Godthaabverzlun

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Garðsverzlun var nær einráð í verzlun í Eyjum fram til 1830.
Þá hófu verzlun í Eyjum P.C. Knudtzon kaupmaður í Reykjavík og Thomas Thomsen kaupmaður í Hafnarfirði. Nefndu þeir verzlunarstaðinn Godthaab (Góðvon).
Þegar verzlun var hafin á Tanganum (Juliushaab) gekk Godthaabverzlunin yfirleitt undir nafninu Miðbúðin vegna staðsetningar milli Garðs og Tangans.
Samkvæmt félagssamningi frá 11. apríl 1831 átti Thomsen fjórðung verzlunarinnar, en Knudtzon þrjá fjórðu.

Lóðin var mæld vestur af Garðsverzlun við sjávarströndina ofan við Fúlu og Hrófin í Skipasandi.
Þeir félagar slitu félagsrekstrinum árið 1833 og eignaðist Knudtzon alla verzlunina 31. júlí 1833.
Knudtzon rak fyrirtækið af kappi. Lagði hann mikla áherzlu á fiskveiðar með þilskipum. Árið 1833 átti hann í smíðum þrjá þiljubáta, sem voru 6-8 lestir hver. Á vertíð 1834 virðast tveir bátar hans hafa verið gerðir út frá Eyjum og fiskuðu fremur lítið eða rúmlega 9000 fiska báðir. Þótti þetta lítið miðað við afla opnu skipanna. Hann missti svo eitt þilskipa sinna 28. september 1835 og fórust þar fimm menn.
Knudtzon átti síðan Godthaab til 10. júní 1847 að hann seldi eignirnar Jes Thomsen Christensen og Jens Thorvald Abel. Jens var sonur Abels sýslumanns. Þeir Jes og Jens voru mágar, en Jes átti systur hans Jensine Maríu Andreu Abel. Jes varð síðar lengi kaupmaður í Hafnarfirði.
Þeir seldu svo verzlunina Hans Edvard Thomsen 26. júní 1858. Hann hafði verið verzlunarstjóri í Godthaab 1831-1832. Hann rak verzlunina lengi, bjó í fyrstu í Eyjum en síðan í Kaupmannahöfn. Var verzlun hans aldrei mikil, en hann rak talsverðan útveg.
Kom þeim illa saman, J.P.T. Bryde og Thomsen, en Bryde hafði verið settur eftirlitsmaður með rekstrinum af hálfu lánardrottna Thomsens. Thomsen þótti skapmikill og orðljótur. Hann var faðir Lárusar (Lauritz Edvard) Sveinbjörnssonar háyfirdómara, en móðir Lárusar var Kristín Lárusdóttir Knudsen.

Við andlát Thomsens (27. apríl 1881) varð sonur hans Nikolai Heinrich Thomsen eigandi verzlunarinnar og fór fyrirtækinu sífellt hrakandi meðan hann rak það. Seldi hann að lokum Bryde verzlunina 7. apríl 1894 og gerðist kirkjugarðsvörður í Kaupmannahöfn.

Bryde lét þegar rífa verzlunarhús fyrrverandi keppinautar og flutti það til Víkur í Mýrdal þar sem hann setti upp fastaverzlun. Hann hafði svo umráð verzlunarstaðarins þar til 1. janúar 1904 að Gísli J. Johnsen fékk byggingu fyrir lóðinni, en hafði áður haft nokkurn verzlunarrekstur á hluta lóðarinnar. Gísli rak verzlun og útveg þar til 1908 að hann seldi ensku hlutafélagi Copland & Berrie verzlunarstaðinn og verzlunarreksturinn. Þá var verzlunin nefnd Edinborg eða Edinborgarverzlun.

Enska félagið rak svo verzlun og útveg þar, unz Gísli keypti fyrirtækið aftur 28. maí 1917, en salan miðaðist þó við 1. febrúar það ár. Þar rak Gísli svo mikla verzlun og útveg þar til hann varð gjaldþrota 1930.
Einar Sigurðsson eignaðist Godthaabeignina í ágúst 1939 og byggði þar meðal annars Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, sem var ein af stærstu hraðfrystistöðvum landsins.


Heimildir