Magnea Hannesdóttir (Hæli)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Magnea Guðlaug Hannesdóttir.

Magnea Guðlaug Hannesdóttir Waage frá Hæli, húsfreyja, kaupmaður fæddist 21. desember 1922 í Breiðholti og lést 4. júlí 2017.
Foreldrar hennar voru Hannes Hreinsson fiskimatsmaður, f. 2. október 1892 í Selshjáleigu í A-Landeyjum, d. 28. maí 1983, og fyrsta kona hans Vilborg Guðlaugsdóttir húsfreyja, f. 29. október 1892 í Hallgeirsey í A-Landeyjum, d. 23. október 1932.

Börn Hannesar og Vilborgar:
1. Magnea G. Hannesdóttir Waage húsfreyja, verslunarmaður, f. 21. desember 1922, d. 4. júlí 2017.
2. Jóna Bergþóra Hannesdóttir.
3. Ásta Sigríður Hannesdóttir húsfreyja, snyrtifræðingur, f. 10. mars 1929.
Barn Hannesar og Jóhönnu Sveinsdóttur, síðari konu hans:
4. Hrönn Vilborg Hannesdóttir húsfreyja, leikskólastarfsmaður, f. 22. febrúar 1939.

Magnea var með foreldrum sínum fyrstu ár sín, en hún missti móður sína á 10. árinu.
Hannes, faðir hennar kvæntist aftur, Jóhönnu Sveinsdóttur, sem reyndist Magneu og systrum hennar vel, en dó líka frá manni sínum.
Magnea lauk gagnfræðaprófi í Gagnfræðaskólanum, og IV. bekk, sem var haustskóli.
Hún vann á skrifstofu hjá Einari Sigurðssyni um skeið, nam við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði, en flutti síðan til Reykjavíkur og vann á skrifstofu.
Þegar Þjóðleikhúskórinn var stofnaður 1953 gekk Magnea til liðs við hann og söng í öllum óperuuppfærslum hússins þar til kórinn var lagður niður 1995. Síðustu árin söng Magnea með Senjorítunum og var lengi vel elst í þeim hópi.
Um árabil ráku þau Einar Waage Biðskýlið við Háaleitisbraut og Magnea ein eftir fráfall hans. Í mörg ár gegndi hún stjórnarstörfum í Kaupmannasamtökunum.
Einar Waage lést 1976 og Magnea 2017.

Magnea var tvígift.
I. Fyrri maður hennar, (24. október 1942, skildu), var Guðmundur Ágústsson frá Ásnesi, framkvæmdastjóri kexverksmiðjunnar Fróns, f. 2. september 1918, d. 2. desember 2001.
Börn þeirra:
1. Edda Vilborg Guðmundsdóttir leikkona í Reykjavík, f. 23. desember 1943. Sambýlismaður hennar Elías Sv. Sveinbjörnsson.
2. Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri í Reykjavík, f. 29. júní 1947. Kona hans er Kristín Atladóttir.

II. Síðari maður Magneu var Einar Guðjón Benediktsson Waage hljóðfæraleikari, f. 8. ágúst 1924, d. 12. október 1976.
Börn þeirra:
3. Elísabet Waage hörpuleikari, f. 12. júní 1960. Fyrum maður hennar er Fred Leferink.
4. Kristín Waage organisti, f. 11. desember 1962. Maki hennar er Reynir Þór Finnbogason.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.