Þórður Diðriksson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Þórður Diðriksson.

Þórður Diðriksson mormóni, trúarleiðtogi, múrsteinshleðslumaður frá Hólmi í A-Landeyjum fæddist 25. mars 1828 á Hólmi og lést 9. september 1894 í Utah.
Faðir hans var Diðrik bóndi í Hólmi í A-Landeyjum, f. 16. september 1794 á Önundarstöðum þar, d. 11. júlí 1841 í Hólmi, Jónsson bónda í Gularáshjáleigu þar, f. 1765 á Önundarstöðum, d. 21. október 1827, Diðrikssonar bónda á Önundarstöðum, f. 1729, d. 7. nóvember 1802 á Önundarstöðum, Bjarnasonar, og konu Diðriks, Margrétar húsfreyju, f. 1731 í Kúfhóli þar, d. 2. nóvember 1820 í Fagurhóli þar, Einarsdóttur.
Móðir Diðriks og kona Jóns Diðrikssonar var Ingibjörg húsfreyja, f. 1767, d. 31. júlí 1816 í Gularáshjáleigu, Magnúsdóttir bónda í Haukadal á Rangárvöllum, f. 1725, d. 12. maí 1804, Jónssonar, og konu Magnúsar, Helgu húsfreyju, f. 1725, d. 22. ágúst 1785, Erlendsdóttur.

Móðir Þórðar Diðrikssonar og kona Diðriks var Sigríður Árnadóttir húsfreyja, síðast í Stakkagerði, f. 25. ágúst 1798 í Syðri-Hól u. Eyjafjöllum, d. 17. desember 1892.

Fósturforeldrar Þórðar voru Ólafur Jónsson og Guðlaug Einarsdóttir bændur í Fagurhól í A-Landeyjum, en Ólafur var bróðir Einars síðari manns Sigríðar móður Þórðar.

Systkini Þórðar Diðrikssonar í Eyjum voru:
1. Sigurður Diðriksson vinnumaður á Kirkjubæ 1843, f. 10. apríl 1826.
2. Árni Diðriksson bóndi, hreppstjóri og formaður í Stakkagerði f. 18. júlí 1830, d. 28. júní 1903.
3. Guðmundur fósturbarn á Vesturhúsum, f. 23. febrúar 1834, d. 25. maí 1848.
4. Magnús vinnumaður í Stakkagerði og í Görðum, f. 1. apríl 1837, d. í mars 1863.
5. Guðlaugur vinnumaður á Miðhúsum, f. 25. júní 1838, d. 14. febrúar 1860.
6. Hálfbróðir Þórðar Diðrikssonar, sonur Sigríðar með síðari manni sínum, var Guðmundur Einarsson tómthúsmaður í Sjólyst, f. 31. október 1848, d. 23. ágúst 1882, kvæntur Auðbjörgu Bjarnadóttur.
Þau fóru áleiðis til Utah 1882 frá Sjólyst, ásamt fimm börnum sínum.

Þórður var tökubarn á Hólmi 1835, á Búðarhóli 1840, vinnudrengur þar 1845, vinnuhjú þar 1850.
Hann virðist hafa haft stuttan stans í Eyjum. Koma hans þangað og flutningur þaðan finnast ekki skráð, en við húsvitjun í lok árs 1854 er hann skráður „viðlegumaður“ í Nýja- Kastala hjá Margréti Jónsdóttur ekkju og húsfreyju. Þar var Hannes sonur hennar tveggja ára.
Þórður skírðist til mormónatrúar 17. febrúar 1855 og hélt áleiðis til Utah frá Eystri-Hólmum í Landeyjum í júlí 1855.
Leið hans til Utah lá um Kaupmannahöfn og Liverpool, síðan með skipi til New York. Ferðin til New York varaði 10 vikur. Yfir þver Bandaríkin tók ferðin um 3 mánuði, með járnbraut, fljótaskipum á Missisippi og gangandi yfir óbyggðir og eyðimerkur. Hann komst til Utah 1856.
Þórður var múrsteinshleðslumaður og leiðtogi meðal mormóna í Spanish Fork.
Þeir Samúel Bjarnason voru sendir í trúboð til Íslands 1875-1877.
Þórður var dæmdur í fangelsi vegna fjölkvænis 1889 eftir að lög bönnuðu slíkt.
Talið er, að hann sé fyrirmynd Laxness að Þjóðreki biskupi í Paradísarheimt.
Hann skrifaði ferðasögu sína og samdi trúboðsritið „Athvörunar og sannleiksraust um höfuthatrithi trúar „Jesú Kristi kirkju af sithustu daga heilögum““.
Hann lést 1894 úr sykursýki.

Þórður átti 3 konur:
I. Kona hans, (2. janúar 1858), var Helga Jónsdóttir húsfreyja í Spanish Fork í Utah, f. 1813. Hún hafði farið vestur með Samúel Bjarnasyni og Margréti Gísladóttur 1854. Þau Þórður og Helga voru barnlaus.

II. Kona Þórðar, (17. júlí 1866), var Mary Jakobsen, dönsk að ætt.
Börn þeirra voru:
1. Mary Harriet Dedrickson.
2. Sarah Dedrickson.
3. Theodore Dedrickson.
4. Albert Dedrickson.
5. John O. Dedrickson.
6. Inger Grace Dedrickson.

III. Kona hans, (1880), var Rannveig Jónsdóttir, f. 1853 í Álftveri.
Börn þeirra:
7. T.O. Dedrickson í Bakersfield í Kaliforníu.
8. John Dedrickson í Salt Lake City í Utah.
9. Helga Dedrickson Grant.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • halfdan.is. The search of Zion. The Emigration from Iceland to N-America-Pioneer of Utah Þórður Diðriksson.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.
  • The Icelanders in Utah. La Nora Allsted.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.