Hörður Haraldsson (Steinsstöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Hörður Haraldsson.

Hörður Haraldsson frá Steinsstöðum, viðskiptafræðingur, kennari, afreksmaður í íþróttum, tónlistarmaður, teiknari fæddist 11. september 1929 á Vegamótum við Urðaveg 4 og lést 5. október 2010 á hjúkrunarheimilinu Grund.
Foreldrar hans voru Haraldur Eiríksson rafvirkjameistari, f. 21. júní 1896, d. 7. apríl 1986 og kona hans Solveig Soffía Jesdóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur, yfirhjúkrunarkona, f. 12. október 1897, d. 6. febrúar 1984.

Börn Sólveigar og Haraldar:
1. Hörður Haraldsson viðskiptafræðingur og málari, kennari við Háskólann á Bifröst, margfaldur meistari í spretthlaupum, f. 11. september 1929, d. 5. október 2010.
2. Eiríkur Haraldsson íþróttafræðingur, magister í þýsku, menntaskólakennari og frömuður við skíðasvæðið í Kerlingarfjöllum, f. 12. mars 1931.
3. Ágúst Pétur Haraldsson véltæknifræðingur, f. 13. október 1935.

Hörður var með foreldrum sínum, bjó með þeim á Vegamótum, í Suðurgarði og á Skólavegi 1 .
Hann lauk miðskólaprófi í Gagnfræðaskólanum 1946, stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1951, var í myndlistarnámi hjá danska myndhöggvaranum Aage Edvin, lauk teiknikennaraprófi í Myndlista og handíðaskólanum 1954, lauk prófum í viðskiptafræði (varð cand. oecon) í Háskóla Íslands 1955. Hann lærði þýsku í sumarskóla í Austurríki, kynnti sér kvikmyndasöfn í París og myndlist í Madrid.
Hann lærði á gítar hjá Oddgeiri Kristjánssyni.
Hörður var kennari í rekstrar- og þjóðhagfræði í Samvinnuskólanum á Bifröst í Borgarfirði frá 1956, einnig eftir að skólinn komst á háskólastig. Hann hætti kennslu 1992.
Hörður var afreksmaður í íþróttum, var margfaldur Íslandsmeistari í sprett- og boðhlaupum, var í landsliði Íslands, fyrst gegn Dönum 1950. Hörður var í landsliði Íslands í landskeppni Norðmanna, Dana og Íslendinga 1951. Þar sigruðu Íslendingar og Hörður var stigahæsti keppandinn. Hann keppti á Olympíuleikunum 1952.
Hörður var skáti og var félagi í Útlögum í Reykjavík, félagi brottfluttra Eyjaskáta.
Hörður teiknaði árum saman myndir af nemendum í Samvinnuskólanum í Bifröst í árbók þeirra, Ecce homo. Einnig gerði hann Trölla, fyrstu teiknuðu auglýsingakvikmyndina fyrir sjónvarp. Einnig lék hann með skólahljómsveitum á Bifröst.
Hann hélt nokkrar málverkasýningar.
Hörður var ókvæntur og barnlaus, en naut umhyggju Sigurbjargar Sigurðardóttur (Stellu) æskuvinkonu sinnar síðustu ár sín.
Hann lést 2010.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.