Jón Guðmundsson (Gamla-Hrauni)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Ingibjörg Jónsdóttir 65 ára og Jón Guðmundsson 75 ára.

Jón Guðmundsson formaður og bóndi á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka fæddist þar 17. september 1856 og lést 1. febrúar 1939 í Skálanesi.
Faðir Jóns var Guðmundur bóndi og formaður á Gamla-Hrauni, f. 10. júlí 1830, d. 21. febrúar 1914, Þorkelsson bónda í Mundakoti, f. 1802, d. 29. apríl 1880, Einarssonar „ríka“ Hannessonar, og konu Þorkels í Mundakoti, Guðrúnar húsfreyju, f. 1804, d. 8. júní 1863, Magnúsdóttur í Mundakoti Arasonar.
Móðir Jóns á Gamla-Hrauni og kona Guðmundar Þorkelssonar var Þóra húsfreyja, f. 24. október 1830, d. 4. september 1918, Símonardóttir bónda, skipasmiðs og formanns í Brautartungu í Stokkseyrarhreppi, en lengst á Gamla-Hrauni, f. 1801 í Simbakoti, d. 21. nóvember 1881, Þorkelssonar bónda, skipasmiðs og hreppstjóra á Gamla-Hrauni, Jónssonar og konu Þorkels, Valgerðar húsfreyju, f. 1765, d. 7. febrúar 1859, Aradóttur Jónssonar.
Þóra var eftirsótt til hjúskapar. Tyrfingur Snorrason formaður á Stokkseyri var einn þeirra, sem á sóttu, en missti af til Guðmundar Þorkelssonar. Tyrfingur kvæntist ekki. Hann kvað:

Eg á fljóðum fæ ei ást,
finn því hljóður trega,
því sú góða Þóra brást;
það fór slóðalega.

Móðir Þóru og kona Símonar var Sesselja húsfreyja og móðir amk. 15 barna, f. 1801, d. 1859, Jónsdóttir bónda á Ásgautsstöðum, Óseyrarnesi (Nesi), síðast á Selfossi, f. 1767, d. 8. febrúar 1856, Símonarsonar og konu Jóns Símonarsonar, Guðrúnar húsfreyju frá Kakkarhjáleigu (síðar nefnt Hoftún), f. 1769, d. 15. apríl 1837, Snorradóttur, Knútssonar.

Jón ólst upp með foreldrum sínum á Gamla-Hrauni. Hann hóf sjómennsku í Þorlákshöfn veturinn eftir fermingu.
Hann og Jón Þorkelsson frændi hans á Vestri-Móhúsum réðust í að eignast nýtt skip, ,,Farsæl‘‘, sem Jón gerðist formaður á 1879, þá 22 ára að aldri. Einnig var hann vinnumaður hjá foreldrum sínum og eignaðist nokkurn bústofn.br> Hann leigði Stöðlakot í Hraunshverfi við fráfall bóndans þar, réði til sín bústýru, Vigdísi Jónsdóttur, en þau voru systkinabörn. Þau giftu sig um haustið 1881.
Þau höfðu nokkurn búskap, en megin afkoma þeirra byggðist á sjósókn Jóns. Þau eignuðust Þorkel 1882, en hann dó nokkurra vikna gamall. Heilsa Vigdísar bilaði við þetta og lést hún veturinn eftir, 27 ára gömul.
Jón hætti búskap og dvaldist í húsmennsku hjá foreldrum sínum á Gamla-Hrauni næsta ár.
Hann gerðist vinnumaður á Borg í Hraunshverfi, en fékk jafnframt að stunda vetrarvertíðir í Þorlákshöfn.
Á Borg var Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir þá 16 ára vinnustúlka.
Þegar þau höfðu verið á Borg í rúmt ár fæddist þeim fyrsta barn þeirra. Það var Vigdís, skírð eftir konu Jóns.
Vorið 1886 komust þau að Framnesi í húsmennsku, voru þar í sex ár og eignuðust þar 4 börn, en einu þeirra, Gunnari Marel urðu þau að koma í fóstur 5 mánaða gömlum. Hann fór að Byggðarhorni og ólst þar upp að öllu leyti.
Þau Jón giftu sig 1888. Hann flutti útveg sinn frá Þorlákshöfn að Stokkseyri 1889.
Þau komust á hluta Gamla-Hraunsjarðarinnar 1892 og bjuggu þar í 9 ár, eignuðust þar 4 börn.
Jón var formaður árum saman. Brynjólfur Jónsson á Minna-Núpi orti formannavísu um Jón:

Jón á sjóinn setur far,
sonur tjáist Guðmundar,
Borg er frá án búskapar,
í blóma sá er æskunnar.

Símon Dalaskáld orti um Jón á síðustu vertíð hans í Þorlákshöfn:

Jón með háa hugprýði
hlutar snilldarlega.
Þessi frá er Framnesi
fáki ráar stýrandi.
Stýra sunda mæki má
mikið snilldarlega,
er Guðmundar sonur sá
Síldar grundu djarfur á.

Jón flutti útveg sinn frá Þorlákshöfn til Stokkseyrar 1889. Þá hafði hann verið formaður þar 10 vertíðir (1879-1888). Á Stokkseyri var hann formaður 9 vertíðir, en á þessu skeiði var sjósókn meiri á Stokkeyri en nokkru sinni, t.d. voru 45 skip gerð þar út 1891. Stærstu skip þar voru áttæringar nema ,,Farsæll‘‘ Jóns, sem var teinæringur. Hann var venjulega meðal þeira formanna, sem mest öfluðu.
Jón veiktist alvarlega í byrjun sláttar 1899 og var frá sjómennsku og heyöflun um langa hríð. Þrjú barnanna voru í sveit, en sex voru heima. Varð Jón að selja vertíðarskip sitt. Þau bjuggu enn í 2 ár, en Ingibjörg réðst í kaupavinnu að Leirubakka á Landi og börnin voru í sveit um sumarið.
Þá gerðist það að eigandi Gamla-Hrauns, frændi Jóns, seldi jörðina og misstu hjónin þá jarðnæðið og urðu að leita aðstoðar sveitarinnar, en börnunum var komið fyrir. Þórður og Aðalbjörg fóru að Selparti í Flóa; Ágúst fór að Gamla-Hrauni og var þar síðan; Dagmar fór fyrst að Oddagörðum, en var síðar tekin í fóstur í Káragerði á Eyrarbakka; Haraldur fór einnig að Oddagörðum, en síðar í Norðurbæ hjá Einarshöfn. Hjónin sluppu með naumindum undan því að vera ráðstafað af sveitarstjórninni.
Jón fór suður og vann þar fyrir meðlagi barnanna eftir getu, en Ingibjörg var ófrísk af 10. barninu og fékk inni hjá vinkonu sinni, Jónínu Þórðardóttur í Sjávargötu í Hraunshverfi og vann fyrir sér eftir getu.
Hún fæddi Guðna um sumarið, kom honum í fóstur að Byggðarhorni, en fékk vinnu á Leirubakka að nýju og tók Guðna síðar með sér þangað. Þar ólst hann síðan upp, en Ingibjörg vann þar 1902-1903, en síðan á ýmsum bæjum um hríð.
Hún eignaðist 11. barnið, Sigurbjörgu, 1903 á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Hún fór þegar á fyrsta ári í fóstur að Steinsbæ á Eyrarbakka og ólst þar upp að öllu leyti.
Þeim hjónum tókst að lyktum að stofna heimili á Framnesi 1904. Þar voru þau næstu tvö árin og eignuðust á þeim tíma tvö börn, Lúðvík og Ágústu.

ctr


Gamla-Hraun.


Vorið 1906 fluttust þau að Gamla-Hrauni og bjuggu þar síðan. Þar fæddust þeim fjögur börn. Þau voru Guðmundur Júníus, Þorsteinn Páll, Jónína Helga og Anna Katrín.
Hjónin gátu nú haft börnin hjá sér lengur eða skemur.
Þórður sonur þeirra tók Ágústu systur sína með sér til Eyja 1910. Hún fór síða til Gíslínu móðursystur sinnar í Ásgarði, og 1910 fór Lúðvík í fóstur að Ásgarði.
1933 fór síðasta barnið alfarið að heiman. Ingibjörg var þá 66 ára og Jón 77.
Hjónin dvöldu af og til í Eyjum á efri árum sínum, en oftar og lengur eftir 1930. Þá dvöldu þau í Eyjum á vetrum og voru talin burtflutt frá Gaml-Hrauni til Eyja 1935.
Þau bjuggu í Nýborg, sem var í eigu Guðmundar sonar þeirra á Háeyri.
Ingibjörg veiktist af lungnabólgu síðla vetrar 1937 og lést úr henni. Hún var grafin á Eyrarbakka.
Jón fluttist til Þórðar sonar síns og Kristbjargar Stefánsdóttur í Vallartúni, en síðar með Kristbjörgu að Skálanesi og þar lést hann 1941. Hann var jarðsettur á Eyrarbakka.

ctr


Úr samkvæmi, er minnst var 100. fæðingardags Jóns á Gamla-Hrauni.
Sitjandi frá vinstri: Margrét Árnadóttir, Aðalbjörg Jónsdóttir, Jónína Jónsdóttir, Sigríður Einarsdóttir, Ágústa Jónsdóttir, Sigurbjörg Jónsdóttir, Anna Jónsdóttir, Lovísa Þórðardóttir, Guðríður Snorradóttir.
Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Júníus Jónsson, Þorsteinn Páll Jónsson, Gunnar Marel Jónsson, Logi Sveinsson, Guðni Jónsson, Skarphéðinn Helgason, Guðmundur Jónsson, Bernharð Helgason, Ólafur Þorleifsson, Lúðvík Jónsson, Haraldur Jónsson.
Ljómyndari Vignir

Jón var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans, (10. nóvember 1881), var Vigdís Jónsdóttir húsfreyja frá Lillu-Sandvík, f. 6. nóvember 1855, d. 27. janúar 1883.
Barn þeirra var
1. Þorkell Jónsson, f. 23. júní 1882, d. 30. júlí 1882.

II. Síðari kona Jóns, (25. nóvember 1888), var Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir húsfreyja, f. 1. september 1867 á Miðhúsum í Sandvíkurhreppi í Flóa, d. 2. apríl 1937 í Eyjum.
Börn þeirra voru:
1. Vigdís Jónsdóttir húsfreyja í Selkirk í Kanada, f. 27. júní 1885.
2. Þórður Jónsson formaður og skipasmiður á Bergi, f. 10. júní 1887, d. 1. febrúar 1939.
3. Guðmundur Jónsson formaður, skipasmiður á Háeyri, f. 14. október 1888, d. 27. nóvember 1976.
4. Guðrún Aðalbjörg Jónsdóttir húsfreyja á Tjörn á Stokkseyri, f. 22. október 1889, d. 6. október 1976.
5. Gunnar Marel Jónsson formaður og skipasmiður, f. 6. janúar 1891, d. 7. maí 1979.
6. Magnús Valdimar Jónsson skipasmiður á Bergi, f. 27. október 1892, d. 13. október 1920.
7. Ágúst Jónsson, f. 9. ágúst 1894, d. 4. desember 1905.
8. Ingiríður Dagmar Jónsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 12. ágúst 1895, d. 7. maí 1986.
9. Haraldur Jónsson sjómaður á Bergi, f. 18. nóvember 1899, d. 20. febrúar 1962.
10. Guðni Jónsson prófessor, f. 22. júlí 1901, d. 4. mars 1974. Hann var kennari við unglingaskóla í Eyjum 1926-1927.
11. Sigurbjörg Jónsdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 3. ágúst 1903, d. 1. september 1995.
12. Lúðvík Jónsson bakarameistari, síðar á Selfossi, f. 14. október 1904, d. 21. mars 1983. Hann ólst upp hjá Árna Filippussyni og Gíslínu Jónsdóttur í Ásgarði, en Gíslína var móðursystir hans.
13. Ágústína Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, f. 11. mars 1906, d. 1. nóvember 1989. Hún ólst upp um skeið hjá Þórði á Bergi, en lengst í Ásgarði hjá Árna og Gíslínu.
14. Guðmundur Júníus Jónsson sjómaður í Eyjum, síðar skipstjóri á Akranesi, f. 29. júní 1908, d. 22. ágúst 1972.
15. Þorsteinn Páll Jónsson símavarðstjóri í Reykjavík, f. 15. ágúst 1909, d. 25. júlí 1982.
16. Jónína Helga Jónsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 29. desember 1910, d. 31. janúar 1992.
17. Anna Katrín Jónsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 27. apríl 1912, d. 23. maí 1999.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Bergsætt II. útgáfa. Guðni Jónsson 1966.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Saga Hraunhverfis á Eyrarbakka. Guðni Jónsson. Prentsmiðjan Hólar H.f. 1958.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.