníusi sýslumanni á Velli. Þá var hann á duggarabandsárunum og fór að jafnaði tvisvar á ári verzlunarferð með 12—14 klyfjahesta út á Eyrarbakka til matarkaupa handa hinu fjölmenna sýslumannsheimili. „Þá var líf í tuskunum,“ sagði gamli maðurinn og lyftist allur upp í sæti sínu. Og hann kvað grínbraginn. Þessum vísum náði ég:

Svifu á Bakka sveinar tveir frá sýslumanni;
Jón Snorrasonur jötuns erfi
og Jóhannes frá Litla-Gerði.
Segir fátt af ferðum þeirra félaganna,
Unz þeir komu á Eyrarbakka,
og hressing tóku þar að smakka.
Gerðisbóndinn gildur gerði svörum ráða
við búðarmenn og barkann stælti
bráðhuga og þannig mælti:
Við erum komnir, Vallarmenn, og viljum hafa
fyrir helgi á 14 hesta,
fengin skal oss sort hin bezta.
Búðarlokur beygðu háls og bljúgar mæltu:
„Sjálfir megið vöru velja,
varla skal hér ofdýrt selja.“
Brauð og sykur, brennivín og beztu rullu,
sjálfsagt vil ég sjálfur hafa,
sanngjörn finnst mér þessi krafa.
Í sætabrauðs- og sykurkassa svo hann vendi,
af rullustykki rekja náði,
og rommið ekki gjör-forsmáði.
Tók hann nú að tala hátt og teygja svírann,
berja í borð og bjóða í glímu
og belja gömlu Andrarímu.
Því aldrei kvað hann að sig mundi aflið bresta,
ekki vit og ekki hreysti,
við efldan fjandann sér hann treysti.
Átján djefils erki' ára átt ég hefi
á Hólmsbergi í húðarslyddu,
hvað ei mundi takast lyddu.
Og einu sinni, sagði hann, í Selvoginum
Við sjóinn leit ég skinnið standa,
samt ég hvergi hræddist fjanda.
Á mig réðist rammur fjandi, en ráð ei skorti:
Hausinn af ég hjó með saxi,
svo helvítið lá dauður, lagsi.


Þegar hann hefur farið með þetta gáskakvæði fyrir mig, segir hann mér sjóhrakningasögu sína á vertíð í Þorlákshöfn á sínum yngri árum.
„Árið 1883 var ég vinnumaður hjá Hermanni Elíasi Jónssyni¹ á Velli í Hvolhreppi. ¹ Sýslumaður mun hafa skrifað nafnið sitt þannig: Hermanníus E. Johnson.

Þá vetrarvertíð reri ég í Þorlákshöfn með Þorkeli Þorkelssyni frá Óseyrarnesi.
Morguninn 29. marz var mikið frost en stilluveður. Þegar á morguninn leið, setti niður mikinn snjó.
— Öll Þorlákshafnarskipin reru stutt nema eitt. Þar var formaður Ólafur frá Dísarstöðum. Hann kom að um morguninn með mikinn fisk og reri þegar aftur. — Við eltum hann á miðin. Við fengum mikinn afla, svo að við hlóðum skipið. Síðan var haldið til hafnar.
Allt í einu rak á austan-landnorðan veður með öskubyl. Við börðum austur með Hafnarbergi og héldum okkur sem allra næst Berginu til þess að hafa landsýn. Við höfðum mann fram í stafni á verði þar til þess að sjá um, að við lentum ekki á grynningum eða skerjum. Eitt sinn taldi hann of grunnt farið. Snérum við þá frá landi, en í sömu andrá hjó stýrið á steini, svo að það hrökk upp af lykkjunum, en formaðurinn hélt um völinn og innbyrði stýrið.
Loks hætti að miða áfram. Fleygðum við þá út öllum fiskinum, en nóg var eftir af klaka í skipinu til þess að kjölfesta það. Héldum við nú undan veðri og vildum forðast landið. Sökum ofveðurs varð engum seglum við komið.
Eftir að hafa hrakizt á árum undan veðrinu æði tíma, sáum við skip hilla uppi skammt frá okkur. Þetta var stórt seglskip, — frönsk fiskiskúta. Við hrópuðum til Fransmannanna og báðum um hjálp. Hlupu þá nokkrir menn fram á skipið og köstuðu körfu á streng til okkar. Við gripum körfuna, en strengurinn slitnaði, þegar á hann reyndi. Snérum við þá skipinu í veðrið og reyndum af fremsta megni að halda í horfinu, svo að ekki hrekti af leið. Skipið venti og tók sveig að okkur. Við fengum kviku á skipið okkar framanvert, svo að sjór fossaði inn um bita. Brotnuðu þá tvær fremstu árarnar.
Loks tókst okkur að ná í kaðal frá skútunni, sterkan, traustan, og við drógum skip okkar að henni. Allir komumst við upp í skútuna að lokum heilu og höldnu. Við vorum 14 alls, stirðir og kaldir og illa til reika.
Að björgun lokinni var skip okkar orðið æði mikið brotið af höggum við skipshliðina.
Fyrst var farið með okkur niður i lúkar og hlynnt að okkur þar eftir föngum. Á meðan bjuggu Fransmennirnir um okkur í lestinni. Þar fór mæta vel um okkur.
Síðan vorum við 7 sólarhringa í frönsku skútunni, og var flesta dagana aftaka veður.
Einn daginn sást til lands. Við Íslendingarnir fréttum það niður í lestina. Einhverjir okkar fóru upp á þilfar til þess að reyna að þekkja landið. Þeir ályktuðu, að þeir sæju Krísuvíkurbergið. Þar hafði víst heimþráin áhrif á ályktanina, því að Fransmennirnir fullyrtu, að það væri Dyrhólaey, sem þeir sæju, eða fjöllin þar í grennd.
Þorlákshöfn kölluðu Fransmennirnir Torlak.
Nú sigldi skútan vestur með landi í sæmilegu veðri. Fyrir vestan Þrídranga skall á ofsa útsynningsveður. Það stóð í 4 daga. Þegar því slotaði, sigldi skútan austur með Eyjum sunnanverðum og svo norður með þeim og inn á flóann austan Vestmannaeyjahafnar. Var þá dregin upp veifa, sem gaf til kynna ósk um menn frá landi. Brátt komu Eyjamenn á stóru opnu skipi út að skútunni og fluttu okkur í land. Síðan urðum við að dvelja í Eyjum vegna veðurs í 11 daga.
Mörg flöskuskeyti voru brátt send til landsins til þess að láta fólk okkar vita um björgunina og dvöl okkar í Eyjum. Að minnsta kosti kom ein flaskan til skila. Hana rak á Skúmstaðafjörur. Á Skúmstöðum bjó þá Sigurður Magnússon, dannebrogsmaður.
Skeytið í flöskunni hljóðaði nokkurn veginn þannig að efni til: Í gær kom hingað til Vestmannaeyja með franskri skútu öll skipshöfn Þorkels Þorkelssonar heil á húfi. Hver, sem finnur flösku þessa, er beðinn að láta aðstandendur mannanna vita þetta.
Frá Skúmstöðum var þegar sendur hraðboði upp í Hvolhrepp og Fljótshlíð til þess að grennslast eftir því, hvort nokkrir þaðan væru hásetar Þorkels.
Enginn okkar átti heima í Hlíðinni, enda þótt foreldrar mínir byggju enn þar í Bjargarkoti. Þrír áttum við heima í Hvolhreppnum. Auk mín var það Þorleifur frá Efra-Hvoli og Runólfur vinnumaður Jakobs hreppstjóra í Garðsauka.
Tveir mannanna voru af Rangárvöllum, en hinir víða að.
Skeytið barst að Óseyrarnesi daginn eftir að flaskan fannst. Auðvitað vorum við allir taldir af.
Loks kom leiði. Fengum við þá lánað skip í Eyjum og formann frá landi, Jón Þórðarson frá Miðey í Austur-Landeyjum. Hann fór með okkur stytztu leið milli Eyja og lands, upp í Krosssand. Síðan gengum við allir út að Krossi og svo út að Hallgeirsey. Þaðan upp að Kanastöðum.
Á þessu ferðalagi eru mér minnisstæðastar móttökurnar, sem við fengum hjá Sigríði Árnadóttur, konu Ísleifs bónda á Kanastöðum. Hún gaf okkur öllum kaffi. Síðan lét hún fylgja okkur vestur á Affallsbakkann og vísa á vaðið yfir ána. Við óðum yfir Affallið og gengum síðan upp að Auraseli. Þar skildust leiðir. Austurbyggjar héldu austur á bóginn. Þar með var ég. Ég þráði mest að ná fundi móður minnar heima í Bjargarkoti. Þangað komst ég um kvöldið. Þá voru réttar þrjár vikur liðnar frá því að hrakningurinn hófst á Þorlákshafnarmiðum.
Þeir síðustu af hrakningsmönnunum komu heim til sín á sumardaginn fyrsta. Eftir 2—3 daga voru þeir allir komnir aftur til Þorlákshafnar. Fram skyldi haldið með sjósókn á vertíðinni. En hvar var nú skip að fá? Skipið, sem þeir voru á, brotnaði nokkuð við hlið björgunarskipsins, frönsku skútunnar. Síðan rak það upp í Grindavíkurklappir og fór þar í spón. Nú fengu þeir leigt gamalt skip, og ótrauðir stunduðu þeir sjóinn til vertíðarloka. Fiskur var nægur, — já, mikill, svo að þeir fengu 300 fiska í hlut, áður en lauk. Það þótti jafnan sæmilegur vertíðarhlutur.
Einn háseti Þorkels Þorkelssonar var Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli. Hann hefur skráð ítarlega þessa hrakningssögu í bók sinni Þorlákshöfn. Nokkrum árum eftir að ég skráði þessa frásögn Sigurðar Ísleifssonar, las ég frásögn Sigurðar Þorsteinssonar. Hvergi ber á milli í frásögnunum, svo að nokkru máli skipti. Svo trútt var minni Sigurðar Ísleifssonar, þrátt fyrir hinn háa aldur.

---

Við hvörflum huga upp í Fljótshlíðina. Fyrir svo sem 115 árum búa í Bjargarkoti þar í sveit búhyggin dugnaðarhjón, Einar bóndi Einarsson og Ingibjörg Jónsdóttir.
Árið 1855 lézt Einar bóndi, aðeins 38 ára.
Ingibjörg húsfreyja í Bjargarkoti var þekkt myndarkona, ekkja 31 árs, og Bjargarkot var í rauninni sæmileg jörð, þó að nafnið benti til annars. Ýmislegt fleira kom til og olli því, að ekki skorti ekkjuna í Bjargarkoti biðlana. Einn þeirra var Ísleifur Einarsson, bóndasonur frá Forsæti í Landeyjum, sem fór hóglega að öllu og bauð ekkjunni „fyrirvinnu“ sína með millilið. Ekki hafði Ísleifur bóndason lengi dvalizt í fyrirvinnumennskunni, er hann tók að stíga í vænginn við ekkjuna ungu, og ekki án árangurs. Hún var aðeins 6 árum eldri en hann, svo að aldursmunurinn hindraði ekki hót og hamingju í koti Bjargar. Þau gengu í hjónaband, Ingibjörg og Ísleifur, 30. okt. 1857 eftir þrjár lýsingar í kirkju, eins og lög gerðu ráð fyrir eða buðu. Þá hafði fyrri maður Ingibjargar, Einar bóndi Einarsson, legið í gröf sinni aðeins tvö ár.
Hinn 19. ágúst 1863 fæddist þeim hjónum í Bjargarkoti fyrsta barnið, sveinn, sem skírður var Sigurður, -— Sigurður Ísleifsson. Næstu þrjú árin eignuðust hjónin tvo aðra sonu, Ársæl og Einar.
Næstu 16 árin frá fæðingu Sigurðar liðu heima í Bjargarkoti í önn og yndi, því að fjölskyldan var samhent og samlynd, iðju- og atorkusöm.
Elzti sonurinn lagði snemma fram krafta sína til að létta framfærslu heimilisins. Fráfærur ollu þörf á duglegum og trúum dreng til þess að annast hjásetuna, — sitja yfir ánum og halda þeim til beitar. Það gerði Sigurður litli í Bjargarkoti svo fljótt sem hann hafði aldur og þroska til.
Eftir fermingu Sigurðar tóku foreldrarnir að velta því fyrir sér, hvort ekki mundi hyggilegt að ráða hann til vinnu eða í vinnumennsku annars staðar til þess að létta undir framfærslunni, því að ekki hefti skólanámið æskulýðinn á þeim árum frá látlausri önn árið um kring. Tveir yngri synir hjónanna voru komnir undir fermingu og þess vegna liðtækir orðnir til heimilisstarfanna, annar tveim árum yngri en Sigurður og hinn þrem árum yngri. Þeir gátu því brátt leyst elzta soninn af hólminum heima.
Haustið 1879 réðst Sigurður Ísleifsson „vinnupiltur“ til sýslumannsins á Velli, yfirvalds þeirra Rangæinga, Hermanníusar Elíasar Johnson. Heimili þeirra sýslumannshjónanna, Hermanníusar og frú Ingunnar Halldórsdóttur, var eitt fjölmennasta heimilið í hreppnum, Hvolhreppi. Þar voru að jafnaði 3—4 vinnumenn árið um kring og 6—7 vinnukonur. Heimilisfólkið var alls milli 20 og 30 manns. Mikils þurfti með á slíku heimili, og vinnumennirnir voru sendir í verið allar vertíðir, helzt til Þorlákshafnar. Frá sýslumannsheimilinu á Velli var sjaldan farið í kaupstað með minna en 12—14 klyfjahesta. Verzlað var á Eyrarbakka. Og svo vitnum við hér til gáskakveðskaparins, sem fyrr er birtur í greinarkorni þessu.
Fyrsta veturinn í vinnumennskunni á Velli (1879—1880) réð sýslumaður Sigurð Ísleifsson háseta á vertíðarskip í Þorlákshöfn. Ekki er mér kunnugt, hvort það var þá þegar hjá Þorkeli Þorkelssyni í Óseyrarnesi. Síðan réri Sigurður Ísleifsson 9 eða 10 vertíðir í Þorlákshöfn, — fyrstu 7 vertíðirnar í þjónustu sýslumannshjónanna og 2—3 eftir það á vegum foreldra sinna.
Þegar Sigurður Ísleifsson réðst að Velli, var þar fyrir í vinnumennsku Árni Filippusson frá Háfshóli í Holtum Bjarnasonar sterka (síðar Árni í Ásgarði í Eyjum). Árni Filippusson hafði þá verið sýsluskrifari hjá sýslumanni í 8 ár og öðrum þræði heimilissmiður, því að margs þurfti við um viðgerðir og smíðar á hinu stóra heimili, dytta að húsum, smíða amboð, skeifur, ljábakka o.s.frv.
Við heimilissmíðunum tók nú Sigurður Ísleifsson, vinnupilturinn frá Bjargarkoti, þegar hann gerðist starfsmaður á Velli. Sýsluskrifarastörfin voru falin öðrum, því að Sigurður var öðru vanari en skriftum í uppeldinu í Bjargarkoti. Strax í bernsku kom berlega í ljós, að hann var fæddur snillingssmiður. Allt lék í höndum hans, — allt gat hann smíðað, sem hann bar við, hvort heldur var úr tré eða járni.
Hjónin Ísleifur Einarsson og Ingibjörg Jónsdóttir fluttu frá Bjargarkoti árið 1886. Þá tóku þau til ábúðar jörðina Önundarstaði í Krosssókn í Landeyjum. Þá um vorið sagði Sigurður Ísleifsson upp vinnumennskunni hjá sýslumanninum á Velli og fluttist heim til foreldra sinna að Önundarstöðum, gerðist vinnumaður þeirra, og var það næstu sex árin.

Í Káragerði í Krosssókn bjuggu hjónin Jón Einarsson og Ástríður Pétursdóttir. Þau áttu 6 börn. Tvær dætur þeirra urðu kunnar húsmæður og mæður í Vestmannaeyjum.
Næst elzta barn þeirra hjóna var Guðrún, ráðsett og alvörugefin heimasæta, sem las ljósmóðurfræði.
Oft hyllast andstæðurnar hvor að annarri, sækjast eftir að sameinast. Það er vissulega staðreynd um fleira en rafsegulskautin. Eitthvað svipað þessu mátti með sanni segja og rökum hugsa um Sigurð Ísleifsson, bóndasoninn á Önundarstöðum, og Guðrúnu heimasætu í Káragerði. Hann, léttlyndi og gáskafulli gárunginn og galgopinn, felldi heitan ástarhug til alvörugefnustu og fáskiptustu heimasætunnar í byggðinni, til hennar Guðrúnar Jónsdóttur, heimasætu í Káragerði, sem helzt ekki virtist kunna að brosa. Enda reyndist vígi þetta honum Sigurði hinum léttlynda hreint ekki auðunnið. — En dropinn holar steininn.
Guðrún heimasæta lagði mat á hlutina af gætni og hyggindum. Flas var þar ekki til fagnaðar, að hennar hyggju. Hún vó og mat og íhugaði vandlega það, sem varðaði heill hennar og hamingju um alla framtíð. Það skyldu vissulega fleiri gera. Auðvitað vildi hún öðlast örugga vissu fyrir því, að „rekabúturinn“ léttlyndi, gáskafulli og glaðlyndi frá Önundarstöðum væri henni samboðinn í einu og öllu, væri ást hennar verður. Víst heillaði hann hana öðrum þræði. Eitthvað hafði hann við sig, sem dró hana að honum, en hún flíkaði ekki kenndum sínum í tíma og ótíma, hún Guðrún Jónsdóttir, heimasæta í Káragerði. Skynsemin og hyggjan héldu þar dyggilega í hönd tilfinninganna.
Árin liðu, eitt, tvö, þrjú. Heimasætan hélt bóndasyninum við heygarðshornið, svo að hugur hans hvarflaði ekki annað.
Á öndverðu árinu 1893 flutti Jón bóndi Brandsson í Hallgeirsey skip sitt og skipshöfn til Vestmannaeyja til þess að stunda þar sjósókn á þeirri vertíð, er þá fór í hönd, eins og hann hafði gert um árabil, þessi dugmikli formaður þeirra Landeyinganna. Einn af hásetum hans þessa vertíð var Jón bóndi Einarsson í Káragerði, faðir Guðrúnar heimasætu.
Í Vestrnannaeyjum lágu þeir við eða bjuggu í tómthúsinu Stíghúsi.
Hinn 15. marz (1893) varð slysið mikla. Jón Brandsson fórst með skipshöfn sinni allri einhvers staðar á Álnum milli lands og Eyja. Haldið var, að þeir hefðu ofhlaðið skipið í þeim öra færafiski, sem þá var umhverfis Eyjar, sérstaklega inni á Ál. Alls fórust 14 menn af skipi þessu.
Vorið 1893, tveim mánuðum eftir slysið, réðst Sigurður Ísleifsson vinnumaður að Káragerði til ekkju Jóns Einarssonar bónda, Ástríðar Pétursdóttur. Þá stóð hann á þrítugu um sumarið, og Guðrún heimasæta Jónsdóttir var 27 ára, lærð og starfandi ljósmóðir í sveitinni.
Þá gerðust líka hæg heimatökin í ástamálunum, enda lét nú heimasætan undan síga, hafði raunar gert það fyrr, lagt mat á biðil sinn, manngerð hans, handlægni og búhyggni.
Heimasætan var heilluð. Hún fann það og skildi, þegar fram leið, að léttlyndi Sigurðar og glaðværð var henni lífsdrykkur, eins og hún sjálf var skapi farin. Jafnframt reyndist Sigurður Ísleifsson konu sinni skapfastur og trygglyndur mannkostamaður.


Hjónin Sigurður og Guðrún.


Daginn fyrir Jónsmessuna eða sunnudaginn 23. júní 1895 var mikið um að vera í Káragerði í Landeyjum. Þá voru þau gefin saman í hjónaband, Guðrún Jónsdóttir, heimasæta og ljósmóðir, og Sigurður vinnumaður Ísleifsson. Prestur gifti þau í Sigluvíkurkirkju. Vissulega var hér stofnað til farsæls hjónabands, sem entist um 6 tugi ára.
Svo hélt búskapurinn og búreksturinn í Káragerði áfram næstu 8 árin með litlum tilbrigðum. Þó skal þess getið, að eftir jarðskjálftana miklu sumarið 1896 vann Sigurður bóndi í Káragerði mjög langa og marga vinnudaga við að endurbyggja sveitabæi víðsvegar um Suðurlandsundirlendið. Af kappi var unnið, eins og jafnan, og vinnugleðin óþrjótandi eins og alltaf. Sum dagsverkin gáfu ekki alltaf mikið í aðra hönd þá, þar sem sárfátækt var ríkjandi með bændafólki og bærinn í rúst. Víst er um það, að þá innheimti Sigurður Ísleifsson ekki alltaf dagsverk að kvöldi. Þar var honum þá annað ríkara í huga en launin sín.
Árið 1903 afréðu hjónin í Káragerði í Landeyjum, Sigurður og Guðrún, að hætta þar búskap og flytja til Vestmannaeyja. — Aðstaða Sigurðar til nægrar atvinnu í Eyjum fannst þeim góð að ýmsu leyti. Það var eitt, að Guðríður systir Guðrúnar húsfreyju og ljósmóður var heitbundin valdamesta manni í Eyjum þá, Sigurði Sigurfinnssyni, hreppstjóra og oddvita, sem stuðlaði að því, að sveitarsjóðurinn hafði ýmis verkefni á prjónunum, sem skapaði þörf á smiðum, svo sem bygging nýs barnaskóla- og þinghúss undir einu þaki (Borg eða Heimagata nr. 3).
Marga kunningja og vini áttu þau hjón einnig í Eyjum, svo sem Einar Jónsson í Garðhúsum (nr. 14 við (Kirkjuveg), sem hafði þar yfir miklu húsrými að ráða og bauð þeim húsnæði í hinu nýbyggða íbúðarhúsi sínu.
Þar fengu þau svo inni, meðan þau stóðu sjálf í íbúðarhússbyggingu. Hjónin höfðu eignazt tvö börn, er þau fluttu til Eyja, Kristínu og Inga. Einnig fylgdi þeim móðir Guðrúnar, ekkjan Ástríður Pétursdóttir, 68 ára.
Í Vestmannaeyjum hófu þau brátt að byggja sér íbúðarhús. Það byggðu þau úr timbri. Sigurður oddviti hafði úthlutað þeim lóð undir það í suðurjaðri Stakkagerðistúnsins, suður undir Hvítingum, hinum kunnu þingstaðssteinum þeirra Eyjaskeggja.
Naumast höfðu þau hjón lokið við að byggja sér íbúðarhúsið, sem þau nefndu Káragerði, er hreppurinn lét hefja framkvæmdir við hið nýja skólahús. Það var vorið eða sumarið 1904. Þar vann Sigurður Ísleifsson síðan að smíðum næsta ár með Ágústi Árnasyni og fleiri kunnum hagleiksmönnum í byggðarlaginu.
Jafnframt hófst rimman.
Eyjabændur, sem samkvæmt byggingarbréfi sínu höfðu óskorað vald eða rétt á öllu landi á Heimaey og höfðu haft það um aldir, nema á athafna- og verzlunarsvæðinu niður við voginn eða höfnina, gátu ekki unað því, að hreppstjórinn og oddvitinn í einni og sömu persónunni hrifsaði þennan rétt af þeim, úthlutaði byggingarlóðum á landi þeirra án þeirra samþykkis og hagsmuna. Deila þessi leiddi til þess eftir hörð átök, að Sigurður Ísleifsson varð að rífa hið nýbyggða íbúðarhús sitt, Káragerði. Fékk hann þá aftur inni hjá vini sínum í Garðhúsum, Einari Jónssyni. Þar bjuggu hjónin síðan, þar til þau höfðu byggt sér annað íhúðarhús nær höfninni, Merkistein við Heimagötu (nr. 9). (Sjá Blik 1962, bls. 114—115).
Þegar sveitarsjóðurinn hafði lokið byggingu hins nýja barnaskóla- og þinghúss, seldi hreppsnefndin Sigurði Ísleifssyni gamla skólahúsið, sem byggt var 1883. Húsið keyptu þau hjón sérstaklega til þess að fá lóðarrými undir hið nýja íbúðarhús, er þau nú hugðust byggja, því að skólahúsinu fylgdi leikvangur barnanna. Þar var nægilegt byggingarrými. Byggingarframkvæmdum þar luku þau árið 1907.
Hér í Eyjum stundaði Sigurður Ísleifsson sjó öðrum þræði um 40 ára skeið. Ýmist réri hann á vetrarvertíðum eða á vorin og sumrin. Árið í kring vildi hann ekki stunda sjósóknina. Aðra tíma vann hann að smíðum, húsa- og bátasmíðum.
Mest allar bátasmíðarnar voru framkvæmdar undir Skiphellum.
Þar vann Sigurður Ísleifsson fyrst að því að byggja uppskipunarbáta fyrir Bryde kaupmann og Verzlun Gísla J. Johnsen. Þá hófst smíði hinna opnu skipa með færeyska laginu 1903. Nokkuð vann Sigurður að smíði þeirra næstu árin. Svo hófst smíði vélbátanna hér brátt eftir 1907. Þá vann Sigurður að byggingu þeirra með Ástgeiri Guðmundssyni, bátasmíðameistara, alltaf öðru hvoru næstu árin. Síðan með Guðmundi Jónssyni á Háeyri.
Mikið yndi hafði Sigurður Ísleifsson af bátasmíðunum, sérstaklega smíði hinna opnu skipa, þar sem engin var teikningin til þess að fara eftir, sagði hann, allt byggt eftir auganu. En vélbátarnir voru sniðnir og byggðir eftir þar til gerðum teikningum. Sú bátasmíði var „nú ekki mikil kúnst,“ sagði öldungurinn áttatíu og fimm ára, er við ræddum þessi verk þá, — og hann lyftist upp í sæti sínu og hló. Nei, en smíði hinna opnu skipa og báta, hún var ánægjuleg, því að þar reyndi á smiðsaugað og náttúrugáfuna.
Smíðaverkstæði sitt hafði Sigurður í kjallara íbúðarhússins að Merkisteini. Þar vann hann öllum stundum, er hann gat einhverra hluta vegna ekki stundað störf annars staðar. Á verkstæðinu smíðaði hann m.a. spunarokka. Þeir bera vissulega af öðrum rokkum, sem nú geymast á Byggðarsafni Vestmannaeyja, um það, hversu nettir þeir eru og snilligerðir í heild. Þeir eru prýði safnsins.
Ástríður Pétursdóttir húsfrú frá Káragerði í Landeyjum dvaldist í Eyjum til aldurstilastundar. Hún lézt á Heiði í Eyjum hjá Guðríði dóttur sinni 5. ágúst 1919 84 ára að aldri. Guðríður dóttir hennar hafði þá búið ekkja á Heiði í 3 ár eftir fráfall Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar, manns hennar.

ctr


Börn hjónanna í Merkisteini, aftar Kristín og Ingi, framar Martha og Rósa.


Hjónunum Guðrúnu Jónsdóttur og Sigurði Ísleifssyni varð 5 barna auðið:

1. Ásta Kristín, fædd í Káragerði í Landeyjum 15. júlí 1898, — Kristín Sigurðardóttir, þekkt saumakona í Vestmannaeyjum um árabil og handavinnukennari við Gagnfræðaskólann þar um skeið. Hún á nú heima í Reykjavík.

2. Ingi smiður Sigurðsson, fæddur í Káragerði í Landeyjum 9. júní 1900. Kvæntur er hann norskri konu, frú Agnes Sigurðsson (f. Berger). Þau hafa búið í Merkisteini frá giftingu (1932).

3. Áslaug Martha, fædd í Garðhúsum í Eyjum 9. maí 1905. Hún nam hjúkrun og hefur verið starfandi hjúkrunarkona.

4. Sigríður Rósa, fædd 1907.

5. Jóna, fædd í Merkisteini 1909. Hún lézt tveggja ára gömul.

Þegar O.J. Olsen stofnaði Aðventistasöfnuðinn í Vestmannaeyjum árið 1922, gerðust þrjú af börnum þeirra hjóna í Merkisteini stofnendur safnaðarins, Kristín, Ingi og Martha, ásamt 29 öðrum búsettum körlum og konum í kaupstaðnum. Ekki löngu síðar gekk móðirin, Guðrún Jónsdóttir, í söfnuð þennan, og svo faðirinn, Sigurður Ísleifsson, þegar frá leið.
Þau lifðu sæl og sátt í trú sinni, gömlu hjónin, og dóu í henni.
Frú Guðrún Jónsdóttir í Merkisteini lézt 1954. Hún fæddist 11. jan. 1868 og varð því 86 ára.
Sigurður Ísleifsson lézt 1958. Hann fæddist 19. ágúst 1863, eins og áður getur, og varð því 95 ára.
Hólpin hafa þau orðið fyrir trú sína.