Sigríður Ólafsdóttir (Ásbrún)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sigríður og Nikólína dóttir hennar.

Sigríður Ólafsdóttir húskona í Mjóafirði eystri, síðar á Hásteinsvegi 4, (Ásbrún) fæddist 17. desember 1867 í Rofabæ í Meðallandi og lést 20. ágúst 1948.
Foreldrar hennar voru Ólafur Ólafsson bóndi í Rofabæ, f. 6. júlí 1841 í Seglbúðum í Landbroti, d. 25. ágúst 1881 á Seljalandi u. Eyjafjöllum, og fyrri kona hans Vilborg húsfreyja, f. 12. nóvember 1837, d. 18. júní 1869, Jónsdóttir Landeyings Höskuldssonar.

Sigríður var hálfsystir, (samfeðra), Vilhjálms Ólafssonar á Múla.

Sigríður var með foreldrum sínum í Rofabæ til 1869, var tökubarn í Hraunkoti í Landbroti 1869-1871, var hjá foreldrum sínum í Rofabæ 1871-1878, var tökubarn á Sléttabóli á Brunasandi 1878-1881, á Kársstöðum í Landbroti 1881-1882, á Sléttabóli 1882-1883.
Hún var vinnukona á Sléttabóli 1883-1885, á Teigingalæk á Brunasandi 1885-1886.
Sigríður fluttist til Mjóafjarðar eystri 1886 og var þar vinnukona á Grund í 2 ár. Þá fór hún til Seyðisfjarðar. Hún var í Húsavík eystra 1890, eignaðist Árna Guðlaug þar 1892. Hún fór þaðan til Mjóafjarðar 1893 og varð vinnukona í Holti.
Þau Jón Árnason hófu búskap í húsmennsku á Höfðabrekku í Mjóafirði 1895, en næsta ár var hún húskona þar en Jón vinnumaður. Hún eignaðist barnið Sigurgíslu Sumarrós 1896, en misstu hana tæpra sex mánaða gamla.
Þau Jón giftu sig 1897 og fluttust að Holti, hann vinnumaður, hún húskona. Árni Guðlaugur var hjá þeim. Árið 1901 voru þau í húsmennsku í Holti með börnin þrjú, Árna Guðlaug, Nikólínu og Ólaf Vilberg, en vorið eftir fluttust þau að Melum í Mjóafirði, þar sem Jón mun hafa róið til fiskjar á eigin bát um sumarið.
Jón lést á Melum í desember 1902 og Sigríður eignaðist Jónu Sigurborgu eftir lát hans.
Sigríður varð að koma börnunum fyrir hjá vandalausum.
Árni Guðlaugur sonur hennar fórst 6. október 1910 með mótorbátnum frá Holti.
Sigríður fluttist til Eyja með Nikólínu dóttur sína 1911, dvaldi hjá Vilhjálmi bróður sínum og Guðbjörgu á Múla 1911 og enn 1919, var leigjandi verkakona hjá Jónasi á Múla 1920, ráðskona hjá Stefáni Jónssyni á Blómsturvöllum 1921 og 1922, ekkja með Nikolínu dóttur sinni í Bifröst 1923.
Hún var hjá Nikolínu Jónsdóttur dóttur sinni og Vilhjálmi Jónssyni á Nýlendu 1924 og enn 1927, og hjá þeim á Ásbrún 1930 og enn 1940.
Sigríður lést 1948.

I. Barnsfaðir Sigríðar var Sigurgísli Ólafsson, f. 1862, d. 12. maí 1895.
Barn þeirra var
1. Árni Guðlaugur Sigurgíslason sjómaður, f. 14. október 1892, drukknaði 6. júní 1910.

II. Maður Sigríðar, (15. ágúst 1897), var Jón Árnason húsmaður, vinnumaður, f. 8. mars 1868, d. 31. desember 1902. Börn þeirra:
2. Sigurgísla Sumarrós Jónsdóttir, f. 23. apríl 1896, d. 13. október 1896.
3. Ólafur Vilberg Jónsson, f. 4. febrúar 1898, fórst í eldsvoða 1. maí 1920.
4. Nikólína Jónsdóttir húsfreyja á Ásbrún, Hásteinsvegi 4, f. 15. júlí 1900, d. 4. ágúst 1958.
5. Jóna Sigurborg Jónsdóttir húsfreyja, f. 5. janúar 1903, d. 2. maí 1996.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Mjófirðingasögur. Vilhjálmur Hjálmarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1987-1990.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.