Þorskur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Þorskur (Gadus morhua)

Stærð: Lengsti þorskur sem vitað er um af Íslandsmiðum mældist 181 cm en algeng stærð er um 62-65 cm.

Lýsing: Þorskurinn er straumlínulaga og rennilegur fiskur, hausstór, kjaftstór og undirmynntur. Augun eru stór. Á höku er skeggþráður. Bakuggarnir eru þrír og er miðugginn lengstur, raufaruggar eru tveir. Sporðblaðka er stór og þverstýfð fyrir endann. Eyruggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru framan við eyruggana, hreistur er smátt og rákin er greinileg. Liturinn er mjög breytilegur eftir aldri og umhverfi. Algengasti liturinn er gulgrár á baki og hliðum, með þéttum, dökkum smáblettum. Að neðan er þorskurinn ljósari og hvítur á kvið.

Heimkynni: Heimkynni þorsksins eru í N-Atlantshafi. Þar eru ýmsir þorskstofnar sem greinast í sundur að útbreiðslu, vexti og kynþroska. Helstu stofnar í NA-Atlandshafi eru Barentshafsstofninn, íslenski stofninn og stofnarnir við Grænland. Þá eru stofnar við Færeyjar, í Norðursjó, Eystrasalti og víðar. Í NV-Atlandshafi eru stærstu stofnar við Nýfundnaland og Labrador. Lítil blöndun er á milli Labradorstofnsins og V-Grænlandsstofnsins, en aftur á móti blandast Grænlandsstofnarnir og sá íslenski.

Lífshættir: Þorskurinn er botnfiskur, sem lifir á ýmsu dýpi. Hér við land er hann algengastur á 100-250m. dýpi og veiðist varla dýpra en á 550m. Hann fer oft upp um sjó í ætislelit en hann heldur sig líka á allskonar botni. Þorskurinn kann best við sig við 4-7° hita. Hann er ekki mjög næmur fyrir seltunni og finnst hann jafnt í fullsöltum sjó. Hann er all staðbundinn fyrstu ár ævinnar, eða þar til kynþroska er náð. Mestur hluti stofnsins í kalda sjónum gengur til hrygningar í heitari sjó þegar kynþroska er náð.

Fæða: Þorskurinn er mjög gráðugur fiskur og má segja að hann éti allt sem að kjafti kemur. Í mögum þorska hafa fundist flestir, ef ekki allir hópar dýra.

Hrygning: Hrygning hefst hér við land síðari hluta vetrar þ.e í mars við suðurströndina og er að mestu lokið í byrjun maí. Hann hrygnir við 5-7°C og er aðalhrygningarsvæðið á 50-150m. dýpi frá Dyrhólaey að Reykjanesi. Við Vestfirði og Norðurland byrjar hrygningin síðar, ekki fyrr en um mán.m. apríl-maí. Eggjafjöldinn er háður stærð hrygnunnar. Klakið tekur um 10-20 daga eftir hitastigi. Þegar seiðin eru orðin þriggja mánaða gömul fara þau að leita botnsins og hafa þá dreifst með straumum langt frá hrygningarslóðunum. Að lokinni hrygningu dreifir fullorðni þorskurinn sér.

Nytsemi: er mjög mikil. Þorskurinn er og hefur alla tíð verið með allra nytsömustu fiskum.