Marinó Guðmundsson (loftskeytamaður)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Marinó Guðmundsson.

Marinó Guðmundsson frá Hilmisgötu 1, loftskeytamaður, innkaupastjóri, tónlistarmaður fæddist 28. nóvember 1927 á Hólnum, Landagötu 18 og lést 27. janúar 2006 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson frá Miðkekki (síðar Svanavatn) á Stokkseyri, skósmiður, f. 23. apríl 1899, d. 16. janúar 1989, og kona hans Jóhanna Ólafsdóttir frá Hólnum, húsfreyja, f. 26. júlí 1895 á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð, d. 27. júlí 1984.

Börn Jóhönnu og Guðmundar:
1. Marinó Guðmundsson loftskeytamaður, innkaupastjóri í Reykjavík, tónlistarmaður, f. 28. nóvember 1927 á Hólnum, d. 27. janúar 2006.
2. Björgvin Einars Guðmundsson málari, tónlistarmaður, f. 9. nóvember 1929 á Karlsbergi, síðast í Keflavík, d. 31. ágúst 2005.
3. Andvana drengur, f. 9. nóvember 1930 á Karlsbergi.
4. Ólafur Guðmundsson málarameistari, tónlistarmaður, f. 11. maí 1934 á Hilmisgötu 1.
Fóstursonur þeirra er sonur Marinós og Birnu Einarsdóttur:
5. Jóhann Marinósson hjúkrunarframkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands á Selfossi, f. 23. júlí 1947. Kona hans er Halldóra Jensdóttir.

Marinó var með foreldrum sínum í æsku.
Hann varð gagnfræðingur í Gagnfræðaskólanum 1943, fluttist á Selfoss 1945.
Marinó varð loftskeytamaður 1947 og lauk námi í Tónlistarskóla Reykjavíkur um sama leyti.
Hann starfaði erlendis í 10 ár, og var þar af 8 ár búsettur í Hollandi. Hann sigldi á grískum skipum milli Suður-Ameríku og Evrópu í eitt ár. Meðan hann bjó í Hollandi starfaði hann hjá Philips fyrirtækinu. Eftir að hann fluttist til Íslands vann hann hjá Landsíma Íslands og við hótelrekstur á Keflavíkurvelli. Síðustu starfsár sín vann hann hjá álveri Ísal í Straumsvík.
Úr minningargrein eftir Gísli Brynjólfsson:
Í vetrarlok árið 1944 smalaði Marinó Guðmundsson saman sex unglingum í þeim tilgangi að stofna hljómsveit. Marinó 17 ára, Guðni Hermansen 16, Björgvin bróðir Marinós 15, Guðjón Kristófersson 15, Guðjón Pálsson 15 (þeir voru systkinasynir) og undirritaður 15. Hljómsveitin reyndi að spila jazz-skotna danstónlist og hljóðfæraskipan var þó nokkuð óvenjuleg. Marinó spilaði á trompet og ukolele-banjó, Björgvin á trommur en trommurnar voru gerðar úr skipasaums-kútum með strekktu skinni og skrautlega málaðar af Guðna. Fyrir það var hljómsveitin kölluð „Tunnubandið“. Guðjón Pálsson hafði orgel heima hjá sér og fór að reyna við orgelið, kannski meira af vilja en mætti en mjór er mikils vísir, hann var því píanóleikarinn. Guðni átti harmóniku, heldur litla og lélega. Þá fréttist af Hohner-harmoniku fjögurra kóra með fjórum skiptingum og tveimur í bassa. Verið var að senda nikkuna í pósti til Reykjavíkur en eigandinn afturkallaði hana úr póstinum. Nú vantaði peninga og þá varð það úr að íþróttafélögin Þór og Týr lánuðu okkur fyrir nikkunni. Undirritaður og Guðjón Kristófersson voru með gítara, má því segja að við höfum verið langt á undan Bítlunum með tvo gítara.
Mikið var æft um sumarið og svo var spilað á árshátíðum íþróttafélaganna um haustið. Við spiluðum einnig af og til á dansleikjum í Akógeshúsinu veturinn 1945. Síðan kom hið óumflýjanlega, foreldrar Marinós og Björgvins fluttu búferlum að Selfossi og þar með var draumurinn búinn.

I. Sambýliskona Marinós var Birna Einarsdóttir, f. 28. júlí 1926, d. 17. nóvember 1987.
Börn þeirra:
1. Jóhann Marinósson hjúkrunarframkvæmdastjóri á Selfossi, f. 23. júlí 1947. Kona hans er Halldóra Jensdóttir.
2. Dagnýr Marinó Marinósson vélfræðingur, rennismiður, f. 23. maí 1949. Kona hans er Hildur Helgadóttir.

II. Sambýliskona Marinós var Jóhanna Kool, f. 1925, d. 1973.
Börn þeirra:
3. Joyce Marinósdóttir kennari, f. 1952. Maður hennar er Ben van der Werff.
4. Wilma Marinósdóttir fréttamaður, f. 1955.
5. Páll Marinósson tónlistarkennari, f. 1957.

III. Barnsmóðir Marinós er Kolbrún Magnúsdóttir lyfjatæknir, f. 5. september 1936, d. 28. desember 2011.
Barn þeirra er
6. Hrafnkell Marinósson kennari, f. 10. ágúst 1962. Kona hans er Hlín Ástþórsdóttir.

IV. Kona Marinós, (5. apríl 1969), var Guðrún Guðmundsdóttir kjólameistari, lengst í Parísartískunni, áður gift Haraldi Sigurðssyni, f. 1920; Guðrún f. 13. ágúst 1921, d. 13. júní 2011.
Börn hennar og stjúpbörn Marinós:
6. Guðmundur Helgi Haraldsson vélfræðingur, rennismiður, f. 15. febrúar 1945, d. 20. desember 2015. Kona hans er Helga Ingibjörg Þorkelsdóttir.
7. Kristrún Haraldsdóttir leikskólakennari, f. 26. nóvember 1947. Maður hennar var Þorbjörn Rúnar Sigurðsson, látinn.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.