Sigurður Magnússon (Staðarhól)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sigurður Magnússon.

Sigurður Magnússon á Staðarhóli, verkamaður, verkstjóri, kennari fæddist 13. apríl 1909 í Svartahúsi á Þórarinsstaðaeyrum við Seyðisfjörð og lést 24. nóvember 2004.
Foreldrar hans voru Magnús Jónsson skipstjóri, ritstjóri, skáld, kennari, organisti á Sólvangi, f. 1. september 1875 á Geldingaá í Melasveit í Borgarfirði, d. 6. febrúar 1946, og kona hans Hildur Ólafsdóttir frá Landamótum í Seyðisfirði, húsfreyja, f. 20. júlí 1882, d. 18. maí 1917.
Fósturforeldrar Sigurðar voru Sigurður Jónsson útvegsbóndi, hreppstjóri á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði, f. 27. september 1868, d. 30. október 1941, og kona hans Þórunn Petrína Sigurðardóttir húsfreyja, f. 8. desember 1859, d. 18. febrúar 1920.

Börn Hildar og Magnúsar:
1. Ólafur Magnússon ritstjóri, læknisfræðinemi, f. 3. maí 1903, d. 4. nóvember 1930. Kona hans var Ágústa Petersen.
2. Jón Magnússon skrifstofumaður, verkstjóri, f. 13. ágúst 1904, d. 17. apríl 1961. Kona hans Sigurlaug Sigurjónsdóttir.
3. Rebekka Magnúsdóttir hárgreiðslumeistari, f. 20. júlí 1905, d. 29. september 1980, óg.
4. Gísli Magnússon, f. 4. nóvember 1906, d. 8. mars 1908.
5. Kristinn Magnússon skipstjóri, f. 5. maí 1908, d. 5. október 1984. Kona hans Helga Jóhannesdóttir.
6. Sigurður Magnússon bæjarverkstjóri, f. 13. apríl 1909, d. 24. nóvember 2004. Kona hans Jóhanna Magnúsdóttir.
7. Ingólfur Magnússon, f. 31. mars 1910, d. 9. janúar 1911.
8. Unnur Magnúsdóttir húsfreyja, verslunar- og skrifstofumaður, f. 7. júní 1913, d. 19. september 2002. Maður hennar Hinrik G. Jónsson.
9. Guðbjörg Magnúsdóttir, f. 7. maí 1915, d. 13. nóvember 1915.
10. Sigurbjörg Magnúsdóttir húsfreyja, f. 19. september 1916, d. 1. júní 2000. Maður hennar Axel Halldórsson.

Sigurður var með foreldrum sínum fyrstu sex mánuði ævinnar, en þá var honum komið í fóstur hjá hjónunum á Þórarinsstöðum. Þar ólst Sigurður upp, en Þórunn fóstra hans lést, er hann var á ellefta árinu.
Sigurður stundaði nám við Alþýðuskólann á Eiðum 1928-30 og nam við Lýðháskólann í Askov í Danmörku 1930-31. Þá stundaði hann námskeið í útvarpsvirkjun 1934 og öðlaðist réttindi til útvarpsviðgerða.
Hann stundaði sjómennsku, m.a. frá Höfn í Hornafirði, hélt unglingaskóla í skólahúsi Seyðisfjarðarhrepps 1932 og á Þórarinsstöðum 1933-34, var skólastjóri Barnaskóla Seyðisfjarðarhrepps 1938-39 og hafði unglinga í tímakennslu í Garði á Reykjanesi 1943 og í Eyjum 1950. Þá var Sigurður ráðsmaður á Þórarinsstöðum 1924-1942.
Þau Jóhanna fluttu í Garð 1943, þar sem Sigurður starfaði hjá hernum og víðar við smíðar og múrverk.
Þau fluttu til Eyja 1944. Þar vann hann við vélgæslu, smíðar, og verkstjórn hjá Bænum til Goss 1973, en vann hjá Viðlagasjóði í Reykjavík 1973-1974.
Þau Jóhanna fluttu aftur til Seyðisfjarðar árið 1974 þar sem þau bjuggu í Dröfn á Austurvegi 34 til áramóta 2001/2002.
Sigurður safnaði miklu af þjóðlegum fróðleik, einkum síðari ár sín. Hann samdi fjölda ritgerða um söguleg efni, sem einkum var birt í Múlaþingi, riti Sögufélags Austurlands, m.a. er þar að finna ítarlega grein eftir hann um Inga T. Lárusson tónskáld.
Þá reit hann í Dulrænar sagnir Elínborgar Lárusdóttur: Frásögn af dulrænum fyrirbrigðum.
Það var einkum fyrir ábendingar og athugasemdir Sigurðar að hin forna stafkirkja á Þórarinsstöðum fannst, en þar voru unnar umfangsmiklar fornleifarannsóknir.
Sigurður var varabæjarfulltrúi í Eyjum nokkur kjörtímabil.
Hann söng með Karlakór Vestmannaeyja í 15 ár, var ritari Verkstjórafélags Vestmannaeyja um árabil, varaformaður Sálarrannsóknafélags Vestmannaeyja frá stofnun til 1973, formaður sögunefndar Seyðisfjarðar frá 1978 og náttúruverndarnefndar Seyðisfjarðar frá 1978.
Þau Jóhanna giftu sig 1937, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu á Kirkjuvegi 67, Lambhaga við Vesturveg 19, en lengst á Staðarhóli við Kirkjuveg 57. Guðrún Jóhanna lést 2002 og Sigurður 2004.

I. Kona Sigurðar, (27. nóvember 1937), var Guðrún Jóhanna Magnúsdóttir frá Másseli í Jökulsárhlíð í N-Múl., húsfreyja, f. 1. mars 1917, d. 16. október 2002.
Börn þeirra:
1. Þórunn Sigurðardóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur í Garðabæ, f. 22. janúar 1938. Maður hennar Finnur Jónsson.
2. Magnús Helgi Sigurðsson bifvélavirki, vélsmíðameistari á Seyðisfirði, f. 29. júní 1947. Fyrrum kona hans Sigríður Stefánsdóttir. Sambúðarkona Inger Helgadóttir.
3. Ásdís Sigurðardóttir húsfreyja, skrifstofumaður í Reykjavík, f. 27. janúar 1950. Fyrrum maður hennar Sveinn Valgeirsson. Maður hennar Guðjón Einar Guðvarðarson, látinn.
4. Ólafur Már Sigurðsson deildarstjóri á Seltjarnarnesi, f. 29. nóvember 1953. Fyrrum kona hans María Ólafsdóttir. Kona hans Sigrún Kristín Ægisdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 4. desember 2004. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.