William Thomsen

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

William Thomsen verslunarstjóri í Garðinum fæddist 24. febrúar 1845 og mun hafa látist í Vesturheimi.
Foreldrar hans voru William Thomsen kaupmaður á Vatneyri við Patreksfjörð, f. 18. júní 1819 í Haderslev á Jótlandi, d. 22. júní 1853 á Vatneyri, og kona hans Ane Margrethe Thomsen, f. Knudsen, húsfreyja, f. 28. desember 1815 í Reykjavík, d. 4. nóvember 1884 á Ísafirði.

Bróðir Williams var Jes Nicolai Thomsen verslunarstjóri í Godthaab, (Miðbúðinni).
Föðurbróðir Williams var Hans Edvard Thomsen kaupmaður í Godthaab og bræðrungur hans var Nicolaj Heinrich Thomsen verslunarstjóri í Godthaab.

William kom til Eyja frá Kaupmannahöfn 1860, var 16 ára ,,búðardrengur“ í Godthaab 1860-1861, assistent búsettur í Frydendal 1862, en þá var enginn búandi í Godthaab.
Hann var verslunarstjóri (factor) í Godthaab 1864, assistent í Garðinum 1865-1868, en bróðir hans Jes Nicolai Thomsen var factor í Godthaab frá 1866. Verslunarþjónn í Garðinum var William 1869, skráður verslunarstjóri þar með Gísla Bjanasen 1870, verslunarþjónn þar 1871, en aftur verslunarstjóri 1872.
Gísli Bjarnasen var verslunarstjóri í Garðinum 1873, en William fór áleiðis til Ameríku á því ári.
William var gjaldkeri Skipaábyrgðarfélags Vestmannaeyja 1871 og formaður stjórnar félagsins 1872-1873.
Sýslumaðurinn skrifaði bæjarfógeta í Reykjavík bréf 27. apríl 1873 og varar hann við að veita William vegabréf til Ameríku þar sem hann ,,ætti ókláraða skuld við Bryde“ og mun átt við sjóðþurrð hjá versluninni.
Eitthvað hefur William farið í taugarnar á yfirvöldum í Eyjum. Seint á árinu 1863 gaf Bjarni Einar Magnússon sýslumaður William áminningu í lögreglurétti fyrir ,,að brúka meiðandi og ærukrenkjandi orð um og við meðborgara sína, og æsa fáfróða menn til að setja sig upp á móti sýslumanni eða svara honum óviðurkvæmilegum orðum“.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Jóhann Gunnar Ólafsson. Verzlunarstaðirnir í Vestmannaeyjum. Gamalt og nýtt, febrúar 1950. Útgefandi: Einar Sigurðsson, Vestmannaeyjum.
  • Knudsensætt 1-2. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Sögusteinn 1986.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.