Steinbítur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Steinbítur (Anarhichas lupus)

Stærð: Hængar eru stærri en hrygnur. Algengasta stærðin er 50-80 cm en hann getur orðið allt að 120 cm. Stærsti steinbítur, sem hefur verið mældur á Íslandi, var 119 cm og veiddist hann við Papey árið 1985.

Lýsing: Steinbítur er með stóran kjaft og miklar tennur. Hann er langvaxinn með bakugga eftir endilöngum hrygg og einnig hefur hann langan raufugga. Hins vegar er hann ekki með kviðugga og er sporður hans lítill. Af því leiðir að steinbíturinn syndir ekki með aflhreyfingum ugganna heldur með bylgjuhreyfingum bolsins. Litur er oftast blágrár, en stundum grænleitur, með dekkri þverrákum á hvorri hlið. Kviður er oft dálítið ljósari.

Heimkynni: Heimkynni steinbíts eru í Barentshafi og N-Atlandshafi frá Svalbarða, Hvítahafi og Múrmanskströndum, meðfram Noregi og inn í vestanvert Eystrasalt, í Norðursjó og suður í Biskayaflóa. Þá er hann við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Í NV-Atlantshafi er hann við Grænland, Kanada frá Labrador og austurströnd Bandaríkjanna, suður til Þorskhöfða og jafnvel til Nýju-Jersey. Steinbítur finnst allt í kringum landið en er þó algengastur við Vestfirði, talsvert er um hann í sunnanverðum Faxaflóa á vorin og sumrin og við SA-land á sumrin.

Lífshættir: Hann er botnfiskur á 20-200 m dýpi. Hér við land hrygnir hann um hávetur og eru eggin 3-24 þúsund en fer eftir stærð fisksins.

Fæða: Steinbítur lifir á ýmsum botndýrum, sem hann bryður og mylur með sínum sterku tönnum. Tennurnar slitna fljótt og fær hann nýjar á undan hverri hrygningu. En einnig er hann talsverð fiskæta.

Hrygning: Hrygning steinbíts hér við land fer fram að hausti og snemma vetrar í okt-nóv. Aðalhrygningarstöðvar eru á 160-200 m dýpi við Vesturland og Vestfirði. Einnig hrygnir hann í Lónsdýpi undan SA-landi. Eggin eru 5-6 mm í þvermál og er það frekar stórt. Eftir að frjóvgun hefur farið fram er hrygnt í kökk, sem festur er við botninn.

Nytsemi: Steinbítur er víða veiddur en Íslandsmið eru eitt helsta veiðisvæðið og þá einna helst við Vestfirði. Helstu veiðarfærin eru lína og botnvarpa. Steinbítur er alls staðar vel metinn matfiskur.