Grímur Pálsson (Kornhól)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Grímur Pálsson verslunarstjóri (factor), prófastur, fæddist 1775 í Eyvindarholti u. Eyjafjöllum og lést 28. mars 1853 á Þingvöllum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.
Foreldrar hans voru sr. Páll Magnússon prestur í Stóra-Dal u. Eyjafjöllum, síðar að Ofanleiti, f. 1743, d. 24. maí 1789, og kona hans Guðrún Hálfdansdóttir ljósmóðir, f. 1746, d. 19. nóvember 1824.

Grímur lærði fyrst einn vetur hjá sr. Hílaríusi Illugasyni á Mosfelli í Grímsnesi, síðar tvo vetur 1790-1792 hjá sr. Jóni Högnasyni í Drangshlíð, stjúpföður sínum, var í sumarstarfi hjá Magnúsi Stephensen á Leirá í Borgarfirði 1793-1795, nam í Reykjavíkurskóla að vetrinum 1792-1796, varð stúdent 1796 með efsta sæti.
Hann varð skrifari og að nokkru leyti ráðsmaður á Leirá 1796-1806, bjó félagsbúi með Jóni stjúpa sínum á Ólafsvöllum á Skeiðum 1807.
Grímur var verslunarstjóri hjá Garðsverslun 1807 og gegndi því starfi til 1819. Hann bjó á Gjábakka 1812 með Solveigu og Guðrúnu 5 ára, þar 1814 og 1815, í Kornhól 1816.
Hann fluttist að Brautarholti á Kjalarnesi 1819, en þá jörð hafði hann eignast. Með hjónunum fluttust 5 vinnuhjú úr Eyjum.
Hann fékk veitingu fyrir Helgafelli á Snæfellsnesi 21. desember 1819, vígðist 16 apríl árið eftir og fluttist þangað um vorið, prófastur var hann í Snæfellsnessýslu 1822-1824, sagði af sér prestskap 1836 „vegna óánægju sóknarmanna með hegðun hans“.
Lýsing í Íslenskum æviskrám: „Hann var maður mikilúðlegur og drykkjugjarn á síðari árum (byrjaði og hélt því fram vegna gigtveiki), rækti og alllítt prestsembætti sitt, enda meir hneigður til kaupskapar og gróða, hæfileikamaður að upplagi og skáldmæltur (einn sálmur í viðbæti messusöngsbókar).“

Grímur var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans, (19. maí 1806, skildu), var Solveig Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. 1775, d. 10. maí 1866.
Börn þeirra hér:
1. Guðrún Grímsdóttir húsfreyja í Öxney á Breiðafirði, f. 19. maí 1807, d. 20. apríl 1890. Maður hennar var Guðlaugur bóndi þar Jónsson Matthíassonar (Mathiesen).
2. Páll Grímsson, f. 29. janúar 1811, d. 6. febrúar 1811.
3. Sigríður Grímsdóttir, f. 5. maí 1813. Mun hafa dáið ung, (dánarskýrslur skortir).
4. Jóhann Grímsson, f. 24. október 1815. Mun hafa dáið ungur, (dánarskýrslur skortir).
5. Andvana fætt piltbarn 2. janúar 1819.

II. Síðari kona Gríms, (31. maí 1834), var Þórunn Ásgrímsdóttir pests Vigfússonar, f. 9. febrúar 1801, d. 4. nóvember 1877.
Börn þeirra voru:
6. Sigríður Grímsdóttir húsfreyja á Hvarfi í Víðidal, f. 1836. Maður hennar var Jónas Guðmundsson bóndi.
7. Kristín Grímsdóttir húsfreyja, f. 16. desember 1842, d. 8. febrúar 1897, fyrr gift Friðrik Eggertssyni Fjeldsted, síðar Eyþóri Felixsyni vestanpósti, síðar kaupmanni í Reykjavík.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Borgfirzkar æviskrár. Margir höfundar. Sögufélag Borgarfjarðar 1969-2007.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.