Brandur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Brandur til vinstri og Álsey

Brandur er lítil eyja (0.1 km²) sem liggur rétt sunnan við Álsey. Hún er gíglaga nema suðurhlið gígsins hefur orðið sterkri suðuröldunni að bráð og rofnað burt. Ytri hluti gígsins norðan og austan megin er gyrtur hömrum á meðan innri hliðin sunnan megin er meira aflíðandi. Greinilega má sjá 5 m háan gígtappa við rætur suðurbrekkunnar. Veiðikofinn í Brandinum er staðsettur ofarlega á eyjunni en graslendi þekur hana alla. Lundaveiði og eggjataka er hvort tveggja stundað í Brandi og sauðfé haft á beit.


Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

VII. Brandur liggur ca ²/5 úr mílu vestur frá Suðurey (frá austri til vesturs) í hálfhring og er hryggur uppi á honum þannig lagaður, að halli er beggja megin til suðurs og norðurs; að austanverðu (norðaustan) er hryggurinn hæstur og nefndur Hábrandur – austan í Hábrandi eru há sig og súlnatekja töluverð. Fyrir norðan hrygginn, austast, er bergflái allmikill og er þar súlnatekja nefnd Norðurbreiðan . Þar niður af er flá í sjó niður og svartfuglabæli, Þjófaflá . Fyrir sunnan hrygginn er annar flái, þar sem einnig var súlnavarp en nú er þrotið, nefnt Landsuðursbreiða . Austan til fyrir miðju er hamar, mjög brunninn, Rauðhamar . Sunnan megin við hrygginn og niður á þennan hamar er grasi vaxið og vetrarbeit fyrir 30 lömb.

Fyrir sunnan Brandinn að vestan er allhár drangur, Háidrangur eða Mávadrangur að nafni. Milli Háadrangs og Brandsins að sunnan er mjótt sund, sem róa má inn að uppgöngunni, nefnt Vestursund . Annar drangur lágur en landfastur er einnig sunnan megin, en gegnt Háadrangi; er hann nefndur Gyrðisdrangur (af því hann girðir fyrir?) og má einnig róa milli hans og Háadrangs og er þar nefnt Austursund . Bæði Brandurinn og drangarnir Háidrangur og Gyrðisdrangur eru úr móbergi, en í miðju lóni hér um bil er 3ji drangur, lágur en mikill um sig og nefndur Hafnardrangur og er hann úr blágrýti og er þó kolbrunnið hraun allur að ofan.

Myndir


Heimildir