Litli Karfi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Litli karfi (Sebastes viviparus)

Stærð: Litli karfi er mun minni en stóri karfi og verður um 18-30 cm á stærð. Lengsti fiskur sem veiðst hefur var um 38 cm.

Lýsing: Litli karfi er rauðgulgrár að lit að ofan og á hliðum og nær hvítur á kviðnum. Hann er með 4-5 dökkar þverrákir á baki og dökkan blett á kjálkabarðinu. Það eru 70-80 hreisturblöð meðfram rákinni og 11-13 hreisturblöð frá raufugga upp að rák. Neðri skoltur fisksins er totulaus, og eru augu hans stærri en stóra karfa. Menn eru ekki sammála um hvort greina eigi litla karfa sem tegund eða sem afbrigði af stóra karfa.

Heimkynni: Litli karfi finnst í N-Atlantshafi. Frá norðanverðum Noregi, suður í Norðursjó, við Skotland, við Færeyjar og Ísland. Hann er einnig við A-Grænland og við austurströnd Norður-Ameríku. Hér við land er hann aðallega við S- og SV-land, en einnig við V- og NV-land.

Lífshættir: Lifir grynnra og nær landi en stóri karfi og heldur sig mest á 40-100 m dýpi, fer samt niður á 200 m dýpi. Hann er helst þar sem er grýttur botn.

Fæða: Hann lifir á fiskseiðum og krabbadýrum.

Hrygning: Hann á lifandi afkvæmi á sumrin, 12-30 þúsund, seiðin eru 4-5 mm að stærð og er vöxturinn mjög hægur.

Nytsemi: Hann veiðist nær eingöngu með öðrum fiski og er sjaldan hirtur.