Sveinn Sveinsson (Háagarði)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Sveinn Sveinsson sjávarbóndi í Háagarði fæddist 26. desember 1825 í Efri-Ey (á Hóli) í Meðallandi og drukknaði 30. mars 1859.
Faðir hans var Sveinn bóndi á Hóli (Efri-Ey) í Meðallandi, f. 1778 í Nýjabæ í Meðallandi, d. 13. desember 1840 á Hóli, Jónsson bónda, síðast í Efri-Ey, f. 1729, Jónssonar bónda síðast í Hraungerði í Álftaveri, f. 1697, Erasmussonar og óþekktrar konu Jóns Erasmussonar.
Móðir Sveins Jónssonar á Hóli og fyrri kona Jóns Jónssonar í Efri-Ey var Valgerður húsfreyja, f. 1736, d. 27. október 1793, Sveinsdóttir bónda á Syðri-Fljótum í Meðallandi, f. 1711, d. um 1765, Sigurðssonar, og konu Sveins, Helgu húsfreyju, f. 1706, Árnadóttur .

Móðir Sveins í Háagarði og barnsmóðir Sveins á Hóli var Úlfheiður Jónsdóttir, síðar húsfreyju í Nýjabæjarhjalli og París, f. 28. september 1804, d. 15. september 1866.

Sveinn var 10 ára með föður sínum og fósturmóður í Efr-Ey 1835 og 15 ára þar 1840.
Hann var 19 ára vinnumaður á Ofanleiti 1845, kvæntur tómthúsmaður í Götu 1850 með Valgerði konu sinni og barninu Sigríði 2 ára.
Við skráningu 1855 var hann kominn að Háagarði með konu og börnin Jósef 8 ára og Björgu 4 ára, en Sigríður var þar ekki. Hún var þá 7 ára fósturbarn á Búastöðum hjá Páli Jenssyni og Gróu Grímsdóttur.
Í Sögu Vestmannaeyja er sagt, að hann hafi látist á vertíð 1869 í Útilegunni miklu ásamt Jósef syni sínum, og Ísl.bók segir hann látinn þann dag og ár. Nafn hans er ekki meðal áhafnar, sem fórst þá, en Jósef sonur hans fórst þá af Blíð, - enda drukknaði Sveinn 33 ára ásamt Eyjólfi Guðmundssyni vinnumanni í Garðinum 24 ára „af skipi, sem týndist í róðri 30. mars þ.á“, þ.e. 1859, tíu árum fyrr samkv. prestþj.bók.

Kona Sveins, (15. maí 1848), var Valgerður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 31. ágúst 1822, d. 3. febrúar 1894.
Börn þeirra hér:
1. Sesselja Sveinsdóttir, f. 20. júlí 1846, d. 26. júlí 1846 úr ginklofa.
2. Sigríður Sveinsdóttir, f. 18. júní 1849, d. 2. september 1925.
3. Jósef Sveinsson, f. 9. júní 1848, drukknaði 26. febrúar 1869 í Útilegunni miklu.
4. Björg Sveinsdóttir, f. 11. mars 1852, fór til Vesturheims 1902. Maður hennar var Stefán Guðmundur Erlendsson, f. 1. september 1857.
5. Sigurður Sveinsson, f. 5. janúar 1855, d. 11. janúar 1855 úr ginklofa.
6. Ragnheiður Sveinsdóttir, f. 10. ágúst 1856, d. 27. febrúar 1916, kona Sigmundar Finnssonar í Uppsölum.
7. Sigurður Sveinsson, f. 6. október 1857, d. 12. október 1857 úr ginklofa.
8. Brynjólfur Sveinsson, f. 18. október 1858, d. 24. október 1858 úr ginklofa.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.