Guðmundur Ögmundsson (vitavörður)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðmundur Ögmundsson vitavörður og járnsmiður í Batavíu, fæddist 13. maí 1842 og lést 19. nóvember 1914.
Faðir hans var Ögmundur bóndi í Litla-Rimakoti í Þykkvabæ í Holtum, Rang. 1845, f. 10. maí 1806, d. 15. febrúar 1876, Guðmundsson bónda í Káragerði í V-Landeyjum og Hálaugsstöðum í Holtum, skírður 25. júlí 1765, d. 11. maí 1846, Ögmundssonar bónda í Tungu á Rangárvöllum, f. 1722, d. í október 1772, Sigurðssonar, og ókunnrar konu eða barnsmóður Ögmundar Sigurðssonar, (það er óljóst samkv. Rangvellingabók).
Móðir Ögmundar í Litla-Rimakoti og barnsmóðir Guðmundar í Káragerði var Níelsína Friðrika, síðar síðari kona Þórarins bónda Eiríkssonar á Glæsistöðum í V-Landeyjum og í Miðeyjarhólmi í A-Landeyjum; hún f. 1785 á Eyrarbakka, d. 5. september 1837, Níelsdóttir.
Móðir Guðmundar vitavarðar og kona Ögmundar í Litla-Rimakoti var Valgerður húsfreyja, f. 10. júlí 1804, d. 1. febrúar 1887, Ólafsdóttir bónda í Seli í Holtum, f. 24. apríl 1769, d. 14. nóvember 1827, Jónssonar bónda á Ægissíðu í Holtum, f. 1731, á lífi 1769, Þorsteinssonar, og konu Jóns, Guðrúnar húsfreyju, f. um 1742, Brandsdóttur.
Móðir Valgerðar og kona Ólafs í Seli var Ingveldur húsfreyja, f. 1779, d. 27. október 1867, Ísleifsdóttir bónda á Ásmundarstöðum í Holtum, f. 1756, d. 2. ágúst 1839, Hafliðasonar, og konu Ísleifs, Halldóru húsfreyju á Ásmundarstöðum 1801, f. 1742, d. 31. desember 1814, Einarsdóttur.

Guðmundur var albróðir Sigurðar í Brekkuhúsi og Ólafs Ögmundssonar föður Guðmundar á Hrafnagili og Þórdísar vinnukonu í Skuld.

Guðmundur var 4 ára með foreldrum sínum í Litla-Rimakoti í Holtum 1845, með þeim í Stöðlakoti þar 1850, 14 ára með þeim í Litla-Rimakoti 1855, 19 ára vinnumaður á Kirkjulandi í A-Landeyjum 1860.
Við manntal 1870 var hann 27 ára húsráðandi og sjávarbóndi í Brandshúsi með konu sinni Sigríði Ólafsdóttur 38 ára. Með þeim voru 3 börn hennar frá fyrra hjónabandi með Hreini Jónssyni og eitt barn, sem hún átti milli hjónabanda. Þar voru einnig tvö stúlkubörn þeirra hjóna, María Friðrika Guðmundsdóttir, f. 3. mars 1868 og Jóhanna Sigríður Guðmundsdóttir, f. 29. september 1870, d. 5. október 1870.
Við manntal 1890 voru miklar breytingar orðnar á högum Guðmundar. Hann var búinn að byggja Batavíu á lóð Brandshúss, var þar með síðari konu sinni Ingibjörgu Sigurðardóttur 35 ára, barni hennar Jóni Filippussyni 13 ára og syni þeirra hjóna, Friðriki Jóhanni eins árs.
1901 hafði bæst við barnið Sigríður Filippía Guðmundsdóttir 6 ára, og stjúpi Ingibjargar, Jón Jónsson 70 ára, fyrrum bóndi á Búðarhóli í A-Landeyjum og síðari maður Sigríðar Erlendsdóttur, móður Ingibjargar.
Við manntal 1910 var Guðmundur hjá Friðriki syni sínum og fjölskyldu hans í Túni.
Vitinn á Stórhöfða tók til starfa 1. október 1906. Guðmundur Ögmundsson var fyrsti vitavörðurinn. Því starfi gegndi Guðmundur með hjálp Friðriks sonar síns við erfiðar aðstæður til ársins 1910.

Guðmundur var tvíkvæntur:
I. Fyrri kona hans, (8. nóvember 1867), var Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, f. 17. ágúst 1830, d. 1. júlí 1886. Hún var þá ekkja eftir Hrein Jónsson tómthúsmann í Brandshúsi, en hann hafði farist með skipinu Hansínu í mars 1863.
Börn Guðmundar og Sigríðar hér:
1. María Friðrika Guðmundsdóttir, f. 3. mars 1868. Hún fór til Vesturheims.
2. Jóhanna Sigríður Guðmundsdóttir, f. 29. september 1870, d. 5. október 1870 úr ginklofa.
3. Jóhanna Sigríður Guðmundsdóttir, f. 7. desember 1872, húsfreyja í Reykjavík. Hún fór til Vesturheims 1909.

Börn Sigríðar frá fyrra hjónabandi:
4. Ingibjörg Hreinsdóttir húsfreyja á Garðsstöðum, f. 13. janúar 1854, d. 18. nóvember 1922, gift Jóni Einarssyni.
5. Andvana sonur, f. 26. mars 1856.
6. Jón Hreinsson kaupmaður í Spanish Fork í Utah, f. 21. janúar 1858, d. 7. október 1948, kvæntur Kristínu Guðmundsdóttur.
7. Ólafur Guðjón Hreinsson í París, f. 8. október 1862, d. 28. maí 1890, bjó með Hildi Eyjólfsdóttur.

II. Barn, sem Sigríður eignaðist með Nikolai Heinrich Thomsen milli hjónabanda:
8. Nikólína Thomsen, f. 12. mars 1865. Hún fór til Vesturheims.

III. Síðari kona Guðmundar í Batavíu, (5. október 1888), var Ingibjörg Sigurðardóttir húsfreyja, f. 13. maí 1855 á Búðarhóli í A-Landeyjum, d. 16. febrúar 1906.
Börn Guðmundar og Ingibjargar hér:
9. Friðrik Jóhann Guðmundsson vélstjóri, landverkamaður og múrari, f. 2. nóvember 1888, d. 10. júní 1980.
10. Sigríður Filippía Guðmundsdóttir, f. 21. apríl 1895, d. 26. júní 1903.
11. Guðbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Hvanneyri, f. 18. október 1891, d. 27. apríl 1965.

IV. Barn Ingibjargar með Filippusi Jónssyni frá Þórunúpi í Hvolhreppi, f. 1854, d. 30. apríl 1879:
12. Jóni Filippussyni sjómaður, f. 14. september 1878, d. 23. júlí 1956. Fór til Vesturheims 1902 frá Dalbæ. Með honum fóru kona hans Jóhanna Sigríður Jónsdóttir 25 ára og barn þeirra Ólafur Vídalín Jónsson þriggja ára.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Árni Árnason.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Rangvellingabók. Valgeir Sigurðsson. Rangárvallahreppur, Hellu 1982.
  • Vesturfaraskrá 1870-1914. Júníus H. Kristinsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1983.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.