Blik 1961/Gömul bréf eru góð heimildarrit

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



ÁRNI ÁRNASON:


Gömul bréf eru góð heimildarrit


Hjónin á Búastöðum, Lárus Jónsson, hreppstjóri, og Kristín Gísladóttir.

Mönnum hefur löngum þótt fróðlegt að skyggnast eitthvað inn í fortíðina, glugga í gömul heimildarrit, blöð og bækur, sem gefa einhverjar upplýsingar um löngu liðna atburði. Gömul sendibréf geyma oft ýmislegt, sem fortíðina varðar og geta stundum verið þær einustu heimildir, sem til eru um eitt og annað.
Á þeim árum, þegar enginn var síminn, fluttu bréfin vinakveðjur og fréttir og voru oft einasta sambandið vina í milli. Geta má nærri, að sendibréf milli ástvina, sem voru í Ameríku annars vegar og heima á Íslandi hins vegar, hafa verið aufúsugestir, er örlögin spunnust svo, að þeir urðu að skilja samvistir um ófyrirsjáanlegan tíma eða jafnvel að fullu og öllu.
Frá tímum mannflutninga úr Eyjum til Ameríku á árunum 1860—1900 eru hin síðari árin að koma fram í dagsljósið mjög skemmtileg sendibréf. Núlifandi fólk hefur skilið réttmæti þess og nauðsyn, að efni þeirra kæmi fyrir sjónir almennings. Sé réttilega á öllu haldið, geta þau engan skaðað en veitt mikla fræðslu.
Hér birtist eitt slíkt sendibréf. Það er frá foreldrum í Eyjum til dóttur þeirra í Ameríku. Það er skrifað aðeins fáum mánuðum áður en faðirinn drukknaði við landsteina Eyjanna, eða nánar til tekið hér á innsiglingunni í höfnina. Foreldrar þessir höfðu orðið að sjá á bak tveim dætrum sínum vestur til Ameríku. Þær fóru þangað einar síns liðs á eftir mönnum sínum með eitt og tvö kornbörn. Burtförin hefur eflaust orðið þeim þungbært hryggðarefni, ekki sízt þar sem allt benti til þess, að foreldrarnir og dætur myndu aldrei sjást framar. Þó fór svo, að önnur dóttirin kom aftur heim til Eyja af sérstökum ástæðum, en sem sagt þá var faðirinn drukknaður. Hin dóttir hans kom hins vegar aldrei aftur til Íslands, svo að viðskilnaður hennar við fólkið í Eyjum varð algjör. Hún lézt vestra ásamt manni sínum. Einmitt þannig hefur þetta verið í fjölda mörgum tilvikum. Einasta samband ástvinanna voru sendibréfin.
Eftirfarandi bréf er skrifað af Lárusi Jónssyni hreppstjóra á Búastöðum og Kristínu konu hans til dóttur þeirra Jóhönnu, síðar búandi á Grund hér í bæ, konu Árna Árnasonar frá Vilborgarstöðum. Árni Árnason fór vestur til Utah árið 1891, en Jóhanna árið eftir ásamt nokkurra mánaða gamalli dóttur þeirra, Ástrósu. Eru til mörg bréf um ferðir þeirra og afkomu vestra, sem munu verða birt í riti þessu, er aðstæður leyfa.
Ástæðurnar fyrir afturkomu þeirra hjóna, Árna og Jóhönnu, hingað til Eyja var sú, að systir hans, bróðir og móðir tóku öll mormónatrú. Systurnar hétu Jóhanna, Ingveldur og Hildur. Bróðirinn Eyvindur. Móðirin Vigdís Jónsdóttir. Seinni maður hennar var Jón Eyvindsson mormónatrúboði. Þau hvöttu öll mjög hjónin Árna og Jóhönnu til að taka mormónatrú, en það vildu þau ekki. Leiddi þetta til þess, að þeim fannst óbærilegt að vera lengur vestra. Þau hurfu þess vegna heim til Eyja alfarin árið 1898, síðari hluta sumars.
Hin dóttir Lárusar og Kristínar á Búastöðum hét Steinvör. Hún giftist Einari Bjarnasyni frá Dölum hér í Eyjum. Einar var móðurbróðir Tómasar M. Guðjónssonar í Höfn, bróður Guðjóns í Sjólyst. Einar fór einnig á undan konu sinni til Ameríku, en hún fór á eftir næsta ár ásamt tveim börnum þeirra. Einar Bjarnason og Steinvör Lárusdóttir létust bæði vestra án þess að sjá Ísland aftur.
Læt ég svo hér koma nokkrar skýringar við efni bréfsins.
Í bréfinu getur Ingimundar í Draumbæ. Hann var faðir Sæmundar, er síðar getur, föður Kristmundar, sem nú býr í Draumbæ. Þorsteinn í Móhúsum var holdsveikur maður, er bjó í Móhúsum lengi. Hún hét Evlalía Nikulásdóttir, sem um hann annaðist í veikindum hans og elli.
Þá getur Lárus Katrínar í Draumbæ. Hún var Þorleifsdóttir og var kona Ingimundar bónda.
Bryde, er um getur í bréfinu, er J.P.T. Bryde kaupmaður, og var Jes Thomsen verzlunarstjóri hans í Godthaab. Jes Thomsen var kvæntur Jóhönnu dóttur mad. Roed. Jóhann sá, er bréfið getur um, er sonur Jóhönnu frá fyrra hjónabandi hennar með Pétri Bjarnasen. Hin börnin þeirra Péturs voru Anton, Nikolaj, Friðrik, Karl og Jóhanna. Þau báru öll Bjarnasensnafnið.
Vilhelm Thomsen er sami maðurinn og Villi Thomsen, eins og hann venjulega var kallaður. Hann var um tíma verzlunarstjóri í Garðinum. Hann komst í fjárþröng (sjóðþurrð) þar og strauk ókvæntur til Bandarikjanna. Við hann var kennd Villastofa í Garðinum. Hún var vestan megin mót norðri. Austan megin var Bryde stofan. Þar hélt herra Bryde sig, er hann var í bænum.
Villi Thomsen er sagður hafa verið mjög skemmtilegur maður, kátur og vinamargur. En hann drakk mikið, og allt lenti í mesta ólestri hjá honum.
Gísli, bróðir Jóhönnu, er Gísli Lárusson í Stakkagerði, gullsmiður, útgerðarmaður og bóndi m.m., kvæntur Jóhönnu Árnadóttur Diðrikss., hreppstjóra.
Sýslumaðurinn, sem um getur, er Jón Magnússon, síðar ráðherra. Hann var sýslumaður hér 1891—1896.
Litla Rós er Ástrós dóttir Árna og Jóhönnu. Hún var fædd í Eyjum en lézt í Spanish Fork 1894, rúmlega þriggja ára gömul. Telpurnar á Vesturhúsum eru þær Magnússína Eyjólfsdóttir Jónssonar og konu hans Valgerðar Eiríksdóttur, en Steina, er Steinunn Oddsdóttir Árnasonar. Systir Odds var Sigríður í Vertshúsinu (Frydendal), móðir þeirra Johnsensbræðra. Faðir Odds og Sigríðar var Árni bóndi Þórarinsson á Oddsstöðum. Hann var frá Hofi í Öræfum. Kona hans var Þuríður (leiðr. Steinunn Oddsdóttir).
Stína litla er Kristín dóttir Steinvarar Lárusdóttur og Einars Bjanasonar, frá Dölum, sem flutt voru vestur um þessar mundir.
Sigurður Árnason var Mýrdælingur, sem vestur fór um 1876. Hann var kvæntur Önnu Gísladóttur úr Landbroti. Þau áttu marga syni. Þau hjón, Sigurður og Anna voru mjög hjálpleg vesturförunum héðan og úr Mýrdalnum, þegar vestur kom. Lárus mun hafa þekkt Sigurð áður, því að hann var frá Giljum í Mýrdal, en þangað giftist systir Lárusar.
Hver þessi Þórarinn er, sem um getur í bréfinu, er mér ekki kunnugt. Sennilega hefur hann verið einhver trúboði.
Ólöf, sem bréfið getur um, er Ólöf Lárusdóttir húsfreyja á Kirkjubóli hér á eyju, dóttir Lárusar á Búastöðum. Hún var gift Guðjóni Björnssyni bónda á Kirkjubóli. Hinn nýfæddi sveinn mun hafa verið Bergur Guðjónsson, sonur þeirra hjóna á Kirkjubóli. Hann var fæddur 5. júlí 1894 (d. 5 maí 1944).
Gísli Lárusson, bróðir Jóhönnu, er um þetta leyti í Álsey til lundaveiða. Munu þeir Álseyingar hafa fyrsta skipti haft hjá sér í eynni bát þetta sumar, til milliferða og fiskveiða til matar. Þetta gafst all vel og þótti mikið hagræði.
Og svo kemur þá bréfið:
Búastöðum, h. 16. júní 1894.
Mín heittelskaða góða dóttir Jóhanna.
Góður Guð gefi þér, manni þínum og litlu Rós allar stundir til ánægju og farsældar til lífs og sálar.
Nú loksins tek ég mér penna í hönd og setzt við að rita ykkur nokkrar línur í þeirri von og með þeirri hjartans heitustu ósk, að þær mættu finna ykkur öll heil og glöð á húfi, eins og okkur öllum þínum hér heima líður bærilega, lofaður veri góður Guð um alla tíð.
Við foreldrar þínir höfum haft all góða heilsu liðinn vetur að þessum degi, nema hvað þreytan fer æ í vöxt. Samt er mamma þín þetta lökust af sínum gamla verki og lítt skriðkná öðru hvoru. Í innflúensusóttinni lágum við bæði nokkra daga, hún þó færri en ég. En nú erum við bæði vesöl og þó fremur hún. Við höldum það eftirstöðvar inflúensusóttarinnar, því að nú gengur hér aftur almennt bólga í öllum líkamanum bæði útvortis og innvortis, með magnleysi, svefnleysi og lystarleysi. En öllum hefur skánað eftir nokkra daga.
Ég veit ekki, hvað ég á helzt að segja þér í fréttum. Víst er nóg til, ef ég myndi eftir þeim. Ég hefi sagt Steinku systur þinni dálítið, helzt af heimilishögum okkar heima og aflaleysi með fleiru, sem ég hefi beðið hana að sýna þér, eins og ég vil biðja þig að lofa henni að lesa bréf þín, ef nokkurs væru nýt.
Hér hafa fáir dáið í vetur, sízt af gagnsfólki. Þá má nefna Ingimund frá Draumbæ, sem dó úr innflúensusóttinni, og 4 önnur gamalmenni af sveitinni, flest, sem ég get ekki verið að telja upp. Nú er líka nýdáinn Þorsteinn í Móhúsum, mesti aumingi langa tíð, sem þú þekkir.
Þessi nefnda sótt hefur drepið mjög margt fólk um allt Ísland, fólk á góðum aldri, og mikið marga höfðingja, presta, lækna og sýslumenn, sem þið fáið að lesa um í blöðunum íslenzku, þeir sem þau !esa. T.d. í Múlasýslum voru 30 dauðir í einu prestakalli. Þar lágu líkin innan um fólk dauðveikt í rúmunum og enginn til hjálpar að flytja dauða fólkið út úr bæjunum frá því, sem lífs var. Eins heyrðist, að fénaður hefði staðið inni hjálparlaus dægrum saman.
Nú er kominn 16. júlí.
Mín góða Jóhanna! Af því að póstskipið átti ekki að fara beint til Englands, heldur kringum Ísland aftur og til Reykjavíkur, þá létum við ekki bréfin fara í þeirri ferðinni, þó að sumir gjörðu það í þeirri von, að „Laura“ hitti „Thyru“ á Austfjörðum. Og biðjum við þig mikið að fyrirgefa, hve seint og sjaldan þið fáið bréf frá okkur heima.
Ég hefi alltaf svo mikið að gjöra, að ég er í vandræðum með það.
Nú er ég búinn að vera í Ellirey í þrjár vikur til að veiða svartfugl. Drengirnir mínir voru ekki anteknir, því að þar eru erfiðar ferðir og mjög há sig, en bráðum kem ég heim til að slá túnin, ef einhverntíma batnar tíðin.
Líka hefi ég slegið Ellirey, en tíðin er svo vond, að okkar fáu vertíðarfiskar eru enn ólagðir inn í Búðina, tólf og hálfa viku af sumri, auk heldur að nokkur baggi hafi náðst af heyi. Við erum búnir að fá í hlut af svartfugli 250 og 200 lunda. Við erum nú að byrja að veiða hann, og lítur út fyrir, að hann verði dálítill. Það mun líka koma sér vel, því að hér lítur út fyrir mestu bágindi af hinu ómuna aflaleysi hér nú í hálft annað ár. Ég er nýbúinn að skrifa Árna þínum um öll þau bágindi, og læt ég bæði bréfin ykkar í sama umslagið, svo að ég vona, að þið getið séð þau hvort hjá öðru.
Mér þykir verst, hvað þau eru fréttalítil um það, sem ykkur langar helzt að heyra.
Það deyr hér enginn og allflestir heilbrigðir. Þó má nefna Sæmund í Draumbæ. Hann hefur legið síðan snemma á vertíð í meinlæti ... Þá fór hann suður til landlæknis í vor og kostaði 30 krónur skurðurinn, en ferðin alls um 100 krónur, svo að þú sérð, að aumingja karlinn hefur verið mæðumaður þetta ár, að missa nýborna kú um veturnætur og Ingimund sinn á vertíðinni. Þó að hann væri sífellt heilsulasinn, þá var hann þó ráðmaður hinn bezti og aldrei iðjulaus. Þó er nú Sæmundur kominn á fætur, en getur ekkert gjört.
Bryde er nú búinn að reka Jes Thomsen úr Godthaab. Hann átti að fara í dag, en Jóhann Bjarnasen mun hafa móður sinnar vegna gengið í það, að hann fái að vera þennan mánuð út, og heyrist, að engir geti eða vilji ljá honum kompu. Helzt nú á orði, að Gísli bróðir þinn ætli að skjóta yfir þau skjólshúsi fyrst um sinn, ef þeim verður ekkert annað til. Sagt er, að sýslumaður fari í Godthaab, þegar búið er að bæta húsin. Hann verður þá hér til vorsins, en líklegra, að hann fái Suður-Múlasýslu í vor. Honum þykir hér lág laun, en betri víðast annars staðar. Hér er lítil og hæg sýsla.
Við öll hér biðjum mjög vel að heilsa litlu, ljúfu Rós, og hugsar mamma þín oft til hennar, þegar hún sér telpurnar á Vesturhúsum, Sínu og Steinku litlu, sem kemur oft hingað að gamni sínu. Líka höfum við gaman að henni. Hún er svo lík Stínu litlu á fæti og í vexti. Þetta og margt fleira rifjar upp fyrir okkur gamlan söknuð ykkar skemmtilegu barna, og er nú víst ekki trútt um, að okkur langi vestur, þó að þar hafi víst ekki verið gott síðast liðið ár, því er nú ver, eftir því sem flestir skrifa. En hér er líka það langversta árferði, sem menn muna. Vonandi er, að skaparinn bæti úr því, ef hann ætlar mönnum að lifa.
Mín góða elsku Jóa. Ég veit þér leiðist að lesa þetta rugl, því að ég er að flýta mér. Nú snögga ferð heim úr Ellirey. En póstskipið á að koma hér á morgun frá Kaupmannahöfn. Það heitir „Botnía“, (aukaferð), og er von á mörgu ferðafólki með því, bæði ensku og frá Höfn, undir forustu Nikolaj Thomsen eins og í fyrra.
Berðu mjög góða kveðju mína Vilhelm Thomsen og segðu honum, að mig langi til að senda honum mynd seinna. Líka, að ég sé enn hafnsögumaður, en lengur ætli ég ekki að vera það en þetta sumar. Þá búinn að vera 25 1/2 ár eða 1/4 aldar. Sömuleiðis bið ég að heilsa kæra Sigurði mínum Árnasyni með hjartans þökk fyrir öll góðverk ykkur systrum auðsýnd í orði og verki. Það er ekki svo mikið, að ég komist til að skrifa honum, og verð því svikari við hann. Líka vil ég heilsa öllum mínum gömlu kunningjunum, sem kveðju minni og okkar vilja taka.
Það heyrist ekki nefnt, að nokkur ætli héðan vestur og enginn missísjeri (missionær) hefur komið hingað frá Utah. Þórarinn hefi ég ekki heyrt nefndan síðan í vor, að hann kom til Reykjavíkur, svo að þér verður ekki sent eitt lóð af fræi, sem þig langaði að fá. Heldur ekki blómafræi, nema það yrði viss ferð, því að lítt mögulegt mun vera að senda svoleiðis í bréfum.
Ég hefi svo ekki í þetta sinn fleira, af því að tíminn leyfir ekki að segja ykkur, þó að ótal fleira mætti tína til, ef tíminn leyfði. Ég bið þig mikið vel að fyrirgefa mér þetta ófullkomna flýtisbréf.
Fyrir fáum dögum eignaðist Ólöf systir þín efnilegan son. Hún mun fara á fætur í dag. Hefur henni ekki heilsazt upp á það bezta, því að hún er heilsutæp. Þau eiga nú 4 börn, þrjá syni og eina dóttur. Þessi yngsti er óskírður.
Gísli bróðir þinn er nú í Álsey að veiða lunda og hefur hjá sér julið sitt til að fiska á á milli og flytja fuglinn heim í Víkina.
Kveðjum við þig svo öll, foreldrar þínir og systkin, og felum þig og elsku litlu Rós góðum Guði um tíma og eilífð óskandi þess, að við mættum fá góð bréf frá ykkur næst, og óskum ykkur góðrar líðunar til lífs og sálar.
Þínir til dauðans heitt elskandi foreldrar.

Lárus Jónsson og
Kristín Gísladóttir.