N. N. Bryde

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Niels Nikolai Bryde kaupmaður fæddist árið 1800 og lézt 9. ágúst 1879. Hann var beykir í Höfðakaupstað á Skagaströnd 1826, en var orðinn verzlunarþjónn þar 1829.
Bryde var orðinn verzlunarstjóri við Garðsverzlun 1831. Bjó hann í Kornhól, Danska Garði 1830-1838. Hann mun hafa flutt til Danmerkur 1840.

Eigandi Garðsverzlunar 1838 varð Jens Jakob Benediktsen frá Staðarfelli í Dalasýslu. Hann lézt í Eyjum, er hann var þar á ferð 14. júní 1842. Opinbert uppboð á eignunum var haldið í kauphöllinni í Kaupmannahöfn þar sem hæstbjóðandi var M. W. Stass stórkaupmaður. Hann framseldi boðið N. N. Bryde 9. marz 1844, en hann fékk afsal fyrir eigninni 6. júní sama ár, útgefið í Eyjum.
Byggingu fyrir Kornhólslandinu fékk hann 1844, þegar dánarbú Jens Benediktsens sleppti henni.
Bryde bjó í Danmörku nema yfir hásumarið eins og selstöðukaupmenn gerðu yfirleitt.

Árið 1851 keypti hann Juliushaabverzlun handa syni sínum Pétri og rak þar einskonar útibú frá Garðsverzlun. Það var þá í reglu, að sami kaupmaður mætti aðeins eiga eina verzlun á hverjum stað og var þessi ráðstöfun hans því gerð til að fara fram hjá þeim reglum og koma í veg fyrir samkeppni.
Þegar hann var beykir á Skagaströnd átti hann í útistöðum við Bólu-Hjálmar, sem orti:

Heitir Bryde beykirinn
bölvað hýðið synda,
í hann skríði andskotinn
úr honum smíði tinda.

Bryde var vel séður í Eyjum. Gerði hann mönnum margt gott, t.d. með korngjöfum í hallærinu 1865.
Bjarni Einar Magnússon sýslumaður útvegaði honum riddarakross Dannebrogsorðunnar, en Bryde hafði þá nýlega verið sæmdur etazráðsnafnbót.
N. N. Bryde var farinn að heilsu síðustu æviárin og lét hann því stjórn verzlunarinnar í hendur syni sínum Bryde yngri, sem erfði hana síðan.

Kona Níels Bryde var Johanne Birgitte Bryde.
Börn þeirra í Eyjum voru
1. Johan Peter Thorkelin Bryde., f. 10. september 1831, d. 13. apríl 1910.
2. Carel Vilhelm Edvard Bryde, f. 28. júlí 1833, d. 3. ágúst 1833 úr ginklofa.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.