Guðrún Jónsdóttir (Frydendal)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðrún Jónsdóttir vinnukona, síðar bústýra á Vilborgarstöðum, fæddist 28. febrúar 1864 í Vesturholtum u. Eyjafjöllum og lést 10. nóvember 1890 á Vilborgarstöðum.
Foreldrar hennar voru Jón Gunnsteinsson eldri, bóndi í Vesturholtum u. Eyjafjöllum, f. 31. ágúst 1824, d. 29. maí 1869, og kona hans Sigríður Jónsdóttir húsfreyja, f. 1823, d. 13. maí 1865.

Guðrún var systir
1. Gunnsteins Jónssonar sjómanns í Hólshúsi, f. 10. október 1859, d. 8. október 1892 og átti víðan ættboga í Eyjum. Hún var systurdóttir
2. Margrétar Jónsdóttur húsfreyju í Nýja-Kastala móður Hannesar lóðs.
Ættbogi Guðrúnar í Eyjum í föðurætt var víðfeðmur. Sjá elsta hluta hans á síðu
3. Jóhönnu Gunnsteinsdóttur húsfreyju í Dölum.

Foreldrar Guðrúnar létust báðir í bernsku hennar, móðir hennar, er hún var á öðru ári og faðirinn, er hún var fimm ár.
Hún fluttist til Eyja 1870 og var tökubarn hjá Margréti Jónsdóttur móðursystur sinni í Nýja-Kastala 1870, síðar fósturbarn, og vinnukona þar 1880 og síðar hjá Hannesi syni Margrétar.
Hún var vinnukona í Frydendal við fæðingu Jóhanns 1885, og þar var hún bústýra Antons við fæðingu Karls 1889.
Guðrún var bústýra Antons á Vilborgarstöðum 1890, er hún lést.

I. Barnsfaðir og sambýlismaður Guðrúnar var Anton Bjarnasen verslunarþjónn, síðar verslunarstjóri í Vík og Eyjum og kaupmaður í Dagsbrún, f. 6. desember 1864, d. 21. mars 1916.
Börn þeirra hér:
1. Jóhann Antonsson Bjarnasen kaupmaður, f. 26. júní 1885, d. 24. september 1953.
2. Karl Antonsson Bjarnasen, f. 18. október 1889, d. 1915.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.