Kristín Magnúsína Pétursdóttir (Þorlaugargerði)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Kristín Magnúsína Pétursdóttir frá Þorlaugargerði fæddist 6. ágúst 1879 og lést 10. október 1924.
Foreldrar hennar voru Pétur Benediktsson bóndi í Þorlaugargerði, f. 12. febrúar 1841 í Breiðabólstaðarsókn í Rang., d. 16. október 1921 í Eyjum og fyrri kona hans Kristín Guðmundsdóttir húsfreyja frá Búðarhóli í A-Landeyjum, f. 4. maí 1841, d. 13. apríl 1881.

Börn Péturs og Kristínar í Þorlaugargerði voru:
1. Guðmundur Pétursson sjómaður í Grindavík, f. 20. janúar 1866, fórst í sjó 31. október 1900. Hann var tökubarn hjá ekkjunni móðurmóður sinni á Búðarhóli 1870. Þar var móðir hans Kristín, ógift vinnukona. Þess má geta, að sonur Guðmundar var Magnús faðir Guðmundar föður þeirra Magnúsar Tuma prófessors í jarðeðlisfræði og Más seðlabankastjóra.
2. Jón Pétursson bóndi og smiður í Þorlaugargerði, f. 21. júlí 1868, d. 18. júní 1932. Hann var tökubarn hjá ekkjunni móðurmóður sinni á Búðarhóli 1870. Þar var móðir hans Kristín, ógift vinnukona..
3. Kristín Pétursdóttir, f. 17. nóvember 1875, d. 23. nóvember 1875 úr „barnaveiki“.
4. Martea Guðlaug Pétursdóttir, f. 1. mars 1876, d. 24. júní 1921, fyrri kona Guðjóns á Oddsstöðum.
5. Kristín Magnúsína Pétursdóttir verkakona, húsfreyja á Brekku 1910, f. 6. ágúst 1879, d. 10. október 1924.
6. Kristín Pétursdóttir, f. 9. apríl 1881, d. 10. júní 1881 úr „barnaveikindum“. Móðir hennar dó af þessum barnsförum 13. apríl 1881.

Kristín Magnúsína var með foreldrum sínum í frumbernsku. Móðir hennar dó, er hún var á 2. árinu. Hún var síðan með föður sínum, með honum og síðari konu hans Ingibjörg Sigurðardóttir, var vinnukona hjá þeim 1895, vinnukona hjá Guðlaugu systur sinni á Oddsstöðum 1901, á Löndum við fæðingu Guðfinnu 1903, en hún fór í fóstur til Jóns móðurbróður síns og Rósu konu hans og dvaldi hjá þeim fram á fullorðinsár. Kristín var vinnukona hjá Jóhanni og Kristínu á Brekku 1906. Hún fór til Seyðisfjarðar 1908 og kom þaðan 1909, var ógift húsfreyja á Brekku í lok árs 1910 og vann við fiskhirðingu, leigjandi þar 1911-1912, á Uppsölum 1913, lausakona á Látrum 1914 og við fæðingu Ársólar Svövu 1917. Svava, kölluð svo, fór einnig í fóstur til frændfólksins í Þorlaugargerði. Kristín var lausakona í Götu 1920-1923. Hún lést 1924.

I. Barnsfaðir Kristínar Magnúsínu var Sigbjörn Björnsson á Ekru, þá vinnumaður á Oddsstöðum, fæddist 8. september 1876 að Loftsölum í Mýrdal og lést 21. maí 1962.
Barn þeirra var
1. Guðfinna Sigbjörnsdóttir, f. 15. nóvember 1903 á Löndum, d. 1. maí 1967.

II. Barnsfaðir Kristínar var Jón Sigurður Pétur Norðfjörð frá Mjóafirði, f. 22. júní 1894, d. 6. október 1969. Hann fluttist með móður sinni Sigurlín Bjarnadóttur til Eyja 1903.
Barn þeirra var
2. Ársól Svafa Sigurðardóttir, f. 29. janúar 1917 á Látrum, síðast á Hrafnistu, d. 21. janúar 1995.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.