Blik 1961/Fyrstu mormónarnir, sem skírðir voru á Íslandi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



SIGFÚS M. JOHNSEN:


ctr
(2. grein)



Fyrstu mormónarnir,
sem skírðir voru á Íslandi


Það voru hjónin Benedikt Hannesson og Ragnhildur Stefánsdóttir, búandi í tómthúsinu Kastala í Vestmannaeyjum. Þau voru nálega jafnaldra, komin bæði yfir þrítugt, er þau hlutu skírnina til mormónatrúar. Hana framkvæmdi Þórarinn Hafliðason, fyrsti mormóni í Eyjum, sem fluttist ungur þangað úr Rangárvallasýslu, þaðan, sem hann var upprunninn. Þórarinn fór frá Eyjum til Kaupmannahafnar fulltíða og kom þaðan aftur útlærður, sigldur snikkari. Það var 1849.
Þórarinn brá sér utan aftur eftir stuttan tíma. Kom út aftur 1851 og var þá vígður mormónaprestur og hafði köllunarbréf sitt meðferðis. — Skömmu síðar kom annar Mormóni til Eyja frá Kaupmannahöfn. Það var Guðmundur Guðmundsson frá Ártúnum í Oddasókn á Rangárvöllum. Hann hafði dvalizt lengi erlendis og tekið sveinspróf í gullsmíði. Þeir félagar höfðu báðir hlotið mormónaskírn í Danmörku, og tóku að boða trúna í Vestmannaeyjum. Síðar boðaði Guðmundur trúna uppi á landi, eins og nánar er greint í þætti þeirra Þórarins og Guðmundar.
Kastali, þar sem þau Benedikt og Ragnhildur áttu heima, þó aðeins um stuttan tíma, var eitt af hinum svokölluðu konunglegu tómthúsum í Vestmannaeyjum. Hann stóð í Kastalahverfinu, en þar höfðu enskir kaupmenn og útgerðarmenn búið vel um sig fyrr á tímum og reist þar hús og varnarvirki í Kastala (Castel) svokölluðum. Mannvirki og byggingar frá þessum tíma voru fyrir löngu jafnað við jörðu. En á þessu svæði var vestasta tómthúsa- eða þurrabúðahverfið af fjórum, er venjulegast voru talin í Eyjum, áður en meiri bæjarbragur komst á.
Gata var stundum talin austasta húsaþorpið í Kastala. Húsnafnið Nýi-Kastali hafði verið tekið upp um þessar mundir eða 1852. Seinna var það hús nefnt Vegamót og hefur heitið því nafni til skamms tíma. Það stendur miklu austar en Gamli-Kastali stóð, þar sem áður stóð húsið Ensomhed, er Haaland læknir bjó í.
Kastalahjónin voru einu manneskjurnar, sem endurskírnina hlutu hér, þar til hinn danski mormónaprestur Lorentzen kom hér til sögunnar 1853. Skírnin fór fram, svo sem vera bar, með vatns-ídýfingu og handayfirlagningu að næturþeli aðfaranótt hins 5. maí á því herrans ári 1851 í svokölluðu Beinasundi. Það nafn þekkist nú ekki, en mun að líkindum hafa verið í Læknum eða sjávarlónum norðan Strandvegarins hjá Nýjabæjarlóni eða Stokkalóni. Nafnið Mormónapollur kom upp síðar. Þeir voru tveir, báðir fjarri byggðinni. Annar lengst suður á Heimaey, við Brimurð. En hinn var á milli urðarklettanna, vestur af Torfmýrinni, og var hann mest notaður. Hann var djúpur og stór og oft notaður við sundkennslu, eftir að farið var að kenna hér sund.
Eins og geta má nærri, varð styrr mikill, þegar það vitnaðist, þó að leynt ætti víst að fara, að Þórarinn Hafliðason mormónatrúboði, hefði vogað sér að framkvæma embættisverk. Biskup hafði lagt svo fyrir í bréfi til sóknarprests, að hann tilkynnti þegar í stað verzlegu yfirvaldi á staðnum, ef mormónarnir seildust inn á verksvið sóknarprestsins og framkvæmdu prestsleg embættisverk.
Nafnið Mormóni er dregið af mormón bók, sem þeir játa guðlega opinberun og sögð er hafa verið birt Josef Smith af engli. Sjálfir kalla þeir sig hinna síðustu daga heilögu. Mormónabókin segir, að mormónar styðji það, sem í Biblíunni stendur og gjöri hana fyllri, sérstaklega um hina guðlegu opinberun, og sízt sé trúin á Biblíuna minni hjá þeim en hjá hinum þjóðkirkjulegu kristnu.
Mormónatrúin átti upptök sín í Bandaríkjum Ameríku, og gjörðu mormónar út sendifarir til Evrópu til þess að boða trúna.
Mormónarnir námu land í fylkinu Utha 1847. Þar höfðust Indíánar við. Til Utha fluttust þeir, sem játuðust undir trúna. Þar var komið saman fólk frá ýmsum Evrópulöndum.
Mormónar voru skírðir hinni meiri og seinni skírn og ummynduðust til lífs og sálar. Þeir líktust hinum frumkristnu að því leyti, að þeir voru félagslyndari, nærgætnari og hjálpsamari hver við annan en margir lúthersku kristnu. Samt höfðu strangir lútherstrúarmenn margt fram að færa gegn boðskap mormóna og kom þar fjölkvænið auðvitað mest til greina. En eftir áreiðanlegum heimildum er talið, að missagnir hafi átt sér stað varðandi útbreiðslu þess, og um það hafi verið mjög lítið. Seinna var það bannað með öllu.
Lokkandi voru loforðin um gjafajarðirnar í sólskinslandinu Utha, sem vel voru haldin, meðan nóg lönd voru þar til, og svo fyrirheitin um að öðlast nýjan þrótt og hamingjusamt líf í mormónanýlendunni, þar sem verða átti ein hjörð og einn hirðir.


Víkur nú aftur sögunni til hjónanna í Kastala, sem fyrst allra hérlendis höfðu hlotið hina meiri og seinni skírn.
Sóknarprestur þeirra, séra Jón Austmann á Ofanleiti, lét kalla hjónin fyrir sig rúmum mánuði síðar að vottum viðstöddum til þess að reyna að tala um fyrir þeim. Það áleit hann skyldu sína og fá þau til að hverfa aftur frá mormónatrúnni og villu síns vegar. En þau sátu fast við sinn keip, svo að allar tilraunir hins strangtrúaða lútherska sóknarprests þeirra urðu árangurslausar.
Mál þeirra hlaut nú að koma fyrir verzleg yfirvöld samkvæmt fyrirlagi biskups, Helga Thordersen*.
Um þessar mundir var settur sýslumaður í Vestmannaeyjum Adolph Christian Baumann í stað kammerráðs J.N. Abel, sýslumanns, sem þá var nýlega farinn úr Eyjum til Danmerkur. Baumann var síðar sýslumaður í Gullbringu og Kjósarsýslu um nokkurra ára skeið.
Nú hörmuðu þeir, er mest voru andstæðir mormónahreyfingunni, að kammerráðsins naut nú ekki lengur við, því að hann hafði sýnt af sér ærna röggsemi og skörungsskap í þessum málum og stutt sóknarprestinn t.d. við hina almennu undirskriftarsöfnun á mótmælaskjal gegn þessum nýju trúarbrögðum. Samt fór það svo, að Þórarinn Hafliðason var kvaddur heim úr útey, þar sem hann var við lundaveiðar, til þess að mæta við réttarrannsókn hjá Baumann vegna þeirra yfirtroðslna sinna að hafa ,,blandað sér í embættisverk prestanna“. Hann játaði brot sitt og hét að hætta öllum tilraunum til útbreiðslu mormónatrúarinnar. En hér mundi sennilega fortölur sýslumanns og embættisvald hafa orðið að lúta í lægra haldi gagnvart Þórarni, hefði eigi annað komið til greina, sem réði úrslitum, svo sem greint er frá í þættinum af Þórarni Hafliðasyni í Bliki 1960.
Hér átti auðvitað að gilda fullkomið trúarbragðafrelsi sem annars staðar í ríki Danakonungs. Þess vegna gengu hinir afturhaldssömu of langt, er þeir héldu því fram, að það varðaði við lög, ef prestar eða trúboðar mormóna inntu embættisverk af hendi. Þessi skoðun var ríkjandi hér í fyrstu, er sértrúarboðskapur barst hingað, en ekki haldið fram að neinu marki, þegar fram líður. Og frá árinu 1853 taka mormónatrúboðarnir til að skíra opinberlega þá, er játast undir trúna. Framkomin mótmæli gjöra að vísu nokkurt hlé hér á en þeim var ekki framfylgt, og að lokum fór starfsemi trúboðanna fram sem í öðrum trúfrjálsum löndum.
Meðan mestur var hitinn í mönnum hér út af þessum málum, létu forvígismennirnir heldur undan síga til þess að kaupa sér stundarfrið. Meðal þeirra var Samúel Bjarnason, enda, blés hart á móti í þeirri orrahríð, sem að þeim var gjörð. Var hann þó, eins og síðar kom á daginn, ótrauðastur allra. Hann stóð fyrir fyrstu hópferðinni héðan til Utha, 1854. Fyrir hinu nýja trúboði horfði fljótt vænlegar, er viðurkenning fékkst á því, að hér gilti trúarbragðafrelsi, þeir þurftu því ekkert að óttast um tímanlegan hag sinn, trúboðarnir.
* Hann var faðir Stefáns Thordersen, prests að Ofanleiti 1885—1889. Meðan hann var þar prestur, var allmikið um mormóna í Vestmannaeyjum og utanfarir öll árin þaðan til Utha.


Hvernig voru þau svo þessi fyrstu mormónahjón, er heima áttu í Kastala, hvaðan komin og hverrar ættar? Því verður svarað hér í stuttu máli, en ekkert hefur áður verið rakið um ættir þeirra, og meira að segja töluverður ruglingur á nöfnunum.
Eftir mikla og erilsama leit og kirkjubókarrýningu hefur mér tekizt að komast að því rétta um ætt þeirra og uppruna, eins og síðar greinir.
Á öndverðri öldinni, sem leið, voru miklar hræringar og mikið rót meðal fólks hér á landi, sem farið var að fjölga aftur eftir Skaftáreldana. Margt af yngra fólki, sem ekki átti neinar staðfestur og sá engin tök á að reisa bú í þröngbýlinu heima fyrir, leitar burt úr heimasveitunum og fer jafnvel hrepp úr hreppi til þess að leita sér bólfestu, sem helzt var hvergi að fá nema að reisa sér nýbýli uppi á reginheiðum eða inni í afdölum og freista þannig og þar að draga fram lífið. Kauptún voru fá orðin, sem hægt var að sækja til og Ameríkuferðir eigi hafnar. Jarðir lágu ekki á lausu. Var því helzta fangaráð margra að reyna að komast að sjónum. Út í Vestmannaeyjar lá ætíð töluverður straumur fólks úr nærsveitunum á landi, einkum úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, og menn lögðu það á sig að greiða há festargjöld, jafnvel oft sinn síðasta eyri, til þess að komast að löggiltum þurrabúðum þar. Ekki var að tala um að komast að jörðum nema gegn geypiháu festargjaldi til landsdrottins.
Í Vestmannaeyjum var jafnan skortur á fólki til þess að manna út bátana og til að annast venjuleg störf í landi við framleiðsluna. Þegar vel lét í ári, þyrptist fólkið til Eyja ofan af landi. En þegar versnaði í ári, fiskileysisárin komu, stundum mörg hvert á eftir öðru, leitaði fólkið burtu og reyndi fyrir sér annars staðar, þar sem betur kynni að blása. Svona gekk það koll af kolli og svipað öld eftir öld.
Í Vestmannaeyjum var komið á syðstu nafir lands vors, svo að segja mátti að þeir, sem þangað höfðu borizt víðsvegar að, ættu aðeins eftir síðasta hlunndragið, áður en ýtt væri alveg frá landi. Táknrænt er það, að frá Eyjum hefjast fyrstu Ameríkuferðirnar. Tildrögin að þeim voru mormónatrúboðið.
Í Vestmannaeyjum voru góð fiskiár um þessar mundir, sem hér ræðir um. Á árunum 1850 —1859 voru aflabrögð góð að undanskildum árunum 1857 og 1858. Beinlínis verður því ekki talið, að slæmt árferði kæmi fyrstu Ameríkuferðunum af stað.
Hjónin í Gamla-Kastala, er svo nefndist, áttu sér svipaða sögu og flest það fólk, er komið var af landi til Eyja í atvinnuleit og hafði setzt þar að í von um betri afkomu og efnalegt sjálfstæði, svo að það gæti stofnað sér þar heimili, er frá leið.
Benedikt Hannesson var fæddur í Fljótshlíð og kemur fulltíða til Eyja. Þar kynntist hann konu sinni Ragnhildi Stefánsdóttur, er var fædd í Austur-Skaftafellssýslu en alin upp í Meðallandi. Leið þessarar ungu stúlku lá snemma til Vestmannaeyja. Þangað er hún komin rúmlega tvítug árið 1839, en staðnæmist þar skamma stund. Hún fer brátt úr Eyjum upp í Landeyjar. Þar er hún um kyrrt tvö næstu árin, fyrsta árið á Bakka í Austur-Landeyjum hjá foreldrum Lofts Jónssonar mormóna í Þórlaugargerði, en þau voru Jón Árnason bóndi, og Þorgerður Loftsdóttir kona hans. Árið 1840 er Ragnhildur í Norður-Búðarhólshjáleigu. Ári síðar er hún komin aftur út í Eyjar að Kirkjubæ til Eiríks bónda Hanssonar og konu hans Kristínar Jónsdóttur. Þau hjón bjuggu seinna á Gjábakka. Þau voru foreldrar Veigalínar, Málfríðar og Elísabetar Eiríksdætra. Tvær þær síðustu fóru til Utha löngu seinna.
Benedikt Hannesson og Ragnhildur Stefánsdóttir voru gefin saman í hjónaband í Landakirkju af sóknarprestinum séra Jóni Austmann að Ofanleiti 11. nóvember 1846. Þau bjuggu þá í Hólshúsi. Höfðu áður verið sjálfra sín í Garðinum.
Börn Benedikts og Ragnhildar voru þessi:
María Kristín, fædd 7. ágúst 1845 í Götu í Eyjum.
Benedikt, fæddur 2. ágúst 1847 í Hólshúsi í Eyjum.
Jóhanna, fædd 30. okt. 1849.
Andvana fætt sveinbarn 2. marz 1852 í Kastala.
Börnin voru öll dáin, áður en hjónin fluttu frá Vestmannaeyjum. Tvö þau elztu dóu úr barnaveiki með fárra daga millibili í júlí 1851 og lögð bæði í sömu gröf. Geta má nærri, að þeim hefur sviðið sárt barnamissirinn. Hann hefur með öðru ýtt undir þau að fara úr Eyjum. — Með því að taka mormónatrú fengu þau fyrirheitið um að komast til Utah og fá þar ókeypis góða bújörð, og geta hafið þar nýtt líf. Það er á orði haft um Ragnhildi sem víst hafði átt fremur hrakningasama ævi framan af, að hún hafi lifað sæl í voninni um að komast til Zionsborgar eins og Ísraelsmenn forðum, er þeir voru í útlegðinni.
Við síðustu húsvitjun hjá hjónunum í Kastala 1851 ritar sóknarpresturinn í kirkjubókina, að þau séu gengin í mormonska trú og búin að týna fræðunum. Þau fóru frá Vestmannaeyjum 1852 til Kaupmannahafnar, sennilega með kaupskipi um sumarið. Þar hafa þau átt vinum að mæta í mormónasöfnuðinum. Frá Kaupmannahöfn leggja þau síðan upp í ferðina miklu til Utah. Þessi hjón eru fyrstu Íslendingarnir, sem leggja upp í ferð til Utah. Þangað náðu þau að vísu ekki m.a. sökum hinnar löngu dvalar þeirra í Danmörku, sjálfsagt til þess að afla sér nægilegs fargjalds. Þegar þau loks nálguðust áfangastaðinn, höfðu þrjár Uthaferðir frá Vestmannaeyjum átt sér stað, meðan þau dvöldu með Dönum.
Með vissu er Ragnhildur komin til Utah árið 1859. En Benedikt lifði það ekki að komast til Utah. Hann lézt í fylkinu Nebraska. En með mikilli þrautseigju komst Ragnhildur alla leið og varð ein af íslenzku frumbyggjunum í Utah.
Eftir komuna til Ameríku eignuðust hjónin eina dóttur og bættist þeim þannig að nokkru barnamissirinn. Dóttirin ólst upp í Utah og varð langlíf þar í landi og merk kona. Hún fæddist þeim hjónum í Omahaborg í Nebraska og hlaut nafnið María, eftir Maríu litlu Kristínu, er þau misstu í Vestmannaeyjum. María þessi, sem var fædd 1. júlí 1859, var kölluð Ragnhildur, en amma hennar hét þessu skaftfellska nafni eins og móðir hennar. María Benediktsdóttir Hannessonar er nú mrs. Mary Hanson Sherwood, er heima átti í borginni Lewan í Utah og kom fram, er minnisvarði íslenzku landnemanna í Utah var afhjúpaður í Spanish Fork 1. ágúst 1938, og var þá einasti lifandi Íslendingurinn af þeim 16 frumbyggjum, sem eiga nöfn sín letruð á minnisvarðann.
Benedikt, sem ýmist er kallaður Hanson eða Hansen, hefur sennilega tekið það nafn upp í Danmörku. Hann dó, eins og áður segir, á leiðinni til Utah, skömmu eftir fæðingu eina barnsins þeirra, sem lifði. Mun Benedikt hafa verið búinn að þola margt á þeirri erfiðu ferð. Hann mun hafa slegizt í ferð með dönskum landnemum, sem ætluðu til Utah, en ferðalög yfir þvera Ameríku voru þá býsna erfið. Fólkið ferðaðist mest fótgangandi, og svo í vögnum, er bezt lét. Sagt er, að þær mæðgur, Ragnhildur og María, hafi komið til Utah á vagni, sem kýr og uxi drógu. En á þeim árum urðu þó flestir að fara gangandi yfir eyðimörkina.
Eftir mikla erfiðleika komst Ragnhildur með barnið til Salt Lake City.
Ein af konum Brigham Young forseta mormóna á að hafa fundið þær mæðgur úti á víðavangi og tekið þær að sér. Var Ragnhildur eftir það mörg ár í húsi forseta mormóna, Brigham Young, sem tók við, er Jósef Smith var myrtur, en hann var stofnandi mormónaflokksins.
Ragnhildur Stefánsdóttir Hanson var um fertugt, er maður hennar dó. Talið er, að hún hafi gifzt aftur og átt heima í Spanish Fork, en síðar í þorpi einu eða smábæ í Suður-Utah. María dóttir hennar og Benedikts, mrs. Sherwood, var sem áður segir ein lifandi af fyrstu 16 frumbyggjunum í Utah 1938, er minnisvarðinn var reistur til minningar um þá. Hún var þá um áttrætt. Hún hélt þá ræðu og lýsti erfiðleikum þeim, sem þær mæðgur hefðu átt við að stríða og þeim þjáningum, sem þær höfðu orðið að þola. Ragnhildur Stefánsdóttir dó í Utah rúmlega sjötug.
Þessi hjón, Benedikt og Ragnhildur, voru komin af greindu og dugandi fólki og voru sjálf vel gefin. Þau hafa eflaust þráð að víkka sjóndeildarhring sinn og öðlazt nýja ummyndun til lífs og sálar í nýrri veröld. Ættir þeirra er hægt að rekja töluvert, en verður hér ekki gert nema lítils háttar.
Föðurafi Benedikts var úr Skaftafellssýslu, og þaðan var Ragnhildur einnig upprunnin. Benedikt Hannesson var fæddur í Hellishólum í Fljótshlíð 13. júlí 1818. Voru foreldrar hans búandi hjón þar, Hannes Pálsson og Björg Andrésdóttir frá Króki í Garði suður. Hannes og Björg höfðu flutt frá Auraseli í Breiðabólsstaðarsókn í Fljótshlíð að Hellishólum í Teigssókn í Fljótshlíðarþingum. Páll faðir Hannesar var Nikulásson frá Núpi í Fljótshverfi, fæddur 1758. Hann var ættaður frá Hlíð undir Eyjafjöllum. Kona Páls og móðir Hannesar var ekkja eftir Ögmund bónda á Núpi Ólafsson, er Páll giftist henni. Synir Guðrúnar af fyrra hjónabandi voru Daníel, er ólst upp hjá móðurbróður sínum og dó árið 1800, og Guðni bóndi á Arnarhóli í Landeyjum.
Páll Nikulásson og Guðrún Þorsteinsdóttir eignuðust 3 syni, og var þeirra elztur Ögmundur Pálsson, sem var á 2. ári, er foreldrar hans flúðu undan Skaftáreldi úr Fljótshverfinu.
Ögmundur eignaðist son, áður en hann giftist, með Arndísi Jónsdóttur. Það var Ögmundur Ögmundsson í Auraseli, nafnfrægur maður á sinni tíð, faðir Guðmundar í Borg¹) í Vestmannaeyjum, föður Ástgeirs skipasmiðs í Litlabæ í Eyjum.
Hinir synir Páls Nikulássonar voru Benedikt og Hannes, er hér um ræðir. Þeir voru báðir hjá foreldrum sínum í Auraseli árið 1801. Hannes þá 12 ára og Benedikt 10 ára. Hannes mun hafa verið mest viðloðandi í Auraseli hjá fólki sínu, nema þann stutta tíma, sem hann bjó í Hellishólum. Eftir lát Hannesar Pálssonar er Benedikt sonur hans tekinn til fósturs af föðurfólki sínu í Auraseli og elst þar upp. Þaðan var hann fermdur. Prestur hans gefur honum þann vitnisburð við fermingu, að hann sé allvel skýr. Leið hans lá síðan til Vestmannaeyja, eins og svo margra ungra manna úr nærsveitunum á þeim tímum. Fyrst fer hann í vinnumennsku og síðan að eiga með sig sjálfur. Í Eyjum lágu saman leiðir þessara ungu persóna. Þar hófst kynning þeirra, sem leiddi til hjúskapar. Þau voru gefin saman í Landakirkju 1846. Lítil munu efnin hafa verið til að reisa bú, og sjálfsagt hafa þau orðið að greiða festugjald til þess að fá að komast að þurrabúð. En með vonargleði hins unga fólks hafa þau litið björtum augum til framtíðarinnar. Þeim mættu svo miklar raunir í barnadauðanum. Að líkindum hefur fleira verið þeim mótdrægt, svo sem fátæktin og umkomuleysið. Benda hin tíðu bústaðaskipti þeirra til þess.
Benedikt mun hafa stundað sjóinn á vertíð, verið háseti hjá öðrum, en stundað þess utan alla algenga vinnu og líklega farið á sumrum í kaupavinnu á landi. Kjör alls þorra tómthúsmannanna voru kröpp, jafnvel þótt þeir legðu sig alla fram um að fá vinnu, sem var einkum hjá verzlununum við uppskipun og útskipun.
Útgerð Eyjamanna hafði vaxið, er leið á fyrri helming 19. aldarinnar og var orðin allmikil um miðbik hennar.
Að Ragnhildi Stefánsdóttur stóðu góðar skaftfellskar bændaættir, og er í þeim ættum skáld og listrænt fólk. Móðurættina má rekja norður í land og fram til fornmanna. Ragnhildur var borin í þennan heim 24. okt. 1817 að Hofi í Öræfum og var skírð Ragnhildur Ragnhildardóttir og þannig kennd við móður sína fyrst í stað. Hún mun víst ekki hafa verið velkomin í þennan heim. Brátt var þó föðurnafnið tekið upp. Móðir hennar var Ragnhildur Þorsteinsdóttir Gissurarsonar á Hofi Hallssonar, hins nafnkunna málmsmiðs, er kallaður var Þorsteinn tól. Þótti hann að mörgu alleinkennilegur maður og forn í skapi, þjóðhagasmiður, einkum á járn og kopar, bókamaður og skáld gott, enda af skáldum kominn. Kona hans og móðir Ragnhildar eldri var Sigríður Snjólfsdóttir frá Breiðabólsstað á Síðu. Hún mun hafa verið komin af Snjólfi sterka, er var hið mesta afreksmenni og sagt er, að hafi borið hest sinn langa leið, þegar hann hafði gefizt upp í vatnavolki á Söndum þar austur.
Þorsteinn tól var fæddur 24. marz 1768, að öllum líkindum að Hvoli í Fljótshverfi. Þar bjó Gissur faðir hans. Sjálfur bjó Þorsteinn í Kálfafellskoti í Fljótshverfi um tíma og síðar að Söndum í Meðallandi. Um Þorstein tól og skáldskap hans mætti rita langt mál. En hér verður til gamans birt ein kímnivísa eftir hann, ort 1827 í orðastað séra Sveins Benediktssonar á Sandfelli, föður Benedikts Sveinssonar, alþingismanns og sýslumanns, sem hafði sótt um að verða prestur Álftveringa og þess vegna prédikað í Álftaveri.
Vísan er svona:

Óumventa Öræfinga
eitthvað bið ég mætti þvinga
af himni, jörð og heljarkrá,
svo þeir iðran sanna geri,
svo sem þeir í Álftaveri
í vetur, þegar ég var þeim hjá.

Þorsteinn gat verið bæði hæðinn og níðskældinn.
Stefán Ólafsson, faðir Ragnhildar var fæddur á Undirhrauni í Meðallandi um 1791. Kvæntist um tvítugt Helgu Gísladóttur, fæddri 1776 í Mýrdal.
Foreldrar Stefáns voru Ólafur bóndi á Undirhrauni, og kona hans Kristín Jónsdóttir.
Stefán Ólafsson kvæntist ekki Ragnhildi barsmóður sinni, og skildu leiðir þeirra brátt. Dóttirin var með móður sinni, og voru þær mæðgur lengi í Meðallandi. Þar gerðist Ragnhildur eldri bústýra hjá Þorvarði Halldórssyni, er var í húsmennsku í Skurðbæ.
Ragnhildur yngri átti heima á Grímsstöðum í Meðallandi, er hún var fermd, og fær góðan vitnisburð hjá sóknarpresti sínum, sem seinna segir um hana við húsvitjun, að hún sé brellin.
Ragnhildur fór frá Steinsmýri til Vestmannaeyja 22 ára gömul. Þar átti faðir hennar þá heima. Stefán Ólafsson, faðir hennar, mun hafa flutzt til Eyja um 1820. Hann var seinna um tíma fyrirvinna Jóhönnu Jónsdóttur á Vilborgarstöðum, er skilið hafði við mann sinn, Jón Pálsson bónda þar. Bjuggu þau síðan á sinni hálflendunni hvort. Stefán eignaðist dóttur með Jóhönnu, f. 1825, er skírð var Sigríður. Hún ólst upp hjá móður sinni.
Stefán Ólafsson var síðast í Gvendarhúsi í húsmennsku hjá þeim hjónum Jóni Símonarsyni og Þuríði Erasmusdóttur, systur Guðnýjar Erasmusdóttur í Ömpuhjalli, er til Utah fór með Lofti Jónssyni¹). Jón var seinni maður Þuríðar, og áttu þau ekki börn saman, en sonur Jóns Símonarsonar og stjúpsonur Þuríðar var Jón gamli Jónsson í Gvendarhúsi.
Stefán dó í Gvendarhúsi 1847 57 ára að aldri. Voru þau Ragnhildur dóttir hans og Benedikt nýlega gift og bjuggu í Hólshúsi.
Í Vestmannaeyjum höfðu þessi fyrstu mormónahjón þar ekki við margt að skiljast. Börn sín höfðu þau misst, eins og áður getur, og faðir Ragnhildar dáinn. Að vísu mun hún ekki hafa haft mikið af honum að segja, en verið lengstum með móður sinni. Eignir áttu þau hjón litlar eða sem engar. Alleinmana hafa þau verið og yfirgefin, þar sem þau töldust ekki lengur til hins þjóðkirkjulega safnaðar þar. Heimilisfólk hjá þeim í Kastala var ein vinnukona og öldruð kona, sem var niðursetningur. Heimilið leystist upp, þegar hjón þessi lögðu ein síns liðs upp í langferðina miklu, fyrstu Uthaförina. Að vísu komu aðrir nokkrum árum á undan þeim vestur, eins og áður er drepið á.
Fyrsta uppboðið vegna væntanlegrar Ameríkuferðar var haldið í Vestmannaeyjum, þegar Benedikt og Ragnhildur undirbjuggu ferð sína. Andvirði hinna fátæklegu og hversdagslegu muna fátæka þurrabúðarmannsins var varið til greiðslu á skuldum. Afgangurinn gekk upp í fargjaldið eða hluta þess. Líklegt er, að Benedikt hafi unnið sér fyrir fargjaldinu með því að ráða sig háseta á skipið, sem hann fór með til Kaupmannahafnar og notið þar að verzlunarstjórans í Danska garði í Eyjum. Efalaust hefur Benedikt róið á vegum kaupmannsins, þegar hann og Ragnhildur voru í húsmennsku í Garðinum. Sjálfsagt hefur Benedikt verið duglegur sjómaður, því að oftast gat kaupmaður valið úr mönnum, sem voru á lausum kili, á sinn útveg.
Á Norðurlöndum og einkum í Danmörku hafði mormónahreyfingunni orðið nokkuð ágengt. Henni var tekið sem fagnaðarboðskap af þeim, sem aðhylltust trúna. Mormónar þóttu fylgja sinni trú með meiri einlægni í kristilegum anda heldur en þeir, sem aldir vorri upp við trúarbrögð kristinna manna, sem kennd eru við Lúther.
Í Danmörku höfðu myndazt mormónasöfnuðir fljótt eftir komu E. Snow, er hóf þar trúboðið 1850. Og mikill var áhuginn hjá trúflokknum að komast sem fyrst til Utha. Erasmus Snow, postuli, sem var frá Bandaríkjunum, var einn úr hópi „stríðsmanna krossins“, er sendir voru frá Salt Lake City í Utha seint á árinu 1849 til Evrópu til þess að boða trúna.
Í Danmörku hlutu þeir Þórarinn Hafliðason og Guðmundum Guðmundsson skírn hjá fyrr nefndum Snow trúboða. Þeir héldu síðan til Íslands til að boða þar trúna. Þeir, sem trúna tóku, voru hvattir til að komast til Utha.
Það voru engir hversdagslegir viðburðir, að íslenzk hjón tækju sig upp og færu alfarin héðan af landi til útlanda, og það til annarrar heimsálfu, eins og þau gerðu, Benedikt og Ragnhildur.
Nokkru áður en Þórarin Hafliðason drukknaði, á vertíð 1852, mun hann hafa verið nýbúinn að skrifa trúboðunum í Kaupmannahöfn um það að taka á móti þeim og undirbúa komu þeirra til Íslands. Ef til vill hefur það fremur verið Guðmundur, sem gjörði það.
Árið 1852 fóru rúm 300 Norðurlandabúa frá Danmörku til Utha í tveim hópum. Segir frá því, að seinni og stærri hópurinn hafi verið kominn inn í Iowa-ríki og farið síðasta hluta leiðarinnar með vögnum, er uxar drógu, óralanga leið, unz komið var í Saltvatnsdalinn í Utha í september 1853. Samtals hafði öll ferðin tekið 9 mánuði. Þetta sama ár leggja mormónahjónin íslenzku upp í sína Uthaferð og eru þannig með hinum fyrstu frá Norðurlöndum, er leggja upp í slíkt ferðalag að heiman úr Vestmannaeyjum. En þeim hefur dvalizt all lengi í Danmörku, sennilega í Kaupmannahöfn, og unnið þar ötullega, áður en þau höfðu unnið sér fyrir fargjaldi vestur, en það urðu útflytjendurnir sjálfir að greiða.
Þessi íslenzku hjón voru trú hugsjón sinni og lögðu mikið á sig til að ná þangað, sem hugurinn þráði, til trúbræðranna í Utha. Með því þolgæði og þeirri þrautseigju, sem mörgum Íslendingum og ekki sízt Skaftfellingum er í blóð runnið, tókst þeim að sigrast á erfiðleikunum, þó að Benedikt næði ekki alveg að komast inn í Mormónalandið, svo að nafn hans yrði 17. nafnið á minnisvarðanum í Spanish Fork um fyrstu íslenzku frumbyggjana. Frá Nebraska, þar sem hann lézt, en það er eitt af næstu nágrannafylkjunum við Utha, hefur hann a.m.k. með innri sjónum séð inn yfir landamærin.

S.M.J.

¹) Leiðr. af Heimaslóð.