Halldór Guðjónsson (skólastjóri)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Halldór

Halldór Guðjónsson fæddist í Smádalakoti í Flóa 30. apríl 1895 og lést 30. janúar 1997, 101 árs að aldri.

Eiginkona hans var Elín Jakobsdóttir.

Kennarapróf fékk hann árið 1921 og hóf þá kennslu við Barnaskóla Vestmannaeyja og var við almenna kennslu til ársins 1939. Hann var skólastjóri Barnaskólans milli 1939 og 1956. Einnig var hann skólastjóri Iðnskólans. Halldór var einn af níu stofnendum Taflfélags Vestmannaeyja og tefldi talsvert í félaginu á upphafsárum þess.

Í tilefni af fimmtugsafmæli hans árið 1945 var svo skrifað um hann í tímaritið Menntamál:

,,Halldór hefur þótt góður kennari, ötull og skyldurækinn. Hann hefur gert sér far um að fylgjast sem bezt með nýjungum í starfi sínu. Á árinu 1928 dvaldi hann um skeið í Danmörku til þess að kynna sér kennslu í söng og reikningi.
Halldór hefur verið traustur liðsmaður í stéttarsamtökum kennara... Sómdi hann sér flestum mönnum betur við þau störf.

Halldór var bæjarfulltrúi 1922—25, bæjargjaldkeri 1923—30 og yfirskattanefndarmaður frá árinu 1933.
Hann bjó að Hraunbæ 103 í Reykjavík er hann lést.


Heimildir

  • gardur.is
  • Menntamál 18. árgangur 1945, 4. tbl., bls. 96.

Frekari umfjöllun

Halldór Guðjónsson skólastjóri fæddist 30. apríl 1895 að Smjördala-Norðurkoti í Flóa og lést 30. janúar 1997.
Faðir hans var Guðjón bóndi, síðar í Sölvholti og Bitru í Flóa, f. 29. jan. 1858, d. 1. jan. 1941, Guðnason bónda í Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi, Árn., f. 21. júlí 1829, d. 4. október 1865, Jónssonar, og konu Guðna bónda, Katrínar Guðnadóttur húsfreyju, f. 10. september 1829, d. 18. apríl 1906.
Móðir Halldórs og kona (skildu) Guðjóns var Halldóra húsfreyja, f. 15. júní 1853, d. 17. júlí 1925, Halldórs bónda á Dísastöðum í Flóa, f. 24. júní 1821, d. 9. september 1856, Magnússonar og konu Halldórs, Sigríðar Gísladóttur húsfreyju, f. 18. nóvember 1821, d. 17. júlí 1905.

Halldór hóf skósmíðanám í Rvk 1913 og stundaði jafnframt nám í kvöldskóla Ásmundar Gestssonar. Hann hætti við skósmíðanámið eftir 2 vetur og stundaði allskonar vinnu til lands og sjávar. Var hann við nám í kvöldskóla, þegar tækifæri gafst. Vorið 1916 tók hann próf upp í 2. bekk verzlunarskólans, en varð að hætta við nám í þeim skóla vegna fjárskorts. Hann tók próf upp í 2. bekk Kennaraskólans 1919 og lauk kennaraprófi 1921.
Hann sigldi til Danmerkur 1928 og kynnti sér kennsluhætti í Kaupmannahöfn, einkum í söng og stærðfræði. Síðar fór hann tvisvar til Norðurlanda svipaðra erinda.

Halldór var settur kennari við Barnaskólann í Eyjum frá 1. okt. 1921, skipaður næsta ár. Hann kenndi við unglingaskóla í Eyjum frá 1921-1924. Auk þess kenndi hann við Gagnfræðaskólann 1930-31, tók við skólastjórn Kvöldskóla iðnaðarmanna í Eyjum 1931 og gegndi til 1955. Við fráfall Páls Bjarnasonar skólastjóra Barnaskólans í desember 1938 var hann settur skólastjóri og skipaður 1. sept. 1939, gegndi því starfi til 1956.
Halldór var bæjargjaldkeri 1923-1930 jafnframt kennslunni. Bæjarfulltrúi var hann 1922-25. Hann átti sæti í yfirskattanefnd, var endurskoðandi hafnarsjóðs, Sparisjóðsins og Sjúkrahússins um skeið. Hann sat í stjórn Stéttarfélags barnakennara í Vestmannaeyjum frá stofnun 1921, formaður þess 1933-39. Hann var ritari Rauðakrossdeildarinnar í Eyjum frá stofnun 1940-50.
Halldór flutti til Reykjavíkur 1956, var þar aðstoðarmaður við fjármálaeftirlit skóla, vann síðan við endurskoðun og útreikninga hjá Ólafi Pálssyni um árabil.
Rit: Ýmsar blaða- og tímaritsgreinar.
Þau Svava giftu sig 1922, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu á Kirkjuhól við Bessastíg 4 við giftingu, í Heiðardal við Hásteinsveg 2 við fæðingu Sigurðar Guðna 1923, á Sólbergi við Brekastíg 3 1924. Þau Svava skildu 1924 og Halldór bjó einn í Heiðardal 1925, bjó einn á Kanastöðum við Hásteinsveg 22 1927 og á Fífilgötu 5 1930.
Þau Kristrún giftu sig 1932, eignuðust ekki barn. Þau bjuggu á Fífilgötu 5 til 1939 og skildu.
Þau Elín giftu sig 1940, eignuðust tvö börn og bjuggu í Barnaskólanum.

Halldór var þríkvæntur.
I. Fyrsta kona hans, (10. febr. 1922, skildu 1924), var Svava Jónsdóttir húsfreyja, skrifstofumaður, f. 30. október 1902, d. 6. desember 1969. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson bóndi, hreppstjóri, alþingismaður á Haukagili í Stafholtstungum, Mýr.,f. 13. desember 1871, d. 20. september 1935, og barnsmóðir hans Guðný Jónsdóttir frá Múlastöðum í Flókadal, Borg., vinnukona, f. 30. júlí 1877, d. 22. október 1945.
Barn þeirra:
1. Sigurður Guðni Halldórsson verkfræðingur, f. 13. apríl 1923, d. 24. september 2007. Kona hans Sigrún Magnúsdóttir.

II. Önnur kona Halldórs, (28. sept. 1932, skildu), var Kristrún Jónsdóttir húsfreyja, kennari, verslunarmaður, f. 14. mars 1901, d. 20. mars 1980. Þau voru barnlaus.

III. Þriðja kona Halldórs, (7. des. 1940), var Elín Sigríður Jakobsdóttir húsfreyja, verslunarmaður, matreiðslukona, f. 21. janúar 1914, d. 31. ágúst 2004.
Börn þeirra:
2. Ragnar Ingi Halldórsson sjómaður, tækniteiknari í Reykjavík, f. 17. janúar 1941, d. 8. nóvember 1995. Fyrrum kona hans Åse Sandal. Sambúðarkona hans Stella Eiríksdóttir.
3. Halldóra Margrét Halldórsdóttir sálfræðingur, framhaldsskólakennari, námsráðgjafi, f. 15. desember 1942. Maður hennar Heiðar Þ. Hallgrímsson.

Myndir


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Borgfirzkar æviskrár. Margir höfundar. Sögufélag Borgarfjarðar 1969-2007.
  • Hver er maðurinn — Íslendingaævir. Brynleifur Tobíasson. Fagurskinna 1944.
  • Íslendingabók.is.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 9. febrúar 1997. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.