Smáeyjar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Grasleysa, Hrauney, Hani, Hæna og drangurinn Jötunn

Mynd:Smáeyjar kort.PNG

Smáeyjar eru fjórar litlar eyjar ásamt fjölda smáskerja. Eyjarnar liggja rétt vestur af Stafsnesi og er Hani stærst.

Hæna liggur syðst af þeim og er hún 57 m há. Þar urðu miklar gróðurskemmdir 1990 þegar brimaði yfir eyjuna í stormi. Flestir lundar í eyjunni urðu þar með heimilislausir og var allri veiði hætt í kjölfarið.

Norður af Hænu liggur Hani. Á Hana er áberandi hóll er nefnist Hanahöfuð og ber hæst um 87 m. Graslendi þekur eyjuna að mestu.

Næst í röðinni er Hrauney. Ofan á eyjunni eru áberandi grýttir hamrar sem stingast úr graslendinu. Bæði í Hrauney og í Hana eru veiðikofar og dálítil lundatekja auk þess sem fé er haft á beit.

Grasleysa liggur vestan Hrauneyjar, hún er álíka há og Hæna. Á eyjunni sést ekki stingandi strá eins og nafnið gefur til kynna.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

Smáeyjar, séðar frá Norðurgarði.

Smáeyjar eru einu nafni nefndar 4 eyjar, er liggja ca ¼ mílu vestur af Dalfjalli, er Hæna syðst, og er austan í henni hellir stór, er róa má inn í; nefndur Kafhellir . Vestan við Hænu er skerjaklasi, Smáeyjasker og sunnan við þau hár, en örmjór drangur, Jötunn . Þá er Hani næstur, er efst á honum smáhamar, nefndur Hanahöfuð ; þá er næst Hrauney ; eru eggtindar á henni, en þúfumyndanir á Hænu og Hana. Er í eyjum þessum öllum gróður og vetrarbeit fyrir lömb, nema í Hænu, af því sjór gengur yfir hana á vetrum. Grasleysa er næst, því nær graslaus, og minnst þessara smáeyja, er dálítil fýla- og svartfuglatekja í henni. Hér vestur af er smásker, Nafar ; er það aðalbrimmerki eyjaskeggja við Landeyjasand; talið ófært, ef sjór gengur yfir hann. Þar norðan við er smásker, Pottur (eins og pottur á hvolfi).

Myndir


Heimildir