Magnús Ólafsson Bergmann

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Magnús Ólafsson Bergmann verslunarstjóri (faktor), lögsagnari, fæddist 1774 á Vindhæli á Skagaströnd og lést 18. ágúst 1848 í Efrihrepp í Borgarfirði.
Foreldrar hans voru Ólafur Guðmundsson bóndi á Vindhæli, f. 1725, d. í ágúst 1797, og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 1744, var á lífi 1801.

Magnús var bróðir Helga Ólafssonar Bergmann lögsagnara á Gjábakka f. 1772, d. 27. ágúst 1818.

Magnús var verslunarstjóri í Reykjavík um aldamótin 1800, var í Kaupmannahöfn 1801. Þau Þórunn giftu sig 1804. Magnús var fyrsti formaður á áraskipinu Þurfalingi, en var orðinn verslunarstjóri hjá Westy Petreus í Garðinum 1812. Þau Þórunn bjuggu þá í Kornhól. Börnin voru 5, Björn 8 ára, Teitur 7 ára, Guðríður 6 ára, Guðúnu 2 ára og Margrét á fyrsta ári. Þar var hann með sömu áhöfn 1813, en 1814 var Teitur ekki með þeim. Hann var í fóstri á Hlíðarenda í Fljótshlíð hjá Vigfúsi Thorarensen sýslumanni. 1815 hafði Jón bæst við hópinn.
1816 bjuggu hjónin á Gjábakka, en Grímur Pálsson var orðinn faktor í Kornhól.
Þau eignuðust tvíbura í maí 1817, en þeir dó báðir nokkurra daga gamlir, og Björn sonur þeirra hrapaði til bana í Bjarnarey í júlí. 1819 eignuðust þau andvana sveinbarn.
Magnús var skráður lögsagnari, eini titill hans 1820, og hefur líklega tekið við starfinu af Helga bróður sínum, sem lést 1818. Teitur var kominn til þeirra að nýju.
Magnús var bátsformaður í Eyjum á vertíðum og þótti djarfur og mikill fiskimaður. (Sjá Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Áminningarræðan.
Þau fluttust að Skildinganesi 1823 með 4 börn sín, Teit, Jón, Guðríði og Guðrúnu.
Hann var verslunarstjóri Rödgaardsverslunar í Reykjavík.
Þórunn lést 1830. Magnús fluttist til Björns Olsen bróður síns, bónda á Þingeyrarklaustri, og var þar 1835, um skeið á Hólanesi við Skagaströnd, en 1840 og 1845 hjá Guðrúnu dóttur sinni í Efrihrepp í Borgarfirði.
Hann lést 1848 „yfirbugaður af ellinni“.

Kona Magnúsar, (8. september 1804), var Þórunn Teitsdóttir húsfreyja, f. 30. janúar 1776, d. 14. ágúst 1830.
Börn þeirra hér:
1. Björn Magnússon, f. 13. júni 1805 í Reykjavík, hrapaði til bana úr Hrútaskorum í Bjarnarey 7. júlí 1817.
2. Teitur Bergmann Magnússon silfursmiður í Litlabæ á Álftanesi, f. 15. júlí 1806, d. 10. nóvember 1849.
3. Guðríður Magnúsdóttir húsfreyja prestkona í Miklaholti í Hnappadalssýslu 1860, f. 1. október 1807 í Reykjavík, d. 14. júlí 1880.
4. Guðrún Magnúsdóttir húsfreyja víða í Borgarfirði, síðast á Læk í Leirársveit, f. 1810 í Reykjavík, d. 23. maí 1866.
5. Margrét Magnúsdóttir vinnukona, f. 3. nóvember 1812 í Kornhól. Hún var vinnukona á Þingeyrarklaustri 1835, hjá Guðríði systur sinni á Stað í Grindavík 1845 og 1850, hjá henni í Miklaholti í Hnapp. 1855 og 1860, fluttist til systur sinnar að Læk í Melasveit 1864, þaðan að Kjaransstöðum á Skipaskaga, lést þar 16. maí 1866.
6. Jón Magnússon Bergmann bóndi á Hópi í Grindavík 1850, kvæntur bóndi, vinnumaður í Miklaholti í Hnapp. 1870, f. 8. desember 1815 í Kornhól.
7. Sigríður Magnúsdóttir, tvíburi, f. 10. maí 1817, d. 17. maí 1817 úr „Barnaveikleika“.
8. Guðmundur Magnússon, tvíburi, f. 10. maí 1817, d. 15. maí „deiði af barnaveikinni“.
9. Andvana fætt sveinbarn 11. nóvember 1819.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.