Karl Jónsson (Hlíðarhúsi)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Karl Jónsson (Kalli fjalla) frá Hlíðarhúsi, íþróttafrömuður, afreksmaður, vélstjóri, málari, trésmiður, listamaður fæddist 15. júlí 1909 og lést 12. júlí 1995.
Foreldrar hans voru Jón Einarsson útgerðarmaður á Höfðabrekku, f. 5. apríl 1885, d. 26. febrúar 1978, og barnsmóðir hans Sigríður Bergsdóttir, síðar húsfreyja í Hlíðarhúsi, f. 27. júní 1878, d. 13. febrúar 1963.

Börn Sigríðar með Jóhanni Gíslasyni:
1. Gísli Friðrik múrarameistari í Reykjavík, fæddur 22. janúar 1906, dáinn 4. nóvember 1980.
2. Bogi rafmeistari í Neista í Eyjum, fæddur 30. september 1920, dáinn 20. maí 2007.
Barn Sigríðar með Jóni Einarssyni útgerðarmanni á Faxastíg 15, Höfðabrekku, f. 5. apríl 1885, d. 26. febrúar 1978:
3. Karl Jónsson íþróttafrömuður, málari, trésmiður, f. 15. júlí 1909, d. 12. júlí 1995.
Barn Jóns Einarssonar og Sesselju Stefánsdóttur ráðskonu hans:
4. Ásbjörg Jónsdóttir, f. 28. mars 1933.

Karl var með móður sinni í Hlíðarhúsi 1910 og enn 1927, bjó hjá föður sínum á Höfðabrekku 1930 og 1940, með móður sinni 1945 og 1949 og hélt heimili með henni.
Hann nam vélstjórn og var vélstjóri á Höfrungi VE 238, bát föður síns um árabil. Einnig vann hann við fiskiðnað á útvegi föður síns.
Þá vann Karl lengi við málaraiðn hjá Sefáni í Framtíð, en síðan lærði hann trésmíðar hjá Sigurvini Snæbjörnssyni og lauk sveinsprófi í greininni. Hann vann við iðnina um 30 ára skeið, hjá Sigurvini, Ísfélaginu og Guðmundi Böðvarssyni. Að síðustu vann hann hjá Áhaldahúsi bæjarins.
Karl þótti sérlega listhneigður og stundaði skrautritun bóka og skjala, málaði húsgögn og nafnskilti á báta.
Það sem var þó mikið áberandi í störfum Karls var áhugi hans á hverskona íþróttum. Hann stundaði bæði fimleika og frjálsar íþróttir og átti um skeið íslenskt met í sleggjukasti. Einnig þjálfaði hann æskufólk, m.a. í handbolta kvenna. Hann sat í stjórn Týs, var formaður þess um skeið og hlaut viðurkenningar fyrir störf sín. Einnig var hann stjórnarmaður í íþróttaráði ÍSÍ í Eyjum frá 1929 til 1944.
Eftir Gosið flutti hann að Höfðabrekku.
Hann dvaldi að síðustu í Hraunbúðum og lést 1995.
Karl var ókvæntur og barnlaus.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.