Anton Bjarnasen (Garðinum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Anton Bjarnasen.

Anton Gísli Emil Pétursson Bjarnasen verslunarstjóri og kaupmaður fæddist 6. desember 1863 í Garðinum og lést 22. mars 1916.
Foreldrar hans voru Jóhann Pétur Benedikt Jóhannsson Bjarnasen verslunarstjóri, f. 15. nóvember 1834, d. 1. maí 1869, og kona hans Johanne Caroline Hansdóttir Rassmussen, f. 2. september 1835, d. 25. febrúar 1920.

Anton ólst upp hjá foreldrum sínum fyrstu 5 árin, en þá lést faðir hans. Hann var með móður sinni og Jes Nicolai Thomsen stjúpföður sínum í Godthaab 1870 og 1880. Þar voru einnig systkini hans og 1880 var Guðmundur Jesson sonur Jes þar.
Anton eignaðist tvö börn með Guðrúnu Jónsdóttur vinnukonu í Frydendal og hann var þar til heimilis við fæðingu síðara barnsins 1889.
Þau Guðrún bjuggu á Vilborgarstöðum 1890, hann húsbóndi, verslunarþjónn, hún bústýra. Með þeim voru synirnir Jóhann og Karl.
Brúðkaup þeirra Guðrúnar hafði verið ákveðið samkv. prestþjónustubók, en hún dó 10. nóvember 1890 á Vilborgarstöðum.
Við manntal 1890 var Sigríður Guðmundsdóttir til heimilis hjá systur sinni Önnu Guðmundsdóttur húsfreyju á Ofanleiti.
Þau Sigríður giftust 1892 og bjuggu í Elínarhúsi, en við lýsingu til giftingar fyrr á árinu bjó Anton í Mandal. Þau bjuggu í Steinum 1895.
Anton varð verslunarstjóri Péturs Bryde í Vík í Mýrdal 1895. Því starfi gegndi hann til ársins 1900, en þá fluttist fjölskyldan aftur til Eyja, og þar tók hann við verslunarstjórastöðunni hjá Garðsverslun af bróður sínum Jóhanni Morten Pétri Bjarnasen, sem hætti í júnílok 1900. Hann var verslunarstjóri þar til ágústmánaðar 1911, en þá tók Ólafur Arinbjarnarson við versluninni.
1901 var hann með Sigríði konu sinni og börnunum Axel og Óskari í Godthaab. Jóhann sonur hans var þá búðarþjónn, leigjandi hjá Júlíönu frænku sinni og Jóni Árnasyni frá Vilborgarstöðum í Reykjavík.
Er hann lét af störfum fyrir Garðsverslun 1911, stofnaði hann eigin verslun í Dagsbrún, sem hann rak til dd. Þau Sigríður byggðu og bjuggu þar frá árinu 1911.
Anton tók virkan þátt í atvinnu- og félagsmálum í Eyjum. Hann lést 1916.

I. Barnsmóðir og sambýliskona Antons var Guðrún Jónsdóttir vinnukona í Frydendal, bústýra á Vilborgarstöðum 1890.
Börn þeirra voru
1. Jóhann Antonsson Bjarnasen f. 26. júní 1885, d. 24. september 1953.
2. Karl Antonsson Bjarnasen, f. 18. október 1889, d. 1915.

II. Kona Antons, (11. nóvember 1892), var Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 29. desember 1859, d. 5. mars 1955.
Börn þeirra hér:
1. Axel Antonsson Bjarnasen, f. 3. febrúar 1895 í Steinum, d. 25. september 1967.
2. Óskar Antonsson Bjarnasen, f. 21. mars 1899 í Vík í Mýrdal, d. 22. október 1957.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Gamalt og nýtt. Útgefandi: Einar Sigurðsson. Vestmannaeyjum 1949-1952.
  • Heimaslóð.is.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.